Saga og bakgrunnur

Saga og bakgrunnur

 

Sveitarfélög í Þingeyjarsýslum, ásamt Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hafa um áratuga skeið (frá 1976) leitað leiða til að kanna og nýta háhita á Þeistareykjum.  Háhiti í Kröflu var virkjaður upp úr 1980, eða um það leyti sem Kröflueldar geisuðu og í Bjarnarflagi hefur jarðhiti verið nýttur áratugum saman, bæði við Kísiliðjuna og til raforkuframleiðslu í smáum stíl.  Á árinu 2005 hófst samstarfsverkefni Iðnaðarráðuneytis, Alcoa og Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Akureyrarbæjar og Húsavíkurbæjar (nú Norðurþings) um athuganir vegna staðarvals fyrir hugsanlegt álver á Norðurlandi.  Niðurstaða þeirra athugana varð sú að Alcoa valdi Bakka við Húsavík í mars 2006.  Á grundvelli viljayfirlýsingar milli Alcoa, Iðnaðarráðuneytis og Norðurþings frá maí 2006 hefur verið unnið að hagkvæmniathugunum vegna álvers.  Sú viljayfirlýsing var framlengd í júní 2008 og gildir til hausts 2009.  Samhliða voru gerðar viljayfirlýsingar milli Alcoa og Landsvirkjunar/Þeistareykja ehf. og milli Alcoa og Landsnets, vegna orkurannsókna og athugana á raforkuflutningi frá háhitasvæðunum fjórum, þ.e. Bjarnarflagi, Kröflu, Gjástykki og Þeistareykjum.

Að byggja nokkur jarðhitaorkuver, orkuflutningsmannvirki, álver og höfn, yrðu lang stærstu verkefni sem farið hefur verið í á Norðurlandi.  Áhrifa mun gæta á ýmsum sviðum, meðal annars á umhverfi, efnahag og samfélag á austanverðu Norðurlandi.  Miklar rannsóknir hafa nú þegar farið fram og unnið verður að þeim áfram.  Vorið 2008 kom úrskurður frá Skipulagsstofnun um að framkvæmdirnar þyrftu ekki að fara í sameiginlegt umhverfismat.  Landvernd kærði þennan úrskurð til Umhverfisráðherra sem breytti úrskurði Skipulagsstofnunar í ágúst 2008 á þann veg að framkvæmdirnar í heild sinni eigi að meta sameiginlega.  Þar sem þetta eru fyrstu framkvæmdirnar sem fara í sameiginlegt mat þarf að skilgreina nýtt verklag fyrir sameiginlegt umhverfismat.