Gagnlegur og innihaldsríkur samráðsfundur

5.5.2010

Annar samráðsfundur Norðurlandsverkefnisins var haldinn í blíðskaparveðri í Mývatnssveit í gær. Á meðan sóli skein úti sátu ríflega 40 manns inni og fóru yfir hugmyndir að sjálfbærnimælingum fyrir verkefnið á Norðurlandi.

Á fundinum voru mættir 43 fulltrúar mismunandi hagsmunahópa sem allir höfðu dýrmæt sjónarmið sem eru mikilvægt innleg í Sjálfbærniverkefnið á Norðurlandi. Þar sem rúmt ár er síðan fyrsti samráðsfundur var haldinn á Húsavík fór töluverður tími í upprifjun á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og þeirri aðferðafræði sem stuðst er við í verkefninu. Farið var yfir grunninn, samvinnuna og hvað þarf að vera til staðar svo að sjálfbærnimælingar séu gagnlegar og góðar. Einnig var kynning á frummatsskýrslu á sameiginlegu mati vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda, línulagna og byggingu álvers í Þingeyjarsýslu. Að lokum settust fundarmenn í hópa og ræddu niðurstöðu og úrvinnslu fyrsta fundar. Hægt er að fylgjast með niðurstöðum fundarins og framhaldsvinnu hér á vefnum. 

Til baka