Sjálfbær þróun „í verki“ í blíðskapar veðri í Mývatnssveit

11.5.2010

Annar samráðsfundur Sjálfbærniverkefnisins á Norðurlandi var haldinn á þriðjudaginn 4. maí sl.

Á meðan sól skein í heiði sátu yfir 40 fundarmenn inni við og fóru yfir mögulega mælikvarða til þess að meta samfélags-, efnahags- og umhverfisleg áhrif framkvæmda og starfsemi virkjana og álvers, sem fyrirhugaðar eru í Þingeyjarsýslu. Hópurinn samanstóð af ýmsum hagsmunaaðilum með ólík sjónarmið, t.d. má nefna fulltrúa frá Ferðafélagi Húsavíkur, Alcoa, Landvernd, Byggðastofnun, Heilbirgiðseftirlitinu, sveitarfélögum og samtökum ferðaþjónustunnar. Auk vinnunnar við sjálfbærniverkefnið voru fundarmönnum kynntar niðurstöður frummatsskýrslu um sameiginleg umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda. Í lok fundarins voru flestir fundarmenn sammála um að fundurinn hefði verið lýðræðislegur og opinskár auk þess sem góð samræða hafi farið fram. Enn er verið að vinna úr fundargögnum en niðurstöður verða birtar innan tíðar hér á Sjálfbærnivefnum.

Alcoa Fjarðaál, Landsnet og Landsvirkjun eru eigendur Sjálfbærniverkefnisins á Norðurlandi, en annað slíkt verkefni er rekið á Austurlandi og nú þegar hefur hagnýtum upplýsingum verið safnað í samræmi við vöktunaráætlun þess verkefnis. Sjálfbærniverkefnið á Norðurlandi byggir á sömu aðferðarfræði og Austurlandsverkefnið, en ákveðið var að fara af stað með Norðurlandsverkefnið samhliða mati á umhverfisáhrifum þar sem menn töldu að þannig væri hægt að tryggja enn meiri gæði í sjálfbærniverkefninu auk víðtækari þátttöku og upplýsingamiðlun inn í matsferlið.

Fundurinn var vel heppnaður í alla staði.  Það var einna helst að fundarmenn vildu fá meiri tíma í vinnuhópum til að greina mögulega vísa og hvernig beri að vakta þá í framtíðinni.  Þessi mikli áhugi samráðshópsins sýnir að svona samráðsfundir séu góð leið til þess að fá fram mismundandi sjónarmið varðandi áhyggjur og væntingar almennings vegna jafn stórra framkvæmd og  fyrirhugaðar eru á Norðurlandi.

Til baka