Menntun

Menntun

Grunnur íslenska menntakerfisins byggir á því að allir eigi að hafa jafnan rétt til náms óháð kyni, efnahag, búsetu, trú, hugsanlegri fötlun og menningarlegum eða félagslegum bakgrunni.

Menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á skólakerfinu og sér um að marka stefnu og móta ramma fyrir skólastarfið. Rekstur grunnskóla var færður til sveitarfélaga árið 1996 og eru sveitarfélög því ábyrg fyrir því að tryggja öllum aðgang að leikskólum og grunnskólum og bera einnig fjárhagslega ábyrgð á rekstri skólanna. Ríkið sér hins vegar um rekstur framhaldsskóla. Alls eru tveir framhaldsskólar í Þingeyjarsýslu, þar af einn á Húsavík og einn á Laugum í Reykjadal. Þess má geta að Framhaldsskólinn á Laugum er með hóp nemenda í fjarnámi frá Þórshöfn sem hafa aðstöðu í Menntasetrinu á Þórshöfn. Enginn háskóli er í Þingeyjarsýslu en Þekkingarsetur Þingeyinga þjónustar háskólanema í fjarnámi með fjölþættum hætti í héraðinu. Háskólanámssetur eru rekin á Húsavík og á Þórshöfn og að auki fjarfundabúnaðir og próftökustaðir á fjölmörgum stöðum í héraðinu.  Þá er   stutt er að fara fyrir stóran hluta íbúa til Akureyrar í háskóla. Áður fyrr þurfti að flytja til Reykjavíkur eða leita út fyrir landsteinana til að afla sér háskólamenntunar.