Forsaga

Forsaga Norðurlandsverkefnisins

Samhliða undirbúningi tengdum fyrirhugaðri orkuvinnslu og álframleiðslu á Norðurlandi hafa stærstu framkvæmdaaðilar þess verkefnis sett á laggirnar samstarfsverkefni til að meta áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á samfélag, efnahag og umhverfi. Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að styðja við sjálfbæra þróun á svæðinu. Þekkingarsetur Þingeyinga hefur fengið það hlutverk að hýsa og reka verkefnið sem óháður aðili.

Sveitarfélög í Þingeyjarsýslum, ásamt Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hafa um áratuga skeið (frá 1976) leitað leiða til að kanna og nýta háhita á Þeistareykjum.  Háhiti í Kröflu var virkjaður upp úr 1980, eða um það leyti sem Kröflueldar geisuðu og í Bjarnarflagi hefur jarðhiti verið nýttur áratugum saman, bæði við Kísiliðjuna og til raforkuframleiðslu í smáum stíl.  Á árinu 2005 hófst samstarfsverkefni Iðnaðarráðuneytis, Alcoa og Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Akureyrarbæjar og Húsavíkurbæjar (nú Norðurþings) um athuganir vegna staðarvals fyrir hugsanlegt álver á Norðurlandi.  Niðurstaða þeirra athugana varð sú að Alcoa valdi Bakka við Húsavík í mars 2006.  Á grundvelli viljayfirlýsingar milli Alcoa, Iðnaðarráðuneytis og Norðurþings frá maí 2006 hefur verið unnið að hagkvæmniathugunum vegna álvers.  Sú viljayfirlýsing var framlengd í júní 2008 og gildir til hausts 2009.  Samhliða voru gerðar viljayfirlýsingar milli Alcoa og Landsvirkjunar/Þeistareykja ehf. og milli Alcoa og Landsnets, vegna orkurannsókna og athugana á raforkuflutningi frá háhitasvæðunum fjórum, þ.e. Bjarnarflagi, Kröflu, Gjástykki og Þeistareykjum.

Að byggja nokkur jarðhitaorkuver, orkuflutningsmannvirki, álver og höfn, yrðu lang stærstu verkefni sem farið hefur verið í á Norðurlandi.  Áhrifa mun gæta á ýmsum sviðum, meðal annars á umhverfi, efnahag og samfélag á austanverðu Norðurlandi.  Miklar rannsóknir hafa nú þegar farið fram og unnið verður að þeim áfram.  Vorið 2008 kom úrskurður frá Skipulagsstofnun um að framkvæmdirnar þyrftu ekki að fara í sameiginlegt umhverfismat.  Landvernd kærði þennan úrskurð til Umhverfisráðherra sem breytti úrskurði Skipulagsstofnunar í ágúst 2008 á þann veg að framkvæmdirnar í heild sinni eigi að meta sameiginlega.  Þar sem þetta eru fyrstu framkvæmdirnar sem fara í sameiginlegt mat þarf að skilgreina nýtt verklag fyrir sameiginlegt umhverfismat.

Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi hófst í september 2008 samhliða því þegar verið var að skilgreina verklagið fyrir umhverfismatið. Vonir standa til að upplýsingar úr sjálfbærniverkefni  geti nýst við gerð matsskýrslna og því þótti mikilvægt að hefja vinnu við sjálfbærniverkefnið samhliða sameiginlegu mati.

Það er ætlun framkvæmdaaðila á Norðausturlandi að standa að verkefnunum með ábyrgum hætti ef af verður, með tilliti til umhverfis, efnahags og samfélags.  Sjálfbærniverkefniverkefni á Norðausturlandi getur gegnt miklu hlutverki í þessu sambandi.