Landsvirkun

Um Landsvirkjun

Stofnun Landsvirkjunar árið 1965 má rekja til þess að íslensk stjórnvöld höfðu hug á að nýta orkulindir landsins betur með því að draga að erlenda fjárfesta í orkufrekan iðnað innanlands.

Frá 1965 hefur Landsvirkjun byggt upp raforkukerfið af eigin rammleik og uppsett afl í raforkukerfi fyrirtækisins hefur vaxið frá um 90 MW í 1.212 og verður um 1900 MW eftir tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. Á sama tíma hefur raforkuverð á almennum markaði farið lækkandi að raunvirði og sala á raforku til orkufreks iðnaðar sem fram fór í erlendri mynt vaxið, svo að um 65% framleiðslu er seld stóriðju. Þá eru gæði og afhendingaröryggi raforkukerfis Landsvirkjunar orðin með því besta sem þekkist í heiminum.

Miklar breytingar áttu sér stað með setningu nýrra raforkulaga árið 2005 sem fela í sér markaðsvæðingu raforkugeirans. Stærsta breytingin var sú að frá 1. janúar 2005 varð flutningssvið fyrirtækisins, þar sem störfuðu tæplega 70 manns, að Landsneti, sjálfstæðu hlutafélagi og dótturfélagi Landsvirkjunar. Landsnet á og rekur flutningskerfi landsins og stýrir raforkukerfinu.