2.22 Varpfuglar á Úthéraði

Vísir 2.22 - Varpfuglar á Úthéraði

 

Visir-2.22-toppmyndHér má sjá upplýsingar um rannsóknir á varpfuglum á Úthéraði.
Framvinda

Frá upphaflegri vöktunaráætlun hafa verið gerðar nokkrar breytingar sem helgast af niðurstöðum rannsókna og endurskoðaðri skilgreiningu á grunnástandi. Eftirfarandi eru niðurstöður í samræmi við framangreint.
a) Hávella – dreifing á Lagarfljóti að sumarlagi

Hávellur á Lagarfljóti 2005 - 2018

Mynd 1:  Hávellur á Lagarfljóti 2005 - 2018

Eins og sjá má á mynd 1 fækkaði hávellu umtalsvert á Lagarfljóti á tímabilinu 2008 til 2012. Möguleg skýring á þessari fækkun var talin geta hafa verið aukið grugg í fljótinu samfara vatni úr Hálslóni, sem getur rýrt fæðuskilyrði kafanda.  Það þarf þó ekki að vera enda má merkja fækkun strax árið 2007 miðað við 2006 en sumarið 2007 er Hálslón að fyllast í fyrsta sinn og vatnaflutningur ekki hafinn. Önnur möguleg skýring á færri hávellum á Lagarfljótinu getur verið tengd stofnbreytingum, en lítið er vitað um ástand stofnsins hér við land eða hvort dreifing hafi breyst með einhverjum hætti.

Árin 2013 og 2014 varð aftur vart við svipaðan fjölda og árin 2005 - 2007, sem beinir aftur sjónum einnig að mögulegum utanaðkomandi skýringum. Sumarið 2015 fækkaði hávellum aftur á Lagarfljóti.  Kuldatíð var nánast allt sumarið austanlands sem kann að vera hluti skýringar á þessari fækkun frá árinu á undan. Frá árinu 2016 til 2018 helst fjöldi hávella nokkuð jafn á Lagarfljóti. Í kaflanum um grunnástand er birt mynd sem sýnir niðurstöður talninga á þremur andategundum, sem  einnig bendir til breytileika sem ekki er endilega tengdur aðstæðum í fljótinu.

Hávellugögn Náttúrustofu Austurlands 2005-2018

Mynd 2.  Við nánari skoðun og úrvinnslu hávellugagna Náttúrustofunnar frá árinu 2005 til 2018 kom í ljós að þeim fuglum sem greindir voru sem varppör, pör með unga, fundin hreiður og foreldralausir ungar (varpeiningar) hafði fjölgað á Lagarfljóti og víðar á Héraðssvæðinu á meðan hávellu hafði fækkað á fljótinu, samanber mynd 2, sem verður að teljast athyglisverð þróun.

Uppfært:  2. apríl 2019
Heimild: Landsvirkjun, 2019


b. Grágæs

Sérstök úttekt á stofninum var gerð 2005 og endurtekin 2013.  Að auki voru til gögn sem Náttúrustofa Norðausturlands hafði safnað.  Samantekt allra gagna sem fyrir lágu leiddu til þeirrar niðurstöðu að þróun í stofninum bendi til að vatnaflutningar hafi haft takmörkuð áhrif og að ekki sé tilefni til að fylgjast með stofninum sem lið í vöktun vegna virkjunarinnar.

Uppfært 15.9.2017
Heimild: Landsvirkjun, 2017
c) Fjöldi skúma í varplandi á aurum Jökulsár á Dal

Fjöldi skúma hefur verið breytilegur frá árinu 2000. Hægt er að sjá þróunina á árunum 2005-2018 á mynd 3. Athugið að ekki var talið árin 2010 og 2012.

Fjöldi skúma í farvegi Jökulsár á Dal í umhverfismatinu árið 2000 (Guðmundur A. Guðmundsson o.fl. 2001), og vöktunarárin 2005 - 2009, 2011 og 2013-2016 (Halldór W. Stefánsson 2016) auk talningar árin 2017 og 2018.

Mynd 3:  Fjöldi skúma í farvegi Jökulsár á Dal í umhverfismatinu árið 2000 (Guðmundur A. Guðmundsson o.fl. 2001), og vöktunarárin 2005 - 2009, 2011 og 2013-2016 (Halldór W. Stefánsson 2016) auk talningar árin 2017 og 2018.

Síðan 2014 hafa skúmar verið taldir og skráðir í og við farveg Jökulsár á Dal tengt úttekt á vatnafuglum þar. Árið 2014 voru skúmar næst fæstir miðað við talningar frá árinu 2000 en fjölgaði aftur ári síðar. Þeim fækkaði svo lítillega árið 2016 miðað við árið á undan en stígandi fjölgun á sér stað svo til ársins 2018.


Uppfært 2.apríl 2019
Heimild: Landsvirkjun, 2019

Vöktunaráætlun og markmið

Hvað er mælt?

 1. Hávella, skúfönd og stokkönd – dreifing og fjöldi á Lagarfljóti að sumarlagi. (Áhrif: óbein)
 2. Fjöldi grágæsa með unga og í fjaðrafelli á aurum Jökulsár á Dal og geldgæsir með Lagarfljóti. (Áhrif: óbein)
 3. Fjöldi skúma í varplandi á aurum Jökulsár á Dal og ysta hluta Úthéraðs næst Héraðsflóa. (Áhrif: óbein)


Áætlun um vöktun 

 1. Hávella:  Grunnupplýsingum var safnað 2005-2007. Vöktuð árlega.
 2. Grágæs: Grunnupplýsingum safnað 2005. Rannsóknir endurteknar á 5- 10 ára fresti.
 3. Skúmur: Grunnupplýsingum safnað 2005-2007. Endurtekið 2008, 2009, 2011 og 2013. Vöktun árlega á hluta svæðisins fyrst um sinn og á 5-10 ára fresti á öllu Úthéraði.

 


Markmið

Markmið í þessum vísi eru í raun frekar væntingar.

 1. Dreifing hávellu haldist óbreytt.
 2. Fjöldi grágæsa í sárum á aurum Jökulsár á Dal haldist óbreyttur.
 3. Fjöldi skúmshreiðra á aurum Jökulsár á Dal haldist óbreyttur.


Mögulegar viðbragðsaðgerðir

Einungis er um vöktun að ræða.

Uppfært:  7.12.2015

Breytingar á vísi

Á ársfundi verkefnisins 6. maí 2015 voru eftirtaldar breytingar samþykktar:

Hvað er mælt?

Texti fyrir breytingu:
Texti eftir breytingu:
 1. Atferli lóms - fjöldi skipta sem fuglar sækja fæði í Lagarfljót og fjöldi skipta sem þeir sækja fæði úr á haf ( eða fjöldi fugla á klukkustund við ána og út á hafi)
 2. Hávella - dreifing stofns á Úthéraði
 3. Fjöldi grágæsa í fellistöðvum á aurum Jökulsár á Dal
 4. Fjöldi skúmshreiðra í varplandi á aurum Jökulsár á Dal
Athuganir á Lómi felldar út.

 1.  Hávella, skúfönd og stokkönd - dreifing og fjöldi á Lagarfljóti að sumarlagi.
 2. Fjöldi grágæsa með unga og í fjaðrafelli á aurum Jökulsár á Dal og geldgæsir með Lagarfljóti
 3. Fjöldi skúma í varplandi á aurum Jökulsár á Dal og ysta hluta Úthéraðs næst Héraðsflóa.
Rökstuðningur breytinga: 

Vöktunaráætlun hefur tekið nokkrum breytingum frá því verkefnið hófst, breytingar eru gerðar í samráði við fuglafræðinga.  Grunnrannsóknir a lóm frá 2004 - 2005 leiddu í ljós að lómur sækir enga fæðu inn á land eða í Lagarfljót og því ekki tilefni til að fylgjast með honum.

Það þykir ekki rétt að tala um stofn hávellu og því var mæling endurskilgreind þannig að skoðuð er dreifing hávellu á Lagarfljóti að sumarlagi.  Að auki hefur verið bætt við mælingum á andfuglum.

Upphaflega var flygst með fjölda grágæsa "í sárum" á aurum Jökulsár á Dal en nú er talinn fjöldi grágæsa með unga og í fjaðrafelli á aurum Jökulsár á Dal og geldgæsir með Lagarfljóti þar sem það er talið gefa betri mynd.

Í upphafi var talinn fjöldi skúmshreiðra en núna er fylgst með fjölda skúma þar sem það er talið raunhæfari mælikvarði.

Markmið allra þessara breytinga eru að fanga breytileika náttúrunnar og nauðsynlegt að verkefnið hafi sveigjanleika til að aðlagast sveiflum í náttúrunni.


Breytingar - upphafleg vöktunaráætlun var orðuð eins og hér fer eftir:
 1. Sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands safna upplýsingum. Flugstefna lómanna verður kortlögð og fylgst með atferli þeirra á lykilstöðum, til að finna út að hve miklu leyti þeir leita í fljótin eftir fæðu og að hve miklu leyti til sjávar. Grunnrannsókn fer fram sumurin 2004 og 2005.
 2. Sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands safna gögnum. Fuglatalningar og dreifing kortlögð. Grunnupplýsingum safnað árið 2005 og nýjum upplýsingum safnað árið 2015.
 3. Sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands safna gögnum. Fuglatalningar þar sem stuðst veður við bæði loftmyndir og vettvangsskoðanir. Grunnupplýsingum safnað árið 2005 og nýjum upplýsingum safnað árið 2015.
 4. Sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands safna gögnum. Fuglar verða taldir árlega á tímabilinu 2005-2008

Í fjórða áfanga sjálfbærniverkefnisins var ákveðið að breyta númerum sjálfbærnivísanna.  Þessi vísir var upphaflega númer 24.3 og er fjallað um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2004 og 2005.

Grunnástand


 

Hegðun lóms var könnuð árin 2004 og 2005 og bentu athuganir til þess að lómurinn leitaði einkum fæðu í hafinu, og var því ekki talin ástæða til að fylgjast frekar með honum.

Skúmar voru taldir 2006, 2007, 2008 og 2009, 2011 og 2013. Við vöktun var gert ráð fyrir að hafa stuðning af sambærilegum rannsóknum annarsstaðar, svo sem frá Öxarfirði og Breiðamerkursandi. Engar sambærilegar talningar eru þekktar frá Breiðamerkursandi þessi ár, en nokkrar athuganir frá Öxarfirði.  Samanburður við talningar í Öxarfirði styrkir niðurstöður og ályktanir frá rannsóknum á Úthéraði um breytileika í fjölda þessara tegunda milli ára, og að breytileiki milli ára innan  u.þ.b. 30% gefi ekki einar sér tilefni til ályktana um breytingar í stofni.

Mynd 1. Samanburður á þróun fjölda skúma við Öxarfjörð og á Úthéraði (Þorkell Lindberg Þórarinsson o.fl. 2013)                        Mynd 1. Samanburður á þróun fjölda skúma við Öxarfjörð og á Úthéraði ( Þorkell Lindberg Þórarinsson o.fl. 2013).

Í aðdraganda virkjunar var fylgst með hávellu á Lagarfljóti frá 2005, og ályktanir um áhrif virkjunar hafa verið dregnar af samanburði við þær athuganir. Náttúrustofa Austurlands hefur tekið saman gögn frá  1989 yfir athuganir á algengum andategundum á Lagarfljóti. Þar kemur m.a. fram að breytileiki er umtalsverður á milli ára hjá öllum tegundunum. Í eldri heimildum er sagt frá því að hámarks fjöldi hávellu á Lagarfljóti var 9. júní 1983 eða 440 fuglar sem var talið tengjast harðindum á heiðarvötnum austanlands (heimild; 9. hefti Bliki, ágúst 1990 „Fuglalíf við flugvelli“), þannig að dæmi eru um toppa hávellu önnur ár en 2005-2007. Í sömu heimild er tekið fram að hávella sé algengasta umferðaröndin á Lagarfljóti og að meðalfjöldi hávella í hóp (maí-júní) sé 107 fuglar (í 16 mælingum).  Öllum andategundum hafði fækkað á árunum 2009 - 2012 miðað við fyrri ár, en sækja aftur í sig veðrið nema stokköndin en breytileikinn er mikill.  Stærstu hópar hávellu og skúfanda minnka árið 2015 miðað við 2014 á Lagarfljóti og vetrarfjöldi stokkanda einnig  (mynd 2). Árið 2016 fjölgar í stærstu hópum hávella og skúfanda á Lagarfljóti frá árinu áður en fjöldi stokkanda stóð í stað. 

Álíka mikið sést af hávellu og skúfönd í stærstu hópum á fljóti árið 2017 miðað við árin eftir 2013 en fjöldi stokkanda var kominn í svipaða stöðu og árið 2002 þegar fjöldinn jókst í kjölfarið í  þekkt hámark árið 2005. Á tímabilinu 2016-2018 hefur skúfönd fækkað á Lagarfljóti en litlar breytingar greinilegar hjá hávellu. Á sama tíma sveiflast fjöldi stokkanda.

Breytingar á stærstu hópum hávellu og skúfanda að vori og stokkanda að vetri á Lagarfljóti.

Mynd 2: Breytingar á stærstu hópum hávellu og skúfanda að vori og stokkanda að vetri á Lagarfljóti.

Seinasta rannskóknarskýrslan er: Halldór Walter Stefánsson 2017. Vatna og sundfuglar á Jökulsá á Dal og endur á Lagarfljóti og á vörnum á Fljótsdalsdheiði árið 2016. LV-2017-049 (NA-170169).

Með samningum milli LV og NA 2017 var gert ráð fyrir stuttum greinargerðum um framvindu sem yrðu birtar amenningi á þessum vettvangi, fyrst við endurskoðun framvindu fyrir árið 2017.


Skyrsla-NA-havellutalning-og-varpdreifing-skums-forsida

Hægt er að skoða skýrslu frá Náttúrustofu Austurlands um niðurstöður hávellutalningar á Lagarfljóti og varpdreifingu skúms á Úthéraði með því að smella hér.
Vatna- og sundfuglar á Jökulsá á Dal

Landsvirkjun fól Náttúrustofu Austurlands að kanna hvaða fuglar það væru sem notuðu Jökulsá á Dal alla jafnan yfir sumarið og hófust athuganir sumarið 2014. Í megin dráttum var um máfa og andfugla að ræða að frátöldum heiðagæs og grágæs sem hafa áður verið gerð skil í vöktun fugla á vatnasviði Kárahnjúkavirkjunar. Athuganirnar fólust í þriggja daga talningum yfir sumarið á og við Jöklu. Gert er grein fyrir helstu tegundum á næstu þremur myndum.

Fjöldi nokkurra af algengustu tegundum fugla við Jökulsá á Dal 2014-2018.

Mynd 3. Fjöldi nokkurra af algengustu tegundum fugla við Jökulsá á Dal 2014-2018.

Frá upphafi skoðunar við Jöklu 2014 hefur álftum fjölgað jafnt og þétt. Endurnar virðast frekar stöðugar í fjölda en meiri sveiflur má greina hjá máfategundunum. Misjafnt er hvað sést mikið af lómum á Jöklu (mynd að ofan).

Frekari sundurliðun helstu hópa frá mynd 3

Mynd 4. Frekari sundurliðun helstu hópa frá mynd 3.

Sílamáfur er algengasti máfurinn við Jöklu. Meðal annarra vatna- og sundfugla sem eru áberandi þar eru kría, lómur og kjói. Stormmáfur, dílaskarfur og fýll eru fátíðari tegundir (mynd að ofan). Sumarið 2018 bættist hvítmáfur á tegundalista Jöklu.

Andfuglar við Jökulsá á Dal 2014-2018

Mynd 5. Andfuglar við Jökulsá á Dal 2014-2018.

Fjöldi álfta ber af öðrum andfuglum við Jöklu að frátöldum gæsategundunum tveimur, grágæs og heiðagæs sem er sleppt hér. Tilvist átta andategunda bendir til að um nokkuð jafnan fjölda sé að ræða milli ára þó athugunartímabilið sé ennþá of stutt til að draga miklar ályktanir af. Flestar af þessum öndum voru fyrir vatnaflutninga (2007) aðeins þekktar á hliðarám Jöklu.Enn sem komið er ber meira á gráöndum (buslöndum) en kaföndum á Jöklu sem skýrist sjálfsagt á framboði fæðu tengt ánni. Gera má ráð fyrir að kaföndum fjölgi þar í framtíðinni. Algengasta öndin á Jöklu er einmitt straumönd sem einnig getur verið mælikvarði fyrir fæðu (vorflugu- og bitmýslirfur) sem henni eru helst kærar yfir sumarið í straumvatni.

Fylgst hefur verið með fjölda kjóa á vegsniði í Hróarstungu á Úthéraði milli bæjanna Húseyjar og Geirastaða frá árinu 2005 til og með 2018. Þróunin var niður á við fyrstu þrjú árin en hefur sveiflast milli sex og fimmtán fugla síðan. Mögulegur fæðuskortur að vetri getur verið skýring fyrir að færri fuglar skili sér á varpstöðvar (mynd 6).

Fjöldi kjóa á svæðinu milli Húseyjar og Geirastaða

Mynd 6. Fjöldi kjóa á svæðinu milli Húseyjar og Geirastaða 2005-2018

Mögulega kunna fleiri fuglategundir að nýta sér farveg Jökulsár á Dal þegar fram líða stundir.

Uppfært 2. apríl 2019
Heimild: Landsvirkjun, 2019


Forsendur fyrir vali á vísi

Erfitt getur reynst að greina áhrif framkvæmda á fuglalíf á Úthéraði þar sem margir aðrir þættir geta haft jafnmikil eða meiri áhrif. Athuganir hafa sýnt að áhrif vatnsborðsbreytinga á gróður verða líklega óveruleg. Því beinir þessir vísir einkum sjónum að þeim fuglategundum sem ætla má að séu háðar æti úr Lagafljóti eða gætu orðið fyrir áhrifum vegna breytinga á farvegum Jökulsár á Dal. T.d. var talið hugsanlegt að bætt aðgengi að aurum Jökulsár á Dal gæti leitt til fækkunar á grágæsum sem nota fellistöðvar á aurunum og eins að bætt aðgengi afræningja gæti haft neikvæð áhrif á varp skúms á svæðinu.

 


Ítarefni

Náttúrustofa Austurlands annaðist úttekt á völdum fuglategundum á vatnasviði Kárahnjúkavirkjunar fyrir Landsvirkjun sumarið 2016. Endur voru taldar á Lagarfljóti og vötnum á Fljótsdalsheiði auk þess sem vatna- og sundfuglar voru taldir á Jökulsá á Dal (Jöklu) þriðja árið í röð. Í heildina fjölgaði hávellum á Fljóti en fækkaði á heiðarvötnum. Skúföndum fækkaði einnig á Fljótinu en stokkendur stóðu í stað milli ára og líka hávellum á Jöklu. Fuglum fjölgaði hjá nokkrum tegundum á Jöklu m.a. hjá máfum, kjóa, kríu og lóm en einstaklingum hjá nokkrum tegundum andfugla fækkaði og einnig skúmum. Álftum og straumöndum fjölgaði milli ára.Vatna- og sundfulgar á Jökulsá á Dal og endur á Lagarfljóti og á vötnum á Fljótsdalsheiði árið 2016.  Skýrsla Landsvirkjunar LV-2017_049

Smellið hér til að sækja skýrslu .Talningar á öndum fyrir Landsvirkjun á Lagarfljóti og vötnum á Fljótsdalsheiði og á vatna- og sundfuglum á Jökulsá á Dal eru liðir í vöktun Náttúrustofu Austurlands á völdum fuglategundum sem tengjast vatnasviði Kárahnjúkavirkjunar. Árið 2015 dreifðust hávellur misjafnlega um Lagarfljót og voru flestar næst Héraðsflóa og við Egilsstaði en fækkaði verulega miðað við árið 2014. Hávellur voru algengar á vötnum í Fljótsdalsheiði. Skúfönd fjölgaði á Lagarfljóti en stokkönd fækkaði. Fjöldi í stærstu hópum þessarra anda á Lagarfljóti fækkaði milli ára. Heldur fleiri skúmar voru í og við farveg Jökulsár á Dal sumarið 2015 miðað við árið á undan. Máfar, kjói og kría voru algengustu vatna- og sundfuglarnir á Jöklu sumarið 2015, þar næst endur og álíka mikið sást af álftum og lóm.Vatna- og sundfuglar á Jökulsá á Dal og endur á Lagarfljóti og vötnum á Fljótsdalsheiði árið 2015. Skýrsla Landsvirkjunar  LV-2016-074

Smellið hér til að sækja skýrslu.Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á grágæsir.
Skýrsla Landsvirkjunar LV-2014-096

Smellið hér til að sækja skýrslu.
Vöktun skúms á Úthéraði 2005 - 2013
Skýrsla Landsvirkjunar LV-2014-037:  

Smellið hér til að sækja skýrslu.
Andatalningar á Lagarfljóti og á Fljótsdalsheiði árið 2013.
Skýrsla Landsvirkjunar LV-2014-034

Smellið hér til að sækja skýrslu.
2.22 Fjöldi hávellu á Lagarfljótti - forsíðaHávellur á Lagarfljóti og vötnum á Fljótsdalsheiði árið 2012.
Skýrsla Landsvirkjunar LV-2013-040:  

Smellið  hér til að sækja skýrslu.
skúmur skýrsla 2011 forsíðaVöktun skúms á Úthéraði - Úttekt á varpi við Jökulsá á Dal 2011.
Skýrsla  Náttúrustofu Austurlands NA-120119

Smellið hér til að sækja skýrslu.
hávelluskýrsla 2011 forsíðaHávellutalningar á Lagarfljóti og á vötnum í Fljótsdalsheiði 2011.
Skýrsla Landsvirkjunar LV-2012-036

Smellið hér til að sækja skýrslu.
2.22-skyrsla-LV-2011-038-forsidumyndHávellutalningar á Lagarfljóti.
Skýrsla Landsvirkjunar LV-2011/038

Smellið hér til að sækja skýrslu.

 

 

 

Hávellutalningar á Lagarfljóti og varpdreifing skúms á Úthéraði 2009.
Skýrsla Landsvirkjunar LV-2010/045

Smellið hér til að sækja skýrslu.