2.23 Hreindýr

Vísir 2.23 - Hreindýr

 Hér má sjá niðurstöður talninga á hreindýrum á Snæfellsöræfum.Visir-2.23-hreindyr-toppmynd

  

Framvinda


 

Snæfellshjörð er skipt í Norðurheiðarhjörð vestan og norðan Jökulsár á Dal (veiðisvæði 1) og Fljótsdalshjörð austan hennar (veiðisvæði 2) (mynd 1). Einungis er fjallað hér um dýr á þessum svæðum en nánari grein gerð fyrir þeim á mynd 2. Á mynd 3 er sýnd þróun í fjölda hreindýra í svonefndri Snæfellshjörð.

Skipting Austurlands í hreindýraveiðisvæði 2018Skipting Austurlands í hreindýraveiðisvæði 2018 griðlönd

Mynd 1. Skipting Austurlands í hreindýraveiðisvæði 2018. 

Grunnmyndin (mynd 1) kemur úr skýrslu sem Skarphéðinn G. Þórisson og Rán Þórarinsdóttir Náttúrustofu Austurlands, tóku saman 2018  ( NA-180177 ).  Í skýrslum Náttúrustofu Austurlands um árlega vöktun og úttekt á hreindýrastofninum eru enn fremur upplýsingar um veiðar, en með því að gefa árlega út leyfi til veiða úr stofninum er þess gætt að dýrum fjölgi ekki um of í honum. Þar eru einnig upplýsingar um breytingar í fallþunga dýranna sem segir m.a. til um þrif í stofninum og er mikilvægur þáttur í stjórn stofnsins.

 

Skipting útbreiðslusvæðis Snæfellshjarðar í talningarsvæði (á veiðisvæðim 1 og 2).

Mynd 2. Skipting útbreiðslusvæðis Snæfellshjarðar í talningarsvæði (á veiðisvæðim 1 og 2). Talningarsvæði á veiðisvæði 1 norðan Kringilsárrana, Sauðárrana og Brúaröræfa eru einu nafni nefnd Norðurheiðar.


Skarvegin meðaltöl (keðjumeðaltöl) 3ja ára tímabila byggð á sumartalningum Snæfellshjarðar 1965 til 2018. Fjöldi norðan Snæfellsöræfa og Jökuldals eftir 2009 byggir að stórum hluta á talningum á fengitíma

Mynd 3. Skarvegin meðaltöl (keðjumeðaltöl) 3ja ára tímabila byggð á sumartalningum Snæfellshjarðar 1965 til 2018. Fjöldi norðan Snæfellsöræfa og Jökuldals eftir 2009 byggir að stórum hluta á talningum á fengitíma.

  1. 1965 - 1976. Fjölgun, hámarki náð 1972 - 1976 (tæp 3600), engin veiði 1965-1967 og 1970-1971.
  2. 1977 - 1984. Útrás veldur fækkun, líkur leiddar að því að hluti dýranna hafi farið niður á firði.
  3. 1985 - 1999. Fjöldi dýra í lágmarki á tímabilinu (sveiflast á milli 1000 - 1500).
  4. 2000 - 2007. Fjölgun til 2005 en þá markviss fækkun með veiðum.
  5. 2008 - 2018. Útrás í austur og norður veldur fækkun á hefðbundnum svæðum í sumartalningum á Snæfellsöræfum en í lok tímabilsins eru vísbendingar um fjölgun í Fljótsdalshjörð.

Mynd 3 er uppfærð árlega með  upplýsingum frá Náttúrustofu Austurlands. Hún sýnir 3ja ára skarvegin meðaltöl eða keðjumeðaltöl því þau lýsa betur örum breytingum eins og þeim sem dýrin fara í gegnum um þessar mundir. Í 3ja ára skarvegnum meðaltölum eða keðjumeðaltölum felst að árið 2016 er meðaltal áranna á undan og eftir eða 2015 - 2017. Skarvegin meðaltöl draga úr áhrifum af óhjákvæmilegri skekkju í talningum frá ári til árs og eru því notuð frekar en beinar niðurstöður talninga hvers árs.

Skýringar með mynd 3:

Sumarið 2017 fjölgaði hreindýrum í Snæfellshjörð vegna innflutnings af veiðisvæði 7. Aðeins 22 dýr fundust vestan Jöklu í Norðurheiðahjörð. Stór hluti hjarðarinnar gengur nú sumarlangt nyrst á útbreiðslusvæði hreindýra (Norðurheiðar) og hefur lítið eða ekki komið inn í sumartalninguna síðustu árin. Heildarfjöldi hreindýra vestan og norðan Jöklu, í Kringilsárrana, Sauðárrana og á Norðurheiðum að sumarlagi er rúm 1000 dýr og byggir það að stórum hluta á talningum á fengitíma og upplýsingum veiði- og heimamanna.  Sveiflur í fjölda hreindýra austan Hálslóns skýrast af því að hreindýr af Snæfellsöræfum ganga sum ár meira austan hefðbundinna sumarhaga þeirra og misjafnt er hvort þau skila sér í júlítalningu Snæfellshjarðar. Fjölgun hreindýra á Vesturöræfum síðustu ár er sterk vísbending um að Vesturöræfin séu að öðlast sinn fyrri sess sem aðalsumarhagar Fljótsdalshjarðarinnar.  

Heildarniðurstaðan er sú að fjöldi dýra í Snæfellshjörð sveiflast á milli ára og vestan Jöklu, í Kringilsrárrana og Sauðárrana eru færri  dýr sem dvelja þar skemur en  áður. 

 

Tafla 1. Dreifing dýra á Snæfellsöræfum í sumartalningum seinustu ára.

   Múli  Undir Fellum  Vesturöræfi Fljótsdalsheiði V Jöklu  samtals
2011  69  211   376 0   52    708
2012  87  582   281 0 236 1.186
2013  278    42   371 0   39    730
2014  239    50   559 0   36    884
2015  261      0   456 0     0    717
2016  384      0   702  0   26  1.112 
2017     13    47  1 419    22 1.501
2018
   92
   12
1.112
0
  25
1.241

Verkfræðistofnun Háskóla Íslands sá um hreindýratalningar úr lofti á burðartíma norðan Brúarjökuls fyrir Landsvirkjun allt frá 1993 - 2013. (Sjá skýrslu: Hreindýratalning norðan Vatnajökuls LV-2013/127). Talningarnar hafa verið gerðar upp og verða birtar í heild sinni í opnum landfræðilegum gagnagrunni. Frá 2005 hefur Náttúrustofa Austurlands séð um athuganir á burði hreindýra af landi. Þær athuganir ná til alls svæðisins þegar aðstæður leyfa.  Oft leyfa færð og veður ekki athuganir vestan Snæfells en þegar báðar aðferðirnar (athuganir á landi og talningar úr lofti) eru lagðar saman fæst ágæt mynd af dreifingu þeirra dýra sem bera á Snæfellsöræfum.  

Árið 2015 kom út skýrsla með samantekt gagna frá 9 ára rannsóknatímabili (2005-2013) LV-2015-130.  Fram til ársins 2019 verður lögð áhersla á að skoða hve stór hluti Snæfellshjarðar ber á rannsóknarsvæðinu frá ári til árs, hvenær meginburður fer fram, helstu burðarsvæði og hvað einkennir þau og möguleg áhrif Kárahnjúkavirkjunar.

Landsvirkjun styrkti merkingar hreindýra til að fylgjast með ferðum þeirra. Niðurstöður þeirra rannsókna voru birtar haustið 2014 (NA-140140).  Eftir ferðum einstakra merktra dýra voru skilgreind heimasvæði, sem voru mismunandi bæði hvað varðar staðsetningu og stærð eftir árstímum.  Með samanburði við gróðurkort mátti glöggva sig á fæðuvali þeirra, sem reyndist nokkuð mismunandi eftir svæðum, svo að nokkrir þættir rannsóknanna séu nefndir. Samið hefur verið um framhald merkinga.

Landsvirkjun og Náttúrustofa Austurlands eru að undirbúa breytingar í vöktun og rannsóknarsamstarfi með meiri áherslu á samþættingu hreindýra- og gróðurrannsókna og enn fremur um möguleg áhrif hinnar miklu fjölgunar heiðagæsa. 

Með samningum milli LV og NA 2017 var gert ráð fyrir stuttum greinargerðum um framvindu sem yrðu birtar almenningi á þessum vettvangi, fyrst við endurskoðun framvindu 2018.

Hrágögn í exel skjal frá Náttúrustofu Austurlands birt með leyfi.

Uppfært:  2. apríl 2019
Heimild:   Náttúrustofa Austurlands (2019)

Vöktunaráætlun og markmið


Hvað er mælt ?

Fjöldi hreindýra og dreifing á Snæfellsöræfum þ.e. Brúaröræfum, Vesturöræfum, Undir Fellum, á Múla og Hraunum. (Áhrif framkvæmda: óbein).

Áætlun um vöktun

Bein talning og ljósmyndir teknar úr flugvél í 1-2. viku júlímánaðar eru notaðar til að áætla fjölda dýra.


Markmið

Ekki meira en 15% fækkun verði í hreindýrastofninum á Vesturöræfum, Múla og Hraunum austan Snæfells.

Mögulegar viðbragðsaðgerðir

Einungis er um vöktun að ræða.

Breytingar á vísi

Í fjórða áfanga sjálfbærniverkefnisins var ákveðið að breyta númerum sjálfbærnivísanna.  Þessi vísir var upphaflega númer 24.2 og er fjallað um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2004 og 2005.

Grunnástand

Fylgst hefur verið með Snæfellshjörð yfir sumarið frá 1965 með talningum úr flugvél í 1.-2. viku júlí (mynd 1 og 2). Niðurstöður þeirra talninga eru í framvinduukafla mynd 3 og mynd 4 í þessum kafla.

Dreifing um svæðið og samsetning stofnsins hefur verið skráð síðustu 50 árin (mynd 4). Frá 1965 fjölgaði dýrunum og náðu hámarki 1972 og 1976 eða rúmlega 3500 dýr. Næstu tíu árin fækkaði þeim um helming  og var sá fjöldi nokkuð stöðugur til ársins 2000. Næstu sex árin fjölgaði í Snæfellshjörðinni í tæp 3000 dýr og samtímis gengu þau að mestu á Fljótsdalsheiði í stað Vesturöræfa sem höfðu verið aðal sumarbeitiland þeirra. Eftir 2006 fækkar Snæfellsdýrunum austan Hálslóns niður í um 700 dýr árið 2011 en fjölgaði í um 1200 árið á eftir. Fækkun hreindýra í Snæfellshjörð austan Hálslóns stafar að mestu leiti af útflutningi dýra úr hjörðinni yfir á firðina frá Breiðdal suður að Lónsheiði. Sumarið 2017 var greinilegt að hluti þeirra dýra var að skila sér inn á Snæfellsöræfi.

Smellið á myndirnar til að opna þær í nýjum glugga.

Sumartalningar á Snæfellsöræfum 1965-2018.  Endurskoðaður fjöldi norðan Jökuldals sem byggir á öðrum upplýsingum en hefðbundnum sumartalningum.

Mynd 4. Sumartalningar á Snæfellsöræfum 1965-2018. Endurskoðaður fjöldi norðan Jökuldals sem byggir á öðrum upplýsingum en hefðbundnum sumartalningum. Hluti Snæfellsdýranna gengur vestan Hálslóns á talningartíma þ.e. í Kringilsár- og Sauðárrana. Þar voru í talningum að meðaltali 230 dýr á árunum 1987 til 1999 og 220 dýr frá 2000 til 2012. Þær breytingar urðu 2007 að fullorðnir tarfar komu ekki lengur í Kringilsárranann eins og þeir höfðu gert tíu ár þar á undan.  Engin hreindýr fundust í Kringilsár- og Sauðárrana í talningu 2015, aðeins 8 dýr 2016 og 20 dýr 2017 (mynd 5). Þeim hefur fjölgað norðan Jökulsár á Dal undanfarin ár og voru áætluð 1125 sumarið 2017 en aðeins lítill hluti þeirra leitar í Sauðár- og Kringilsárrana í júlí.

Fjöldi hreindýra úr Snæfellshjörð vestan Hálslóns (í Kringilsár- og Sauðárrana) samkvæmt sumartalningum 1979-2018

Mynd 5. Fjöldi hreindýra úr Snæfellshjörð vestan Hálslóns (í Kringilsár- og Sauðárrana) samkvæmt sumartalningum 1979-2018.

Uppfært:  2. apríl 2019

Heimild:   Náttúrustofa Austurlands (2019)

Forsendur fyrir vali á vísi


Kárahnjúkavirkjun mun hafa áhrif á nokkur búsvæði hreindýra en óljóst er hvort þetta mun hafa einhver áhrif á stærð stofnsins eða eingöngu breyta atferli dýranna. Hreindýr voru fyrst flutt til landsins á ofanverðri átjándu öld til búnytja. Þau eru Austfirðingum mikilvæg, bæði vegna tekna af árlegum veiðum, en ekki síður sem tíguleg dýr sem setja svip sinn á umhverfið.

Áhrif Kárahnjúkavirkjunar eru fólgin í skerðingu beitilanda hreindýra vegna lands sem fer undir Hálslón og uppistöðulón á Múla og Hraunum, skerðingu burðarsvæða í Hálsi vegna þess að hluti þeirra fer undir Hálslón, truflunar á vor- og haustfari hreindýra yfir Jöklu innan Kárahnjúka og truflunar sem framkvæmdir, nýir vegir og aukin umferð kunna að valda á fari hreindýra. Landsvirkjun styrkir rannsóknir á farhegðun hreindýra, bæði þeirra sem teljast til Snæfellshjarðar og þeirrar sem kennd er við Álftafjörð.

Farvegur Jökulsár á Dal liggur um mitt lónsstæðið. Austan við hann fara 19 km2 af grónu landi í Hálsi undir vatn, en vestan við hann einn km2 af grónu landi í Kringilsárrana og 12 km2 norðan hans, eða samtals 13 km2 vestan árinnar. Gróðurlendi sem fer undir vatn í lónum á Múla og Hraunum er um 6 km2.

Ítarefni


Vorið 2014 voru burðarsvæði Snæfellshjarðar skoðuð í tíunda sinn frá því að verkefnið hófst 2005. Markmiðið var að kanna hvort og þá hvernig virkjunarframkvæmdir höfðu áhrif á burð hreindýra og val þeirra á burðarsvæðum. Skoðuð voru; Kringilsárrani, Sauðárrani, Brúaröræfi, Jökuldalsheiði, Vesturöræfi, Innri hluti Fljótsdalsheiðar, Undir Fellum, Múli, Suðurfell, og Austurheiðar. Nú fundust 141 kýr á veiðisvæði 1 (84% með kálfi) og 212 kýr á veiðisvæði 2 (58% með kálfi) dagana 20. og 22. maí 2014. Alls 353 kýr. Mikill snjór var á talningarsvæðum. Einungis var talið úr flugvél að þessu sinni. Kýr Fljótsdalshjarðar héldu mest til í dalbotnum og heiðarbrúnum en kýr Norðurheiðahjarðar voru dreifðar um Brúaröræfi og Jökuldalsheiði.Kortlagning burðarsvæða hreindýra á áhrifasvæðum Kárahnjúkavirkjunar vorið 2014
Skýrsla Landsvirkjunar: LV-2016-058

Smellið hér til að sækja skýrslu.
Frá 1940 fjölgaði hreindýrum og dreifðust um Austurland. Lengstum var Snæfellshjörðin stærst. Náttúrustofa Austurlands vaktaði og mat áhrif framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun, Jökulsár- og Hraunaveitu á Snæfellshjörð frá og með 2002. Hjörðin stækkaði á framkvæmdatíma og líkamlegt ástand dýranna var gott vegna mildra vetra. Við framkvæmdirnar fóru beitilönd undir lón og mannvirki og hreindýr urðu fyrir bílum. Dreifing dýranna breyttist beggja vegna Hálslóns. Árið 2002 færðust aðalsumarhagar Snæfellshjarðar frá Vesturöræfum yfir á Fljótsdalsheiði. Fljótsdalsdýrum fjölgaði fram til 2009, en 2011 og 2013 voru þau færri en þau höfðu verið í fimm áratugi á Snæfellsöræfum einkum vegna veiða og útflutnings af svæðinu. Vestan Hálslóns sveiflaðist fjöldi dýra á framkvæmdatíma og tarfar hurfu úr Kringilsárrana eftir 2006. Á Vesturöræfum hefur gróska aukist, fé fækkað en heiðagæs fjölgað. Líklegt er að breytt tíðarfar, uppsöfnuð langtímaáhrif framkvæmdanna og aukinn ferðamannastraumur hafi breytt hagagöngu hreindýra á Snæfellsöræfum eftir 2000. Rannsóknir á hreindýrum með GPS hálskraga leiddu í ljós að marktækur munur er á ferðahegðun og stærð heimasvæða eftir tímabilum ársins. Meðalstærð heildarheimasvæða var 949 km2 . Stærstu heimasvæðin voru hjá Norðurheiðahjörð 1424 km2 . Af einstökum kúm var stærsta heimasvæðið 1558 km2 . Heimasvæðin voru minnst á burðartíma og stærst á veiðitíma. Sterk jákvæð tengsl voru á milli hlaupahraða hreindýra eftir tímabilum ársins og stærð heimasvæða. Þá hlupu dýr marktækt hraðar í miklum hita. Ekki voru augljós tengsl við aðrar veðurbreytur. Norðurheiðahjörð gekk mest í ógrónu landi, víðimóa og kjarri á meðan Fljótsdalshjörð var mest í star-og þursaskeggsmóa og flóa. Dýrin virtust forðast fjallaskála. Önnur mannvirki höfðu fremur lítil áhrif á dýrin. Ferðahraði var þó meiri næst vegum, slóðum og fjallaskálum á burðar- og veiðitíma en á öðrum tímum ársins. Erfitt var að greina fælingaráhrif einstakra framkvæmda eða mannvirkja á hreindýrin á Snæfellsöræfum þar sem ekki voru til samanburðarhæf gögn frá því fyrir framkvæmdir.Snæfellshjörð, Áhrif náttúru og manna á líf Snæfellshjarðar í ljósi vöktunar síðustu áratugi og staðsetninga hreinkúa með GPS-hálskraga 2009 - 2011
Skýrsla Náttúrustofu Austurlands: NA-14040

Smellið hér til að sækja skýrslu.


Frá 1993 hefur VHÍ talið hreindýr um og eftir burðartímann á 220 ferkm. stóru svæði norðan Brúarjökuls (Kárahnjúkasvæði) og síðan 2003 á jafnstóru svæði austan Snæfells (Eyjabakkasvæði). Talningar fara fram með myndatöku úr flugvél. Árið 2013 var talið tvisvar: 29. maí og 23. júní. Í fyrri talningunni var mjög mikill snjór á talningasvæðunum og óvenju fá dýr. Á Kárahnjúkasvæði voru aðeins 12 fullorðin dýr og 8 kálfar og hafa aldrei verið færri frá því talningar VHÍ hófust, en á Eyjabakkasvæðinu sáust 54 fullorðin dýr og 24 kálfar. Þann 23. júní var mestur snjórinn horfinn en landið mjög blautt og lítið farið að grænka. Á Kárahnjúkasvæði voru 77 fullorðin dýr ásamt 28 kálfum, en Eyjabkkasvæði voru 52 fullorðin dýr og 33 kálfar. Hreindýrum á talningarsvæðum VHÍ hefur smám saman farið fjölgandi aftur eftir mikla fækkun 2008. Niðurstöðurnar 2013 eru einungis taldar endurspegla aðstæður á svæðunum núna, þ.e. mikinn snjó og bleytu.Hreindýratalningar norðan Vatnajökuls með myndatöku úr flugvél 2013
Skýrsla Landsvirkjunar: LV-2013-127

Smellið hér til að sækja skýrslu.Frá 1993 hefur VHÍ talið hreindýr um og eftir burðartímann á 220 ferkm. stóru svæði norðan Brúarjökuls (Kárahnjúkasvæði) og síðan 2003 á jafnstóru svæði austan Snæfells (Eyjabakkasvæði). Talningar fara fram með myndatöku úr flugvél. Árið 2012 var talið tvisvar: 27. maí og 18. Júní. Í fyrri talningunni voru talningarsvæðin þurr og snjólaus. Óvenju mörg dýr voru á Kárahnjúkasvæði miðað við árin á undan eða 330 fullorðin dýr og 140 kálfar, en á Eyjabakkasvæðinu sáust 161 fullorðið dýr og 66 kálfar. Þann 18. Júní voru talningarsvæðin þurr en mjög lítið farin að grænka. Á Kárahnjúkasvæði voru 250 fullorðin dýr ásamt 130 kálfum, en á Eyjabakkasvæði voru 218 fullorðin dýr og 132 kálfar. Hreindýrum á Kárahnjúkasvæði fer nú fjölgandi aftur eftir mikla fækkun á undanförnum árum sem náði hámarki 2008. Á Eyjabakkasvæði sjást engar afgerandi breytingar milli ára, en dýrunum þar virðist þó heldur fara fjölgandi síðan 2009.

Hreindýratalningar norðan Vatnajökuls með myndatöku úr flugvél 2012

Skýrsla Landsvirkjunar:  LV-2012-115

Smellið hér til að sækja skýrslu.Árið 2011 var sjöunda árið sem fylgst hefur verið með burði á Snæfellsöræfum, nánar tiltekið: Vesturöræfi, Undir Fellum, Múli og Hraun og aðgengilegir hlutar Fljótsdalsheiðar. Vestan Jöklu: Brúardalir og svæði innan Sauðár á Brúaröræfum (Sauðafell og Kringilsárrani). Alls fundust 378 kýr dagana 15. -18. maí, þar af voru 181 kýr borin (svipað og 2010). Fá dýr fundust á Fljótsdalsheiði en meira en áður vestan Jöklu og töluvert á Múla. Aðeins ein kýr fannst á Vesturöræfum og var hún inn við Jökulkvísl. Burður var lengst kominn vestan Jöklu en styðst á Fljótsdalsheiði. Erfitt var að staðsetja miðburð fyrir allt svæðið og var það gert fyrir hvert svæði fyrir sig. Vestan Jöklu náðist miðburður um 14. maí, á Múla um 18. maí og á Fljótsdalsheiði um 19. maí. Svo virðist sem miklar breytingar hafi orðið á dreifingu dýranna á síðustu árum, sem nánar verður fjallað um í samantekt rannsóknanna sem von er á 2013.

Kortlagning burðarsvæða hreindýra á áhrifasvæðum Kárahnjúkavirkjunar vorið 2011
Skýrsla Landsvirkjunar:  LV-2012-033

Smellið hér til að sækja skýrslu.
Frá 1993 hefur VHÍ talið hreindýr um og eftir burðartímann á 220 ferkm. stóru svæði norðan Brúarjökuls (Kárahnjúkasvæði) og síðan 2003 á jafnstóru svæði austan Snæfells ( Eyjabakkasvæði). Talningar fara fram með myndatöku úr flugvél. Árið 2011 var talið tvisvar: 26. maí og 30. júní. Í fyrri talningunni var talsverður snjór á Kárahnjúkasvæði en mikill snjór austan Snæfells. Á Kárahnjúkasvæði voru 170 fullorðin dýr og 100 kálfar, en á Eyjabakkasvæðinu sáust engin dýr. Þann 30. júní voru talningarsvæðin að mestu snjólaus en mjög blaut. Á Kárahnjúkasvæði voru aðeins 32 fullorðin dýr ásamt 24 kálfum og hafa aldrei verið færri. Á Eyjabakkasvæði voru aðeins 32 fullorðin dýr ásamt 24 kálfum og hafa aldrei verið færri. Á Eyjabakkasvæði voru 235 fullorðin dýr og 95 kálfar. Hreindýrum sem sóttu inn á Kárahnjúkasvæði að vori snarfækkaði 2008 og hefur ekki fjölgað þar aftur síðan. Talningarnar 2011 gefa þó ekki vísbendingar um þróunina þar sem aðstæður voru mjög óvenjulegar í bæði skiptin. Á Eyjabakkasvæði sjást engar afgerandi breytingar milli ára.Hreindýratalningar norðan Vatnajökuls með myndatöku úr flugvél 2011
Skýrsla Landsvirkjunar:  LV-2011/120

Smellið hér til að sækja skýrslu.
Hreindýr á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar Greinargerð um vöktunargögn til að meta stöðu stofnsins Skarphéðinn G. Þórisson Febrúar 2011 Egilsstaðir

Hreindýr á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar
Greinargerð Náttúrustofu Austurlands frá 2011 um vöktunargögn til að meta stöðu stofnsins

Smellið hér til að sækja greinagerðinaFrá 1993 hefur VHÍ talið hreindýr um og eftir burðartímann á 220 km2 stóru svæði norðan Brúarjökuls (Kárahnjúkasvæði) og síðan 2003 á jafnstóru svæði austan Snæfells (Eyjabakkasvæði). Talningar fara fram með myndatöku úr flugvél. 2010 var talið tvisvar: 31. maí og 15. júní. Í fyrri talningunni var lítill snjór á Kárahnjúkasvæði en talsvert meiri austan Snæfells. Á Kárahnjúkasvæði voru 230 fullorðin dýr og 140 kálfar, en á Eyjabakkasvæðinu voru 160 fullorðin dýr og 72 kálfar. Þann 15. júní voru talningarsvæðin að mestu snjólaus. Á Kárahnjúkasvæði voru 290 fullorðin dýr ásamt 140 kálfum en 121 fullorðið dýr og 38 kálfar á Eyjabakkasvæðinu. Niðurstöður talninganna benda til þess að hreindýrum á Kárahnjúkasvæði í júní fari aftur fjölgandi eftir að þeim snarfækkaði þar 2008. Á Eyjabakkasvæði sjást engar afgerandi breytingar milli ára.Hreindýratalningar norðan Vatnajökuls með myndatöku úr flugvél 2010
Skýrsla Landsvirkjunar:  LV-2011/011

Smellið hér til að sækja skýrslu.Kortlagning burðarsvæða hreindýra á áhrifasvæðum Kárahnjúkavirkjunar vorið 2009
Skýrsla Landsvirkjunar:  LV-2010/051

Smellið hér til að sækja skýrslu.Skýrslan er yfirlit rannsókna á hreindýrastofninum í gegnum tíðina og niðurstöður vöktunar frá því að skýrsla um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á íslenska hreindýrastofninn kom út 2001. Megintilgangur hennar er að taka saman þekkingu um lífsskilyrði og hegðun hreindýa sem nýta sér heiðarlönd upp af Fljótsdalshéraði. Til þess að geta greint breytingar á hreindýrastofninum og tengt þær tilteknum þáttum, t.d. breytingum sem rekja má til Kárahnjúkavirkjunar, er nauðsynlegt að skilja orsakir breytileika í hreindýrastofninum sem menn hafa orðið vitni að frá því að kerfisbundið var byrjað að fylgjast með honum. Náttúrustofa Austurlands tók við vöktun og rannsóknum á hreindýrastofninum árið 2000 og er gerð grein fyrir þeim. Út frá þeim og með hliðsjón af þegar birtum niðurstöðum er ályktað um stöðu hreindýrastofnsins í dag og í framhaldi settar fram mögulegar áherslur í vöktunaráætlun til næstu ára. Staða hreindýrarannsókna á áhrifasvæðum Kárahnjúkavirkjunar 2008
Skýrsla Náttúrustofu Austurlands:  NA-090084

Smellið hér til að sækja skýrslu.Markmið vöktunar er að fylgjast með burðarsvæðum á framkvæmda- og starfstíma virkjunarinnar og kanna hvort og þá hvernig virkjunarframkvæmdir hafa áhrif á burð hreindýra og val þeirra á burðarsvæðum. Skoðuð voru sömu svæði og vorið 2005 þ.e. Snæfellsöræfi og Fljótsdalsheiði sunnan Klausturselsheiðar. Auk þess var bætt við svæði vestan Jöklu innan Sauðár. Alls fundust 742 kýr dagana 13. - 19. maí 2006 og 216 kálfar. Eru það nokkuð fleiri kýr en fundust í fyrra en mun færri kálfar. Dreifing dýranna var nokkuð frábrugðin því sem sást 2005. Flestar kýrnar voru á Vestur-öræfum og mun færri fundust á Múla og Hraunum. Mun snjóþyngra var en vorið 2005 og hret síðustu dagana með skafrenningi og norðanáttum setti strik í reikninginn varðandi talningar. Burðarhlutfall var töluvert ólíkt milli svæða en þó var munurinn ekki eins afgerandi og árið áður milli Vesturöræfa annarsvegar og Múla og Hrauna hinsvegar.Kortlagning burðarsvæða hreindýra á áhrifasvæðum Kárahnjúkavirkjunar.
Skýrsla Landsvirkjunar:  LV-2006/129

Smellið hér til að sækja skýrslu.