2.28 Gróður á Snæfellsöræfum

Vísir 2.28 - Gróður á SnæfellsöræfumTilgangur þessarar gróðurvöktunar er að nema og fylgjast með breytingum sem kunna að verða á gróðri á svæðum sem gætu verið undir áhrifum af Kárahnjúkavirkjun. Úttekt var gerð á gróðurreitum í Kringilsárrana, Vesturöræfum og Fljótsdalsheiði á árunum 2006-2008 sbr. skýrslur í kafla um ítarefni. Enn fremur var lagður grunnur að mögulegri vöktun með aðstoð gervitunglamynda með skýrslu Landsvirkjunar (LV-2010/062) sem unnin var af Náttúrustofu Austurlands. Unnið var út frá SPOT-5 gervitunglamyndum sem teknar voru sumrin 2002, 2007 og 2008. Með þessum skýrslum er ætlað að komin sé ein möguleg skilgreining á grunnástandi gróðurs á umræddu svæði. Um þessar mundir fer fram endurskoðun á markmiði vöktunar og hvernig best sé að standa að henni.

Framvinda


Endurtekin úttekt Náttúrustofu Austurlands á gróðurreitunum hófst 2015 í Kringilsárrana, 2016 á Fljótsdalsheiði og lauk 2017 á Vesturöræfum, en áætlað er að slík úttekt fari fram á um 10 ára fresti.  Mikil gæsabeit einkenndi ásýnd gróðurs í Kringilsárrana í úttekt ársins 2015 og voru beitarummerki mun meira áberandi en í fyrri úttekt. Annars konar breytinga á gróðri varð ekki vart en Kringilsárrani er gróskumikill miðað við önnur hálendissvæði landsins og því álitlegur til beitar. Áhrif hreindýrabeitar voru höfð í huga við gerð úttektar á Fljótsdalsheiði sumarið 2016 því samkvæmt hreindýratalningum síðustu ára var heiðin mjög vinsæl til sumarbeitar á árunum 2000-2008 en fá dýr fundust þar á árunum 2011-2016. Fléttur sem aðeins hreindýr bíta höfðu mun minni þekju í úttekt ársins 2016 en fyrri úttekt en minni breytinga varð vart meðal annarra plöntuhópa milli ára.  Í úttekt ársins 2017 á Vesturöræfum sáust víða ummerki um gæsa- og/eða hreindýrabeit.  Litlar breytingar urðu á gróðri frá síðustu úttekt, aðrar en þær að grasþekja jókst á melasvæðum sem sáð hafði verið í á NV-hluta rannsóknarsvæðisins.  Áfok af strönd Hálslóns sást á gróðri og ryk var í lofti næst lóninu athugunardaga sumarið 2017, en ekkert skýrt mynstur gróðurbreytinga er greinilegt milli athugunarára á svæðinu þar sem áfok er sýnilegt.  Niðurstöður úttekta á gróðri árin 2015 - 2017 á þessum þremur svæðum á Snæfellsöræfum benda til þess að beit sé líklega stærsti áhrifavaldur breytinga á gróðri á svæðinu.  Frekari vöktun gróðurs verður að öllum líkindum löguð að þeim niðurstöðum.  Skýrsla um úttekt á Vesturöræfum kom út um mitt ár 2018 ( LV-2018-95 ).

Ekki er gert ráð fyrir fjarkönnun og gróskumælingum nema samanburðurinn gefi tilefni til. Nú er aðgangur að gervitunglagögnum það góður að ekki þarf lengur að gera sérstakar ráðstafanir til að afla þeirra.

Sérfræðingar frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslunni gerðu úttekt í gróðurreitum innan afgirtra svæða á Vesturöræfum sumarið 2017 og 2018 og er unnið að úrvinnslu þeirra gagna. Í þessari úttekt er m.a. skoðuð hugsanleg áhrif mismikils áfoks á gróður á svæðinu.

Gróðurlendakort af hálendi á Austurlandi

Á árunum 2010 - 2014 unnu Landsvirkjun og Náttúrufræðistofnun Íslands að því að uppfæra og endurteikna eldri gróðurkortlagningu af Norðausturhálendinu ( upplýsingar um gróðurkort ). Þar var gróður- og landgreining af áður útgefnum kortum, kortum í handriti og vettvangsgögnum verið endurteiknuð og samræmd í stafrænum gagnagrunni. Einnig voru kortlagðir liðlega 500 km2 af áður ókortlögðu landi, einkum á Jökuldalsheiði í tengslum við rannsóknir á hreindýrum. Kortið sem nú er hluti af stafrænu gróðurkorti af miðhálendi Íslands er opið öllum sem hafa möguleika til að vinna með landupplýsingagögn og er aðgengilegt til niðurhals .

Gróðurkort af austurhálendi

Mynd 1. Kárahnjúkavirkjun, gróðurkort

Smellið á myndina til að fá stærri útgáfu.

Uppfært: 8.4.2019
Heimildir:  Landsvirkjun 2019

Vöktunaráætlun og markmið


Gróðurbreytingar geta orðið af ýmsum ástæðum og því mikilvægt að vöktun taki mið af því.

Helstu áhrifaþættir:

 1. Náttúrulegar orsakir, t.d. vegna breytinga í veðurfari.
 2. Breytt beitarálag.
  a. Minnkandi sauðfjárbeitar hin síðari ár (almenn þróun).
  b. Tilfærslu á beitarálagi hreindýra vegna beitarsvæða sem glötuðust undir Hálslón.
  c. Beit heiðagæsa.

     3. Áfok úr Hálslóni þegar fram líða stundir?

 
Hvað er mælt?

Gróðurþekja, gróðurlendi og plöntutegundir. (Áhrif framkvæmda: óbein).

Áætlun um vöktun

Gervitunglamyndir verða notaðar til að reikna út grósku (svokallaða NDVI vísitölu). Því hærri vísitala, því meiri þéttleiki gróðurs (blaðgræna). 

Gróður verður vaktaður með fjarkönnun (gervitunglamyndir), jafnframt því sem gróðurreitir á svæðinu verða notaðir til þess að fá upplýsingar um breytingar á tegundasamsetningu og nákvæmari upplýsingar um gróðurþekju en fjarkönnun gefur.

Gróðurreitir verða (a.m.k. fyrst um sinn) heimsóttir þriðja hvert ár. Þá er farið yfir merkingar og litið eftir augljósum breytingum. Nákvæm úttekt á gróðurreitunum verður framkvæmd ef annað hvort gervitunglamyndirnar eða yfirlitið gefa tilefni til.

Mælikvarðar um breytingar á gróðurfari verða þróaðir í samráði við sérfræðinga.  

Markmið 

Kanna hvaða breytingar verða á gróðurfari á svæðum undir áhrifum af Kárahnjúkavirkjun og að hve miklu leyti væri hægt að tengja þær virkjuninni.

Mögulegar viðbragðsaðgerðir

Landsvirkjun stendur fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir áfok og stöðva rof.

Uppfært: febrúar 2017

Breytingar á vísi


Á fundi stýrirhóps 31. janúar 2017 voru eftirfarandi breytingar samþykktar:

Texti fyrir og eftir breytingar 

http://www.sjalfbaerni.is/media/visar/austurland/umhverfi/Breytingasaga-2.28_loka.pdf

Sjá einnig undir ítarefni.

Grunnástand


 

Áður en  undirbúningur vegna Kárahnjúkavirkjunar fór fram höfðu verið gerðar ítarlegar gróðurathuganir (OS81002/VOD02) og vegna hreindýrarannsókna voru gerðar sniðmælingar í gróðurlendum sem dýrin virtust velja umfram önnur (OS-83073/VOD-07). Það fer eftir því hvort hægt er að staðsetja einstök snið úr þessum rannsóknum hvernig þær gagnast sem grunnur að mati á breytingum. Sama gildir um gróðurrannsóknir sumarið 2000, sem höfðu að markmiði að flokka gróðurlendið í vistgerðir (NÍ-01004) og (LV-2001/020).

Ástand gróðurs var kannað á árunum 2006-2008, og þekja og gróska könnuð með aðstoð gervitunglamynda 2002, 2007 og 2008. Í samanburðarskýrslu um "Gróðurvöktun á Vesturöræfum, Kringilsárrana og Fljótsdalsheiði með notkun gervitunglamynda" má fá upplýsingar um grunnástand á svæðinu u.þ.b. sem hluti þess fór undir Hálslón. Smellið hér til að skoða skýrsluna (LV-2010/062).

Túlkun á grunnástandi eins og hún liggur fyrir af gervitunglamyndunum er ekki einföld. Það er einkum óljóst hve mikil breyting þarf að verða á gróðurstuðlum til að gefa tilefni til nánari rannsókna í gróðurreitunum.  Athugun á myndum frá 2002-2008 (sjá mynd 2) leiðir meiriháttar breytingar skýrt í ljós, svo sem árangur af uppgræðslu, og ummerki framkvæmda, t.d. losun jarðefna. Það sem almennt má lesa úr samanburðinum á myndunum er að mismunurinn á milli þeirra er alls staðar svipaður, og líklegt að hann megi rekja til árferðis og tíma myndatökunnar. Af því leiðir, að þar sem verða frávik umfram það, er ástæða til að athuga hugsanlegar breytingar nánar.  

Mikilvægur liður í skilgreiningu á grunnástandi er að átta sig á hugsanlegum undirliggjandi breytingum sem gætu hafa orðið áður en framkvæmdir hófust, hvort sem þær breytingar tengjast veðurfari eða breyttu beitarálagi. Til að nálgast það stendur til að greina helstu breytingar sem komið hafa fram við endurskoðum 20-30 ár gamalla gróðurkorta.

Vísir-2.28-mynd-mismunur á gróðurstuðulsgildum 2002-2008

 • Með því að bera saman gróðurkortin og niðurstöður úr rannsóknum á fari hreindýra má fara nærri um líklegustu beitargróðurlendi hreindýranna.
 • Úr þeim verður valið svæði til frekari rannsókna og samanburðar við eldri rannsóknir.

 Mynd 1 sýnir mismun á gróðurstuðulsgildum á milli mynda sem teknar voru 2002 og 2008.

Smellið á myndina til að fá stærri útgáfu.

2.28 Gróðurreitir á SnæfellsöræfumGögn um gróðurfar eins og það birtist í rannsóknum sem framkvæmdar voru fyrir 30 árum virðast ekki vera þess eðlis að auðvelt sé að endurtaka þær þannig að nákvæm mynd fáist af breytingum. Fastir vel merktir gróðurreitir sem hafa verið settir út á þremur svæðum á Snæfellsöræfum gefa hins vegar möguleika á endurteknum mælingum sem geta veitt upplýsingar um gróðurbreytingar.

Mynd 2  Snæfellsöræfi með staðsetningu gróðurreita frá mismunandi tímum.  Þríhyrningarnir eru staðsetning athugana sem tengdust rannsóknum á  beit hreindýra frá því um 1980. Ferningarnir eru vel merktir gróðurreitir sem auðvelt er að endurtaka.

Smellið á myndina til að fá stærri útgáfu.

Forsendur fyrir vali á vísi


Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á gróður verða mest á hálendinu á Vesturöræfum og Kringilsárrana. Vesturöræfi er verðmætt svæði þar sem svo mikil gróska á landi svo hátt yfir sjó er fremur sjaldgæf og einnig vegna þess að dýr (sauðfé, gæsir og hreindýr) á Kringilsárrana nýta svæðið til beitar. Bein skerðing gróðurs vegna Hálslóns snertir Vesturöræfi og Kringilsárrana en einnig gæti rof á strönd Hálslóns leitt til þess að áfok berist inn á gróðurlendin næst lóninu. Líklegt er talið að skerðing beitilanda á Vesturöræfum muni auka álag á Fljótsdalsheiði og því er hún hluti af þeim svæðum sem rannsóknir og vöktun nær til.

Landsvirkjun mun standa fyrir umfangsmiklum varnaraðgerðum til að reyna að koma í veg fyrir áfok. Mikilvægt er að fylgjast með gróðri á svæðinu, ef í ljós kæmi að varnaraðgerðirnar komi ekki að fullu í veg fyrir áfokið, þannig að hægt sé að grípa til aðgerða ef gróðri fer að hnigna. Auk beinna varnaraðgerða hafa  farið fram rannsóknir á leiðum til að styrkja gróður til að standast áfok og tilraunir til að bregðast við áfoki, t.d. með sáningu melfræs. 
 

Ítarefni


Skýrslur Landsvirkjunar

LV-2019-083_1585242134560Reindeer winter forage, Long-term monitoring research

Skýrsla Landsvirkjunar LV-2019-083
Gróðurbreytingar 2006 - 2017 við Lagarfjót og Jökulsá á Dal á Úthéraði, Árið 2006 hófst vöktun á gróðri og grunnvatnsstöðu á Úthéraði. Markmiðið var að rannsaka áhrif breytinga á vatnafari Lagarfljóts og Jökulsár á Dal í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar á fyrrnefnda þætti. Í upphafi var vöktunin unnin af Náttúrufræðistofnun Íslands en Náttúrustofa Austurlands tók við umsjón verkefnisins árið 2017. Niðurstöður sýna að breytingar hafa orðið á gróðri. Breytingarnar eru mismunandi eftir svæðum, tengjast breyttri grunnvatnsstöðu en mótast einnig að aðstæðum. Á svæðum við Lagarfljót hefur land blotnað og þekja votlendistegunda hefur aukist. Við Jökulsá á Dal bendir til að land hafi þornað að einhverju leyti og þar hefur dregið úr þekju votlendistegunda.áhrif Kárahnjúkavirkjunar

Skýrsla Landsvirkjunar LV-2018-096Gróðurvöktun á Vesturöfæfum. Samanburður á samsetningu og þekju gróðurs árin Náttúrustofa Austurlands hefur vaktað gróðurfar á Snæfellsöræfum og Fljótsdalsheiði og hófst vöktunin árið 2006. Markmið rannsóknanna er að kanna langtímabreytingar á gróðri vegna hugsanlegra áhrifa Kárahnjúkavirkjunar og þá einkum Hálslóns. Á Snæfellsöræfum fóru rannsóknir fram í Kringilsárrana og á Vesturöræfum. Niðurstöður mælinga á Vesturöræfum sýndu litlar breytingar á gróðri á milli áranna 2007 og 2017. Heildargróðurþekja breyttist lítið en þó mátti sjá mun á þekju víðitegunda. Ástand gróðurs benti ekki til aukins beitarálags og gróðurstuðull gaf til kynna meiri grósku á árunum 2014-2017 en árin á undan.2007 og 2017.

Skýrsla Landsvirkjunar LV-2018-095

 


Gróðurvöktun á Fljótsdalsheiði - Samanburður á samsetningu og þekju gróðurs árin Þær gróðurbreytingar sem sáust á Fljótsdalsheiði á árunum 2008 til 2016 bentu til aukins beitar-álags. Heildargróðurþekja minnkaði og meðalþekja flétta minnkaði mikið milli ára. Meðalþekja lyngs og smárunna, byrkninga og hálfgrasa minnkaði einnig á milli ára en þekja blómjurta jókst. Hlutfall ógróins yfirborðs hélst þó svipað milli ára. Ekki var að sjá neinar augljósar breytingar á grósku út frá þróun gróðurstuðuls á svæðinu síðustu 17 árin en gildi stuðulsins síðustu tvö ár rannsóknar voru þó með hæsta móti. Breytingar á heildargróðurþekju milli athugunarára má að hluta til líklega rekja til aukinnar beitar grasbíta. Hreindýr bíta fléttur, einkum frá hausti fram á vor. Líklegt er að beit hreindýra skýri þær breytingar sem sáust á fléttugróðri á Fljótsdalsheiði frá 2008 til 2016. 2008 og 2016

Skýrsla Landsvirkjunar: LV-2017-054

 

 

Gróðurvöktun í Kringilsárrana - Samanburður á samsetningu og þekju gróðurs árin 2006 og 2015
Skýrsla Landsvirkjunar:  LV-2016-064

Smellið hér til að sækja skýrslu.

 


Kringilsárrani -Rannsóknir á gróðurbreytingum með samanburði gervitunglamynda frá 2002 og 2010. 
Skýrsla Landsvirkjunar:  LV-2012-069

Smellið hér til að sækja skýrslu

Í þessari skýrslu er fjallað um úrvinnslu og samanburð á SPOT-5 gervitunglamyndum sem teknar voru af Vesturöræfum, Kringilsárrana, Fljótsdalsheiði og nálægum svæðum sumrin 2002, 2007 og 2008. Markmiðið er að fylgjast með mögulegum breytingum á gróðri sem kunna að verða vegna áfoks frá Hálslóni. Reiknaður var út gróðurstuðull sem segir til um grósku og þekju gróðurs á svæðinu. Gróðurstuðulsgildi voru borin saman á milli mynda til að sjá hvort breytingar hefðu orðið í gróðurþekju á milli þessara ára. Rannsóknasvæðinu var skipt niður í bil út frá yfirborði Hálslóns í hæstu stöðu til að gera sér betur grein fyrir breytileika í gróðurstuðulsgildum á milli mynda. Niðurstöður voru einnig settar fram á litkvarðamynd. Samanburður á gróðurstuðulsgildum út frá Hálslóni milli áranna þriggja sýnir nánast engar breytingar. Þetta er eins og að gera mátti ráð fyrir þar sem áhrifa frá Hálslóni ætti ekki að vera farið að gæta. Með þessari skýrslu lýkur skilgreiningu á því grunnástandi gróðurs á Vesturöræfum, Kringilsárrana og Fljótsdalsheiði sem vöktun á hugsanlegum áhrifum af Hálslóni mun byggjast á.


Gróðurvöktun á Vesturöræfum, Kringilsárrana og Fljótsdalsheiði með notkun gervitunglamynda. Samanburður milli ára 2002, 2007 og 2008
Skýrsla Landsvirkjunar:  LV2010/062 

Smellið hér til að sækja skýrslu.

Í skýrslunni er fjallað um gróðurvöktun á Fljótsdalsheiði. Rannsóknasvæðið á Fljótsdalsheiði er hluti af vöktunarverkefni þar sem markmiðið er að vakta mögulegar breytingar á gróðri sem kunna að verða á hálendinu við Hálslón og nálægum svæðum í kjölfar virkjanaframkvæmda við Kárahnjúka. Í verkefninu eru notaðar tvær aðferðir. Annars vegar er það notkun gervitunglamynda þar sem reiknaður er út gróðurstuðull en hann gefur upplýsingar um þekju og grósku gróðurs á svæðinu. Hins vegar eru það gróðurreitir á jörðu niðri sem gefa upplýsingar um tegundasamsetningu og þekju gróðurs auk þess að staðfesta gróðurstuðul. Gróðurstuðull var reiknaður út frá gervitunglamynd sem tekin var af Kárahnjúkasvæðinu 9. September 2002. Gildin voru flokkuð í 6 flokka og sett fram á kort. Þrjátíu gróðurreitir voru settir út á Fljótsdalsheiði í ágúst 2008 og var hlutfallsleg þekja tegunda metin og hæð gróðurs og jarðvegsdýpt mæld. Fljótsdalsheiði er vel gróin og eru flóar og mýrar áberandi. Mólendisgróður er einnig víða og melagróður á hæðum. Niðurstöður sýna að gróðurþekja metin í gróðurreitum féll vel að gróðurstuðulsgildum úr gervitunglamynd.


Gróðurvöktun á Fljótsdalsheiði með notkun gervitunglamynda og gróðurreita
Skýrsla Landsvirkjunar:  LV2009/121 

Smellið hér til að sækja skýrslu.

 

 

 

Markmið verkefnisins er að vakta mögulegar breytingar sem kunna að verða á gróðurfari á Vesturöræfum í kjölfar myndunar Hálslóns. Til þess eru notaðar tvær aðferðir sem gefa gott heildaryfirlit yfir gróður svæðisins. Það eru útreikningar á gróðurstuðli út frá gervitunglamynd sem gefur yfirlit yfir þekju og grósku á öllu svæðinu og rannsóknareitir sem veita upplýsingar um tegundasamsetningu og þekju gróðurs ásamt því að sannreyna gróðurstuðul. Gróðurstuðull var reiknaður út frá gervitunglamynd sem tekin var af Kárahnjúkasvæðinu 9. september 2002. Gildin voru flokkuð í 6 flokka og sett fram á kort. 28 reitir voru settir út á Vesturöræfum í júlí 2007 og var hlutfallsleg þekja tegunda metin og hæð gróðurs og jarðvegsdýpt mæld. Víða var gróður samfelldur á svæðinu en einnig voru melar, minna gróin svæði og moldarflög. Niðurstöður sýna að gróðurþekja metin í reitum og gróðurstuðulsgildi úr gervitunglamynd pössuðu vel saman. Gróðurvöktun á Vesturöræfum með notkun gervitunglamynda - Grunnrannsókn
Skýrsla Landsvirkjunar:  LV2008/046 

Smellið hér til að sækja skýrslu.

Markmið athuganna eru tvenns konar. Meginmarkmið verkefnisins er að leggja grunn að vöktunarrannsóknum sem miða að því að fylgjast með hugsanlegum breytingum á gróðri í Kringilsárrana á næstu árum, einkum með hliðsjón af tilkomu Hálslóns. Reiknað er með að tengja saman vöktun með gervitunglamyndun og vöktun á föstum reitum á svæðinu. Annað markmið var að kanna hvort líklegt væri að miklar breytingar á gróðri væru að eiga sér stað í Kringilsárrana. Orðrómur hafði verið um að gróður í Kringilsárrana hafi rýrnað á allra síðustu árum. Ekki eru til nákvæmar mælingar á ástandi gróðurs á svæðinu á árum áður þannig að mat á ástandi gróðurs byggist fyrst og fremst á ástandinu eins og það var sumarið 2006 en einnig er það borið saman við nýleg gögn sem eru gróðurkort frá 2000.


Kárahnjúkavirkjun, rannsóknir á gróðri í Kringilsárrana.
Skýrsla Landsvirkjunar:  LV2007/036 

Smellið hér til að sækja skýrslu.