2.4 Rof árbakka Jökulsár á Fljótsdal og Lagarfljóts

Vísir 2.4 - Rof í árbakka Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts

 


2.4-toppmynd-rof-i-arbakka

Hér má sjá niðurstöður mælinga á rofi í árbökkum Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts.

 

 

Niðurstöður

Rof á bökkum Lagarfljóts ofan við Steinboga að Lagarfossi virðist vera takmarkað og staðbundið.  Neðan  við Steinboga rennur Lagarfljót í bugðóttum farvegi en eðli slíkra farvega er að rof verður í ytri bakka bugðu en landmyndun út frá innri bakka.  Rof hefur því alltaf verið til staðar á þessu svæði og staðfestir samanburður á loftmyndum það.  Mest virðist rof vera við Hól og í bugt austurbakka gegnt Grænanesi.

Í ágúst 2012 var gerð úttekt á ástandi lands við bakka Lagarfljóts og Jökulsár í Fljótsdal m.t.t. landbrots.  Starfsmenn Landgræðslu ríkisins gerðu úttektina og var sérstaklega horft til bakkagerðar, hæðar árbakka, halla árbakka og landbrots.  Heildarlengd árbakka sem voru skoðaðir nam 211,5 km og má sjá yfirlitsmynd af landbroti við Lagarfljót hér og úttektarskýrsluna hér.

Í Töflu 1 má sjá niðurstöður mælinga á bakkarofi á nokkrum stöðum við Lagarfljót en árlega er fylgst með framgangi rofs á svæðum við fljótið. Mesta rofið er á svæði 8, sunnan við Hól.

Tafla 1:  Rofmælingar við Lagarfljót, mælistaðir frá Steinboga og að Silungakíl í Kílamýri (fjarlægð (m) hæls að bakkabrún). Hægt er að smella á hvert svæði fyrir sig til þess að sjá mynd af svæði og sniði.

Svæði / Ár Rof frá 2005-2018 Rof 2017-2018
Svæði 7: Vatnavik Steinboga – snið 1 6,9  0,4
Svæði 7: Vatnavik Steinboga – snið 2 6,2  0,4
Svæði 7: Vatnavik Steinboga – snið 3 3,8  0,4
Svæði 8: Hóll - snið 1 9,31a Bakki grjótvarinnd
Svæði 8: Hóll - snið 2 14,03b Bakki grjótvarinnd
Svæði 8: Hóll - snið 3 6,5 Bakki grjótvarinnd
Svæði 8: Hóll - snið 4 3,8 Bakki grjótvarinnd
Svæði 9: Vesturbakki n.v. Hól – snið 1 0,9  0,1
Svæði 9: Vesturbakki n.v. Hól – snið 2 0,1  0,0
Svæði 9: Vesturbakki n.v. Hól – snið 3 0,4c  0,0
Svæði 10: Austurbakki v. Grænanes - snið 1 8,2  0,0
Svæði 10: Austurbakki v. Grænanes – snið 2 6,2  0,1
Svæði 10: Austurbakki v. Grænanes - snið 3 6,9  0,0
Svæði 10: Austurbakki v. Grænanes - snið 4 8,0  0,0
Svæði 11: Við Silungakíl í Kílamýri - snið 1 1,0  0,0
Svæði 11: Við Silungakíl í Kílamýri – snið 2 6,1  0,0
Svæði 11: Við Silungakíl í Kílamýri – snið 3 2,3  0,0

a: Rof frá 2011 til 2016
b: Hæll sem var settur út árið 2005 var 11,5 metra frá bakkabrún en í mælingu 2014 var hællinn horfinn, sennilega fallinn í Lagarfljót.  Uppgefin tala í töflu er því lágmarksgildi.
c: Rof frá 2009 
d: Svæði 8 - Hóll: Bakki grjótvarinn árið 2018

Uppfært 21. febrúar 2019
Heimild: Landsvirkjun 2019

Vöktunaráætlun og markmið


Hvað er mælt?

Breytingar á árbakka eru mældar eftir sniðum í árbakka á völdum stöðum. (Áhrif framkvæmda: óbein).

Vöktunaráætlun

Árlegar mælingar eru gerðar frá viðmiðunarpunkti (hæll) að bakkabrún. Samhliða eru myndir teknar af bakka.

Markmið 

Fylgjast með hugsanlegu rofi til að geta gripið inn í framvinduna með bakkavörnum.

Mögulegar viðbragðsaðgerðir

Ef rof er á árbökkum er hægt að grípa inní þróun með bakkavörnum.

Breytingar á vísi

Á ársfundi verkefnisins 30. apríl 2019 var eftirfarandi breyting á vöktunaráætlun samþykkt:

Texti fyrir breytingu
Texti eftir breytingu
 

Sniðmyndir eru teknar á árbakka á völdum stöðum og merktar inn á kort. Mælingar verða framkvæmdar á fimm ára fresti.

 

Árlegar mælingar eru gerðar frá viðmiðunarpunkti (hæll) að bakkabrún. Samhliða eru myndir teknar af bakka.

Rökstuðningur breytinga: Hælar voru settir niður 2005 sem núllpunktar. Hælar geta týnst og þá er settur nýr núllpunktur. Mælt er árlega.
Í fjórða áfanga sjálfbærniverkefnisins var ákveðið að breyta númerum sjálfbærnivísanna.  Þessi vísir var upphaflega númer 18.1 og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2004 og 2005.

Grunnástand


Í tengslum við vöktun gróðurfarsbreytinga frá byggingu Lagarfossvirkjunar hefur á vegum RARIK verið fylgst með rofi á nokkrum stöðum í Lagarfljóti ofan Lagarfoss. Grunnástand á þessu svæði er því þekkt. Mæld er fjarlægð árbakka frá 13 gróðurreitum á 7 svæðum við Fljótið. Landbrot hefur verið afar misjafnt eftir svæðum, mest utan við Egilsstaði, einkum í Dagverðargerði og á Rangá 1.

Á árinu 2005 var grunnástand mælt á þeim stöðum við Lagarfljót neðan Lagarfoss þar sem talin er hætta á rofi. Mælingarnar verða endurteknar vorið 2009 og á grundvelli samanburðar við mælingar 2005 verður framhaldið metið. 

Sjá skýrslu LV-2005/087:  Kárahnjúkavirkjun: Mælingar á bökkum við Lagarfljót neðan Lagarfoss og Jökulsá á Dal við Húsey - Grunnástand fyrir tilkomu virkjunar - Mælingar í apríl / október 2005

Forsendur fyrir vali á vísi


Tilkoma Kárahnjúkavirkjunar mun auka rennsli í Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljóti sem getur haft áhrif á rof við bakka árinnar. Meðalrennsli Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts mun aukast um tæplega 90 m3/s sem svarar til um helmings aukningar meðalrennslis við Egilsstaði. Aukning rennslis í flóðum er þó hlutfallslega mun minni.

Auknu rennsli fylgir aukinn straumhraði og þar með getur hætta á rofi við bakka árinnar aukist. Slíkt rof á sér þó að langmestu leyti stað í flóðum, en þá eru áhrif Kárahnjúkavirkjunar á rennsli hlutfallslega lítil og aukning á straumhraða mjög lítil. Verulegt bakkarof á sér þegar stað á einstaka stað neðan Lagarfoss og einnig að nokkru leyti í Jökulsá í Fljótsdal.

Auknu rennsli fylgir einnig hækkun vatnsborðs sem ein og sér getur aukið rof, sérstaklega þar sem straumhraði er mjög lítill og öldurof er ráðandi þáttur. Þetta á við um Lagarfljót ofan Egilsstaða og að nokkru leyti við svæðin neðan Lagarfoss. Rof af völdum öldu á sér þegar stað á nokkrum stöðum við Fljótið.

Þriðji áhrifavaldurinn á rof ásamt straumhraða og vatnsborðshæð er ís. Ekki er talið að Kárahnjúkavirkjun muni hafa nein teljandi áhrif á ísafar á Fljótinu. Möguleg áhrif virkjunarinnar á rof vegna íss verða því aðeins óbein, þ.e. þar sem vatnsborð hækkar að vetrarlagi getur rof vegna íss færst ofar á ströndina. Þetta á einungis við um svæðið neðan Lagarfoss, en milli Lagarfoss og Egilsstaða ganga þessi áhrif í gagnstæða átt, þ.e. vatnsborð lækkar.

Ítarefni


2.4 Skýrsla LV 2012-109 ForsíðaSkýrsla Landsvirkjunar LV-2012-109: Skráning á landbroti á bökkum Lagarfljóts og Jökulsár í Fljótsdal.
Smellið hér til að sækja skýrslu.

2.4-Mynd-forsida-skyrsla-rof-i-arbakkaSkýrsla VST LV-2005/087:  Kárahnjúkavirkjun:  Mælingar á bökkum við Lagarfljót neðan við Lagarfoss og Jökulsá á Dal við Húsey.
Smellið hér til að sækja skýrslu.