Vísir 2.6 - Breytingar á strandlengju Héraðsflóa
Kárahnjúkavirkjun mun hafa þau áhrif að mikið mun draga úr þeim aurburði sem Jökulárnar tvær bera til sjávar sem getur haft áhrif á staðsetningu strandlengju Héraðsflóa og gróður nálægt ströndinni. Hér má sjá niðurstöður vöktunar á strönd Héraðsflóa og gróðri við flóann.
Framvinda
a. Staðsetning strandlínu mæld eftir loftmyndum og dýptarmælingum í sniðum.
Í skýrslu Landsvirkjunar um vöktun strandar Héraðsflóa kemur fram að ströndin sé nokkurn veginn í jafnvægi, sem þýðir að hún geti færst út um 100 m og síðan áratugum seinna gengið til baka að hluta. Grunnástandsmæling fór fram árið 2006 og í vöktunaráætlun vísis 2.6 er gert ráð fyrir að næsta gagnasöfnun fari fram að 10 – 20 árum liðnum eða 2016 – 2026. Meðfylgjandi er mynd úr skýrslunni sem sýnir 60 ára þróun strandarinnar miðað við „jafnvægisástand“. ósinn getur færst um 3 km og ströndin færst út eða inn um 100 – 200 m. Nálgast má nánari upplýsingar í skýrslu Landsvirkjunar undir ítarefni LV-2008/067.
Mynd 1: Árið 2014 hafði ósinn færst um 1,3 km frá því sem hann var fyrir virkjun og var komin um 3 km norðar en hann hafði oftast verið um og eftir miðja síðustu öld (sjá gagn og gaman á forsíðu). Ósinn hefur nú fest sig í sessi á nýja staðnum og sá gamli hefur lokast.
Mynd 2: Strandlengja Héraðsflóa. Drónamynd tekin sumarið 2016, af Svarma ehf.
Á stækkaðri mynd (smellt á mynd) er búið að setja inn mælinguna frá 2006 á Drónamyndina sem tekin var sumarið 2016, af Svarma ehf. Greinilegt er hvar norðurhluti strandarinnar hefur færst utar á bilinu um 130 – 150 m á 10 árum. Þá má sjá legu óssins (grafinn út 2014) og suðurhluti strandlínunnar er svo til óbreyttur eða lítils háttar utar.
Uppfært 13. apríl 2019
Heimild: Landsvirkjun, 2019
b. Gróðurþekja, gróska og tegundir
Árið 2006 hófst vöktun á gróðri og grunnvatnsstöðu á Úthéraði. Markmiðið var að rannsaka áhrif breytinga á vatnafari Lagarfljóts og Jökulsár á Dal í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar á fyrrnefnda þætti. Í upphafi var vöktunin unnin af Náttúrufræðistofnun Íslands en Náttúrustofa Austurlands tók við umsjón verkefnisins árið 2017. Sumarið 2017 var gróður á öllum vöktunarnarsvæðum endurmældur í samvinnu fyrrnefndra aðila.
Á vöktunarsvæðunum eru alls 34 reitir á sniðum sem liggja út frá fljótunum. Reitirnir eru staðsettir í mismunandi gróðurlendum, sumir í mjög blautum mýrastararmýrum, aðrir í þurrum fjalldrapa- og víðimóa og enn aðrir á sandflesjum. Auk gróðurmælinga hafa ýmsir rannsóknaþættir verið kannaðir í reitunum, meðal þeirra eru skráningar á beitarummerkjum og mælingar á grunnvatnsstöðu. Við úrvinnslu gagna voru einnig notaðar niðurstöður Landsvirkjunar um vatnshæð í fljótunum og grunnvatnsstöðu á sniðum út frá þeim.
Niðurstöður sýna að breytingar hafa orðið á gróðri. Breytingarnar eru mismunandi eftir svæðum, tengjast breyttri grunnvatnsstöðu en mótast einnig að aðstæðum. Á svæðum við Lagarfljót hefur land blotnað og þekja votlendistegunda hefur aukist. Við Jökulsá á Dal bendir til að land hafi þornað að einhverju leyti og þar hefur dregið úr þekju votlendistegunda. Miðað við niðurstöður þessarar rannsóknar má ætla að gróður muni halda áfram að breytast enn um sinn.
Mynd 3: Rannsóknarsvæðið á Úthéraði, vöktunarsvæði fyrir gróður og mælistöðvar Landsvirkjunar fyrir vatnshæð. Mynd tekin úr skýrslu Landsvirkjunar ( LV-2018-096 )
Grunnvatn hefur í aðalatriðum fylgt breytingum á vatnsborði ánna (LV-2012-099). VIð mat á ástandi gróðurs árið 2012 á láglendustu svæðunum komu fram vísbendingar um gróðurbreytingar (NÍ-13006). Í framhaldi af því var ákveðið að bæta við grunnvatnsmælisniði í Kílamýri í landi Húseyjar, og hófust mælingar þar haustið 2013. Grunnvatnshæð fylgir í megindráttum sömu ferlum og gengur og gerist á flatlendi við fljótin; fylgir vatnsborði í ánni einhver hundruð metra frá strönd en lengra frá úrkomu og leysingum (Minnisblað EA, 28.0115). Hins vegar kom í ljós að vatnsborð í Torfulóni svaraði strax færslu óssins. Að jafnaði er hæsta vatnsborð í lóninu nú um 0,5 m lægra en það var fyrir færsluna.
Uppfært 13. apríl 2019
Heimild: Landsvirkjun, 2019
Vöktunaráætlun og markmið
Hvað er mælt?
a. Staðsetning strandlínu mæld eftir loftmyndum og dýptarmælingum í sniðum. (Áhrif framkvæmda: óbein).
b. Gróður, bæði þekja og gróðurstuðull við Héraðsflóa. (Áhrif framkvæmda: óbein).
Áætlun um vöktun
a. Loftmyndir og dýptarmælingar í sniðum. Upplýsingum safnað á 10 til 20 ára fresti.
b. Gervitunglamyndir verða notaðar til að meta gróðurþekju og grósku (gróðurstuðul). Myndir verða teknar u.þ.b. fimmta til tíunda hvert ár.
Gróðurstuðull (GS) = Normalised Difference Vegetation index (NDVI).
Gróðurstuðullinn gefur upplýsingar um grósku og þekju gróðurs á stóru svæði. Setja þarf út rannsóknarreiti ef fá þarf nánari upplýsingar um þekju gróðurs og hverskonar gróður og tegundir eru á svæðinu.
Markmið
a. Staðsetning strandlínu muni ekki breytast meira en áætlað er samkvæmt líkindareikningum (280m á næstu 100 árum).
b. Að gróskan haldist og tegundum fækki ekki.
Mögulegar viðbragðsaðgerðir
Einungis er um vöktun að ræða.
Breytingar á vísi
Í fjórða áfanga sjálfbærniverkefnisins var ákveðið að breyta númerum sjálfbærnivísanna. Þessi vísir var upphaflega númer 29.1 og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2004 og 2005.
Grunnástand
a) Staðsetning strandlínu Héraðsflóa.
Samkvæmt skýrslu LV-2008/067 um vöktun strandar Héraðsflóa kemur fram að grunnástand hennar sé nokkurn veginn í jafnvægi, sem þýðir að ströndin geti færst út um 100 m og síðan áratugum seinna gengið til baka að hluta. Grunnástandsmæling fór fram árið 2006 og í vöktunaráætlun vísis 2.6 er gert ráð fyrir að næsta gagnasöfnum fari fram að 10 – 20 árum liðnum eða 2016 – 2026. Meðfylgjandi er mynd úr skýrslunni sem sýnir 60 ára þróun strandarinnar miðað við „jafnvægisástand“, ósinn getur færst um 3 km og ströndin færst út eða inn um 100 – 200 m. Smellið hér til að sjá stærri mynd.
Til eru loftmyndir og ljósmyndir af strandlengjunni sem sýna þær breytingar sem hafa orðið. Strandlengjan hefur verið kortlögð í tengslum við mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, bæði gróður og jarðfræði og gerðar dýptarmælingar í sniðum út frá ströndinni. Dýralíf á landi og í sjó hefur verið kannað svo og sjávarnytjar. Haustið 2006 var bætt við mælingum á sniðum á landi ásamt mælingum á strandlínunni sjálfri. Smellið hér til að sjá stærri mynd.
b) Gróðurþekja og gróðurstuðull við héraðsflóa. Sjá skýrslu Landsvirkjunar um Gróðurvöktun á Úthéraði í ítarefni eða með því að smella hér.
Forsendur fyrir vali á vísi
Kárahnjúkavirkjun mun hafa þau áhrif að mikið mun draga úr þeim aurburði sem Jökulárnar tvær bera til sjávar sem getur haft áhrif á staðsetningu strandlengju Héraðsflóa og gróður nálægt ströndinni. Láglendi á Úthéraði er að stórum hluta myndað og mótað af jökulánum tveimur sem um það renna, Jökulsá á Dal og Lagarfljóti. Af þeim ber Jökulsá á Dal fram mun meira af aur og er aurburðurinn áætlaður nema um 7-8 milljónum tonna á ári. Framburður Lagarfljóts er mun minni. Megnið af þessum framburði ánna berst til sjávar. Árnar tvær hafa sameiginlegan ós við Héraðsflóa. Strönd flóans og lega óssins mótast af samspili framburðarins og rofkrafta sjávaröldunnar. Ósinn hefur verið að færast norður og gera má ráð fyrir að ströndin sé enn að færast utar við núverandi aðstæður.
Við virkjun Jökulsár á Dal mun megnið af framburði árinnar setjast til í Hálslóni, þar sem í meðalári setjast til um 6,0 milljónir tonna af efni. Eftir að framburður aurs til strandarinnar stöðvast mun núverandi jafnvægi raskast og gera má ráð fyrir að ströndin hopi. Einnig mun hugsanleg hækkun á sjávarstöðu vegna gróðurhúsaáhrifa flýta fyrir rofi strandarinnar.
Samkvæmt reiknilíkönum er áætlað að rof strandarinnar verði um 280 metrar fyrstu 100 árin eftir að rekstur virkjunar hefst. Rof þetta verður ekki endilega samfellt heldur mótast af illviðrum, brimi og öðrum aðstæðum t.d. vegna hækkaðrar sjávarstöðu. Eyðing gróðurs vegna rofs á strönd er talin verða minni en sem nemur landeyðingu af völdum rofsins.
Uppfært: 18.2.1015
Ítarefni
Kvikmynd um færslu óss Lagarljóts og Jöklu
Minnisblað um grunnvatnsmælingar í Húsey frá 28. janúar 2015
Grein um færslu óss Lagarfljóts og Jöklu í Héraðsflóa 2014
Gróðurbreytingar 2006 - 2017 við Lagarfljót og Jökulsá á Dal á Úthéraði, áhrif Kárahnjúkavirkjunar
Skýrsla Landsvirkjunar LV-2018-096
Gróðurbreytingar 2006 - 2012 á Hvalbeinsrandarsandi og í Kílamýri í landi Húseyjar á Úthéraði
Skýrsla Náttúrfræðistofnunar: NÍ-13006
Smellið hér til að sækja skýrslu
Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á vatnsborð og grunnvatn á láglendi á Héraði
Skýrsla Landsvirkjunar: LV-2012-099
Smellið hér til að sækja skýrslu
Héraðsflói - Vöktun strandar, Grunnástand
Skýrsla Landsvirkjunar um vöktun strandar Héraðsflóa: LV-2008/067
Smellið hér til að sækja skýrslu
Kárahnjúkavirkjun, Gróðurvöktun á Úthéraði
Skýrsla Landsvirkjunar: LV-2008/036
Smellið hér til að sækja skýrslu