Þróun verkefnisins

Þróun verkefnisins


Aðstæður og áherslur breytast með tímanum og þróun getur orðið með öðrum hætti en áætlanir gera ráð fyrir. Það er mikilvægt að geta aðlagað verkefnið slíku þannig að það þjóni upphaflegum markmiðum.

Breytingar

Fljótlega eftir að Sjálfbærniverkefnið hófst kom í ljós að nauðsynlegt var að breyta vísum og mælikvörðum frá því sem upphaflega var áætlað.  Þegar gagnasöfnun hófst og ljóst varð hvaða upplýsingar væru raunverulega tiltækar og fáanlegar þurfti strax að gera nokkrar breytingar. Til að draga ekki úr gildi og trúverðugleika verkefnisins má ekki breyta því nema að vel athuguðu máli.  Breytingaferlið er strangt til að tryggja gagnsæi breytinga og samfellu mælinga.  Reynt er að tryggja að ekki sé vikið frá upphaflegum vísum, nema að vel athuguðu máli.  Sjá verklagsreglu um breytingar á vísum.  Hægt er að skoða á síðu hvers vísis hvort og hvaða breytingar hafa orðið á viðkomandi vísi.

Rýni og endurmat

Árið 2008 fór fram endurmat á verkefninu. Lagðar voru spurningar fyrir þátttakendur í upphaflega samráðshópnum annars vegar og hins vegar fyrir fulltrúa Fjarðaáls og Landsvirkjunar sem störfuðu með hópnum.  Það var fyrirtækið Ildi sem annaðist endurmatið.  Niðurstöðum er lýst í skýrslunni:  "Sjálfbærniverkefni á Austurlandi, endurmat". 

Á árinu 2012 var dr. Hörður Haraldsson hjá Umhverfisstofnun Svíþjóðar fenginn til að rýna verkefnið og benda á leiðir til að bæta það ( sjá skýrslu Harðar ).  Ýmsar lagfæringar hafa verið gerðar í kjölfarið og ábendingar nýttar áfram í sífellda rýnivinnu ( sjá úrvinnsla rýni ).  

Árið 2017 var leitað til Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um framkvæmd úttektar á samfélagsvísum og verklagi verkefnisins.  Markmið rannsóknarinnar var „Að leggja mat á samfélagsvísa í Sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar á Austurlandi“ og „Að greina samfélagsvísana með hliðsjón af félagsvísum sem gefnir eru út af Hagstofu Íslands“.  Gagna var aflað með viðtölum, netkönnun og í gegnum hópastarf á ársfundi verkefnisins 2017.    Niðurstöðum er lýst í skýrslunni:  Sjálfbærniverkefnið á Austurlandi - Mat á samfélagsvísum og verklagi verkefnisins