Fólksfjöldi

Fólksfjöldi

Svæðið í heild
Íbúaþróun í Þingeyjarsýslum og við Bakkaflóa hefur almennt verið neikvæð á árinu 2009. Staðan er misjöfn en hvergi mjög góð. Á landinu öllu hefur fólki fjölgað um 10,84 % frá 2002 til ársins 2010 en á þessum tíma hefur fækkað um 9,67 % á fyrrgreindu svæði á Norðausturhorni landsins. Á árabilinu hefur fækkað í öllum sveitarfélögunum á starfssvæði Þekkingarsetursins.

Skútustaðahreppur
Í Skútustaðahreppi fækkaði mest allra sveitarfélaga héraðsins milli mælinga eða um 3,6% (14 einstaklinga). Er það annað árið í röð sem fækkun er yfir 3% milli ára. Fækkað hefur í Skútustaðahreppi um 14,16% frá árinu 2002 og samfellt frá árinu 2005.

Þingeyjarsveit
Staðan í Þingeyjarsveit er jákvæðari þar sem fækkun varð óveruleg milli ára, eða 0,63% (6 einstaklinga). Í Þingeyjarsveit hefur að vísu fækkað um 6,82 % síðan árið 2002 en íbúafjöldi hefur verið nokkuð stöðugur frá árinu 2006. Ekki hafa verið stórar sveiflur í íbúatölunni á milli ára undanfarin ár.

Norðurþing
Norðurþing er langfjölmennasta sveitarfélag héraðsins með um 60% íbúa. Í Norðurþingi fækkaði verulega á árinu eða um 2,5% (75 einstaklinga). Þessi fækkun á liðnu ári er afturkippur frá síðasta ári þar sem fjölgaði um 0,6%. Frá árinu 2002 hefur fólki fækkað stöðugt í Norðurþingi, utan fyrrnefndrar fjölgunar milli áranna 2008 og 2009. Alls hefur þessi fólksfækkun verið 10,08% frá 2002.

Tjörneshreppur
Tjörneshreppur er meðal fámennustu sveitarfélaga landsins og getur lítið rót á fólki haft töluverð áhrif á prósentumælingar. Í Tjörneshreppi fækkaði um 3,45% á liðnu ári (2 einstaklinga). Íbúum í Tjörneshreppi hefur fækkað stöðugt frá árinu 2005 og um 18,84 % síðan 2002.

Svalbarðshreppur
Í Þistilfirði hefur íbúaþróun undanfarið verið mun jákvæðari en í öðrum sveitarfélögum. Íbúum Svalbarðshrepps fjölgaði þannig um 2,78% (3 einstaklinga) á árinu 2009. Hreppurinn er fámennur svo prósentutölur eru töluvert breytilegar. Íbúum Svalbarðshrepps hefur þó fækkað um 7,5 % frá árinu 2002 en íbúafjöldi hefur verið nokkurn veginn í jafnvægi frá árinu 2005.

Langanesbyggð
Í Langanesbyggð fjölgaði íbúum um 2,56% (13 einstaklinga) milli ára og er það annað árið í röð sem fjölgar í sveitarfélaginu. Íbúum Langanesbyggðar hefur fækkað minnst allra sveitarfélaga frá árinu 2002 eða um 5,61 %. Eftir uppsveiflu í íbúatölu síðustu tvö ár hefur Langanesbyggð nú svipaðan íbúafjölda og 2006.