Skilgreining

Skilgreining sjálfbærrar þróunar

  • visir-1_1-ljosmynd

Hugtakið sjálfbær þróun er skilgreint sem: „Mannleg starfsemi sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“ Hugtakið var fyrst kynnt til sögunnar í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem kom út árið 1987 í  Brundtlandskýrslunni svokölluðu.

Sjálfbær þróun er hugtak sem vísar til þróunar þar sem litið er til lengri tíma og reynt að ná jafnvægi milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta. Sjálfbær þróun kallar á samþættingu þessara þriggja þátta við ákvarðanatöku frekar en að horfa á þá aðskilda. Þróun er flókið ferli þar sem spila saman ákvarðanir stjórnvalda, fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga.
 
Sjálfbær þróun er ekkert töfrahugtak sem hefur að geyma einfaldar lausnir á vanda mannkynsins, þetta er skilgreining á hugmyndafræði sem felur í sér gagnlega nálgun sem þjóðir heims hafa sameinast um að hafa að leiðarljósi í viðleitni sinni til að leysa mörg helstu viðfangsefni 21. aldarinnar.

Orðið „sjálfbærni“ er þýðing á enska orðinu „sustainability“ og hefur svipaða þýðingu og sjálfbær þróun en er notað þegar sjónarhornið er þrengra en almenn þróun svæðis, t.d. þegar fyrirtæki marka sér stefnu um sjálfbærni, ef sjálfbærni er skoðuð innan ákveðinna atvinnugreina eða fyrir einstök verkefni.