Fara í efni

LV-2022/008 - Burðarsvæði Snæfellshjarðar 2005-2020

Nánari upplýsingar
Titill LV-2022/008 - Burðarsvæði Snæfellshjarðar 2005-2020
Undirtitill NA-210213
Lýsing

Vorið 2005 hóf Náttúrustofa Austurlands árlega kortlagningu burðarsvæða Snæfellshjarðar fyrir Landsvirkjun í takt við kröfur í virkjanaleyfi Fljótsdalsstöðvar. Stóð sú vöktun yfir til 2013. Þó erfitt reyndist að aðgreina áhrif truflunar vegna framkvæmda frá öðrum þáttum sem móta hegðun og dreifingu hreindýra var ljóst að ákveðnar breytingar áttu sér stað í burðardreifingu hreinkúa á framkvæmdartíma. Breytingarnar voru tvíþættar; breytt dreifing innan rannsóknarsvæðis og færri kýr sem nýttu svæðið til burðar.

Takmarkaðar athuganir á vordreifingu kúa fyrir 2005 gáfu vísbendingar um nokkuð sambærilegan breytileika fyrir framkvæmdir. Fyrir tímabilið 2005-2013 gátu snjóalög skýrt þennan breytileika í flestum árum en ekki fyrir 2007 og 2008. Þó framkvæmdir væru umfangsmiklar og í miðju hefðbundinna burðarsvæða virtust þær ekki hafa neikvæð áhrif á frjósemi hreinkúa eða dánartíðni kálfa á fyrstu vikum eftir burð. Á sama tíma og dýrum fækkaði á veiðisvæði 2 á burðartíma fjölgaði hreindýrum á aðliggjandi veiðisvæðum. Sú fjölgun var skýrð með viðbót dýra af veiðisvæði 2 sem leiddi til hækkunar veiðikvóta þar.

Markmiðið með viðbótarvöktun 2014-2020 var að kanna hvort breytt burðardreifing á framkvæmdartíma Kárahnjúkavirkjunar gengi að hluta eða alfarið til baka þegar frá leið framkvæmdum. Haldið var í þá skilgreiningu að kýr Snæfellshjarðar væru þær sem héldu til og bæru innan veiðisvæðis 1 og 2 á burðartíma. Á veiðisvæði 1 varð umtalsverð  stækkun á rannsóknarsvæðinu en á veiðisvæði 2 hélst það óbreytt. Nær einungis var leitað úr lofti og gaf það vel. 6 GPS-kýr vörpuðu ljósi á breytta dreifingu kúa á veiðisvæði 1. Einnig var vonast til að þær gæfu vísbendingar um svæðisnotkun dýra sem flakka milli veiðisvæða og jafnframt um farhegðun inn á burðarsvæði að vori. Engin GPS-kúnna flakkaði verulega milli veiðisvæða. Þær nýttust þó við mat á hagatryggð einstakra kúa við burðarstað. Sífellt færri dýr báru á fyrrum þekktum burðarsvæðum næst  uppistöðulónum, virkjunum og öðrum mannvirkjum þeim tengdum. Áfram virtist dreifing stýrast að einhverju leiti af hæð yfir sjó, snjóalögum og aðgengi að nýgræðingi. Mun færri kýr báru á þröngt skilgreindu áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar og virtust kýr sem enn héldu sig á veiðisvæði 2 bera inná Vesturöræfum í fremur snjóléttum árum. Af 7 athugunarárum reyndust 4 ár fremur eða mjög snjóþung en 3 fremur eða mjög snjólétt. Til viðbótar við breytta dreifingu kom á seinna athugunartímabilinu fram lægri kálfahlutföll í júlí, sér í lagi á veiðisvæði 2. Ef þessi lækkuðu kálfahlutföll í júlí endurspegla hærri dánartíðni kálfa á fyrstu vikum þá er það áhyggjuefni og ekki hægt að útiloka að það tengist verra aðgengi hreinkúa að góðum burðarsvæðum.

Snjóléttasti hluti Vesturöræfa fór undir lón haustið og veturinn 2006-2007. Sá hluti Vesturöræfa sem eftir stendur er gróskumikið en að mestu snjóþungt og liggur hátt yfir sjó. Ef aðeins er horft til þessara tveggja þátta sem virtust skipta máli við val kúa á burðarsvæðum eru Vesturöræfi einsleitari eftir virkjun og getur ekki talist eins hentugt til burðar og áður. Breytingar á snjóalögum, hitastigi og þéttleika dýra hafa bein áhrif á gæði, grósku og aðgengi fæðu sem aftur skilar sér í breytilegri burðardreifingu milli ára þar sem skörun er þó við burðardreifingu síðasta árs. Ef svæðis- eða veðurfarsbreytingarnar eru endanlegar og umfangsmiklar má sjá fyrir sér að hnikun burðarstaðsetninga dugar ekki  til, heldur verður tilflutningur stórs hluta hreinkúa yfir á aðskilið „nýtt“ svæði sem kýrnar þekkja ekki frá fyrri árum. Slíkum tilflutningi fylgir áhætta þar sem kýrnar vita ekki að hverju þær ganga. Tilflutningur þarf ekki að vera endanlegur ef fyrri svæði jafna sig , en miklar langtíma breytingar í veðri, veglagningar, aukning mannaferða og víðáttumikil uppistöðulón lækkar notkunargildi burðarsvæða. Ef önnur jafngóð svæði eru ekki í boði getur slíkt haft neikvæð áhrif á t.d. dánartíðni kálfa á fyrstu vikum eftir burð.

Skráarviðhengi
Sækja skjal
Höfundar
Nafn Rán Þórarinsdóttir
Nafn Kristín Ágústsdóttir
Nafn Hálfdán Helgi Helgason
Flokkun
Flokkur Hreindýr
Útgáfuár 2022
Útgefandi Náttúrustofa Austurlands
ISBN 978-9935-9591-4-0
Leitarorð Hreindýr, burður, burðarsvæði, heildarsvæði, kjarnasvæði, miðburður, hagatryggð, farhegðun, GPS staðsetningar, Rangifer tarandus