Fara í efni

Ársfundur 2017

Haldinn í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði 9. maí kl. 14:15 - 18:00

Fundarstjóri:  Gunnar Jónsson, bæjarritari Fjarðabyggðar.

 

 

Vöktun vísa í Sjálfbærniverkefninu hafði staðið í 10 ár. Á ársfundinum var kynnt mat á vísum verkefnisins og sérstaklega fjallað um félagsvísa.


Dagskrá

 


Samantekt

Þátttakendur á ársfundinum voru rúmlega 50 og tóku þeir virkan þátt í hópastarfi sem tengist framtíðarsýn og þróun verkefnisins ásamt ákvarðanatöku um breytingu á vísi 2.28 sem lögð var fyrir ársfund.

Magnús Þór Ásmundsson setti fundinn. Magnús sagði meðal annars að verkefnið hefði verið sett af stað af mikilli framsýni. Eðlilega hefðu verið skiptar skoðanir um framkvæmdirnar sem urðu kveikjan að verkefninu og á þeim tíma hefði vitund um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni ekki verið eins almenn og nú og því hefði þetta verkefni verið framsýnt. Hann sagði ennfremur að líklega væri verkefnið ekki nægilega vel þekkt og það væru tækifæri til staðar til að fara í meiri greiningarvinnu á gögnum verkefnisins. Einnig væri nauðsynlegt að rýna verkefnið reglulega og huga að hvernig gera mætti það enn betra og hvernig hægt er að nýta það.

Freyr Ævarsson fór yfir helstu niðurstöður SVÓT greiningar frá ársfundi Sjálfbærniverkefnisins 2016. Fram kom meðal annars að SVÓT greiningin bendir á að upplýsingasafn og sérfræðiþekking tengd verkefninu séu styrkleikar þess en lítil úrvinnsla gagna, óljós notendahópur og takmarkaður sýnileiki veikleiki. Lítil þátttaka úr samfélaginu og stöðnun vísanna gæti ógnað verkefninu en jafnframt liggi tækifæri í aukinni samvinnu og meiri túlkun og nýtingu á gögnum verkefnisins.

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir flutti erindið ,,Félagsvísar: Alþjóðlegt og staðbundið mat á sjálfbærni samfélaga“. Hún fjallaði m.a. um aðferðafræði við val, innleiðingu og notkun sjálfbærnivísa. Fór stutt yfir sögu sjálfbærnihugtaksins og hvernig það hefur þróast og verið tekið í notkun m.a. í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, stefnu Evrópusambandsins og einstakra ríkja m.a. Íslands og sýndi ýmis dæmi um sjálfbærnimælikvarða sem eru notaðir. Hún sagði frá félagsvísum Velferðarráðuneytisins sem hafa verið í notkun í nokkur ár og er ætlað að afla upplýsinga til að styðja við stefnumótun stjórnvalda. Einnig varpaði hún fram spurningunni hvort og hvernig vísar Sjálfbærniverkefnisins tengdust stefnumótun fyrirtækjanna sem að því standa og stefnumótun sveitarfélaga á svæðinu.

Sigrún Birna Sigurðardóttir flutti erindið ,,Mat á sjálfbærnivísum á Austurlandi: Þróun og væntingar“. Hún fjallaði um niðurstöður spurningakönnunar og viðtalsrannsóknar um Sjálfbærniverkefnið. Eigindleg viðtöl voru tekin við fulltrúa þeirra fyrirtækja, stofnana, sveitarfélaga og félagasamtaka sem átt hafa aðkomu að Sjálfbærniverkefninu á Austurlandi. Þessir aðilar voru valdir í samráði við verkkaupa. I viðtölunum kom m.a. fram að: Almennt er ánægja með verklag við verkefnið, það talið faglegt og unnið af heilindum. Einnig eru afurðir verkefnisins og gildi þeirra almennt talið jákvætt og að þær mætti nýta á margvíslegan hátt. Hins vegar er lítið vitað um raunverulega hagnýta notkun af þriðja aðila. Niðurstöður netkönnunar sýna að Sjálfbærniverkefnið er ekki mjög vel þekkt á Miðausturlandi en þó betur þekkt þar en á öðrum landsvæðum. Einnig kom fram að flestir þeir sem þekkja til verkefnisins telja að það skipti máli að það haldi áfram. Einnig varpaði Sigrún fram ýmsum spurningum um mögulega framtíðarþróun verkefnisins.

Guðmundur Sveinsson Kröyer fjallaði um losun gróðurhúsalofttegunda frá Alcoa Fjarðaáli (umhverfisvísi 2.13) og líka í stærra samhengi. Guðmundur fór stuttlega yfir uppsprettur gróðurhúsalofttegunda hjá Alcoa Fjarðaáli og gerði grein fyrir hlutdeild hverrar þeirra í heildarlosun frá verksmiðjunni. Hann fór yfir heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá áliðnaði og heildarlosun gróðurhúsalofttegunda samanlagt á Íslandi. Þá rakti hann stuttlega hvernig íslenskur áliðnaður hefur verið aðili að ETS, Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, síðan 2013, og sagði frá markmiðum og aðgerðum hjá fyrirtækinu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og taka þátt í aðgerðum sem stuðla að kolefnisbindingu.

Dagbjartur Jónsson fjallaði um uppgræðslu á vegum Landsvirkjunar. Hann fór yfir verkefni á vegum Landbótasjóðs Norður-Héraðs, gróðurstyrkingu við Hálslón og á Hraunum sem Landsvirkjun hefur sjálf staðið fyrir og verkefni á vegum Landbótasjóðs Fljótsdalshrepps. Í umfjöllun sinni fór Dagbjartur yfir helstu aðgerðir til uppgræðslu einkum á hálendinu. Sýndi kort og ljósmyndir af uppgræðslusvæðum og tölur um fjölda tonna af áburði og fjölda hektara sem unnið hefur verið með.

Á fundinum var samþykkt breyting á vísi 2.28 Gróður á Snæfellsöræfum.

Að lokum gerði Hjalti Jóhannsson örstutta samantekt á fundinum. Hann sagði m.a. að fundurinn hefði verið áhugaverður og margt mikilvægt komið fram. Hann taldi niðurstöðu fundarins vera þá að Sjálfbærniverkefnið væri gott verkefni, með öflugt gagnasafn, sem hefði margvíslega nýtingarmöguleika og vissulega mætti þróa það frekar.

Í hópavinnu á fundinum var fjallað um eftirfarandi verkefni:

 • Hvaða félagsvísar eru mikilvægir fyrir samfélagið á Austurlandi?
 • Tenging sjálfbærniverkefnisins við stefnumótun fyrirtækjanna sem standa að því og stefnumótun samfélagsins á Austurlandi
 • Endurspegla sjálfbærnivísarnir áskoranir sveitarfélaga á Austurlandi?
 • Kostir og ókostir þess að verkefnið vaxi/breytist og bakland og markhópar verkefnisins.

.Stýrihópur verkefnisins mun nýta niðurstöður hópastarfs við rýni og þróun verkefnisins.


Hópavinna

Umræðupunktar úr hópavinnu á ársfundi Sjálfbærniverkefnisins 2017

Hópur 1.
Verkefni: Hvaða félagsvísar eru mikilvægir fyrir samfélagið á Austurlandi?

Megintilgangur félagsvísa sem hafa verið gefnir út af Velferðarráðuneytinu og Hagstofu Íslands frá árinu 2012 er að birta á einum stað safn tölulegra upplýsinga til að auðvelda stjórnvöldum og almenningi að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu. Vísarnir eiga að einfalda aðgengi almennings, stjórnvalda, hagsmunaaðila og rannsakenda að skilgreindum upplýsingum sem varpa ljósi á þjóðfélagsástand. Vísarnir eiga jafnframt að styðja við stefnumótun stjórnvalda. Þegar best lætur eiga félagsvísar að geta dregið upp heildarmynd af ástandi þar sem velferð, heilbrigði, vellíðan og þarfir íbúanna eru í brennidepli, en fyrst og fremst eru félagsvísar tæki sem eiga að greina hópa í vanda og þar sem samfélagslegar aðgerðir og þjónusta skila ekki tilætluðum árangri.

 • Hverjir þessara vísa væru mikilvægastir fyrir sveitarfélög og samfélagið á Austurlandi?
 • Hversu mikilvægt er að bera saman stöðu í ólíkum sveitarfélögum á Austurlandi og að bera hana saman við stöðuna á landsvísu?
Punktar úr umræðu

Allflestir félagsvísa Velferðarráðuneytisins eiga við á Austurlandi og margt gagnlegt og upplýsandi mætti fá út úr því að skoða þá fyrir Austurland.

Mikilvægi þeirra er þó kannski mismikið og þyrfti að meta frá ýmsum sjónarmiðum en nefna má vísa eins og lýðfræði, húsnæðismál, ráðstöfunartekjur sem væru mjög gagnlegir. Það eru fleiri aðilar sem þyrftu að leggja vinnu í að velja vísa ef þeir ættu að nýtast vel. Án vafa mjög mikilvægt að greina niður á sveitarfélög og jafnvel byggðarlög.

 

Hópur 2.
Verkefni: Tenging Sjálfbærniverkefnisins við stefnumótun fyrirtækjanna sem standa að því og stefnumótun samfélagsins á Austurlandi.

Notagildi sjálfbærnivísa, hvort sem þeir eru á landsvísu eða staðbundnir, felst m.a. í skýrri tengingu þeirra við stefnumótun viðkomandi svæða eða stjórnsýslustiga.

 • Hvernig tengjast vísarnir stefnumótun fyrirtækjanna sem eiga verkefnið og sveitarfélaganna á Austurlandi?
 • Mætti styrkja þessa tengingu? Væri æskilegt að greina stöðuna eftir sveitarfélögum?
 • Hvernig mætti nýta sjálfbærnivísana betur í samskiptum við ríkisvaldið?
Punktar úr umræðu

Niðurstöður sjálfbærnivísa geta haft áhrif á stefnumótun fyrirtækjanna, þau skoða vísana í tengslum við stefnumótun.

Ekki ætti að greina stöðuna eftir sveitafélögum, hugsa svæðið sem heild.

Það ætti að styrkja tengingu við sveitafélög t.d. varðandi það að nota vísa í fræðslu.

Halda mætti til haga upplýsingum úr verkefninu í opinberri umræðu t.d. varðandi efnahags og samfélagsvísa. Svo sem íbúaþróun og fasteignaverð, öryggismenningu á svæðinu og fleira.

 

Hópur 3.
Verkefni: Endurspegla sjálfbærnivísarnir áskoranir sveitarfélaga á Austurlandi?

Hverjar eru helstu áskoranir sveitarfélaga á Austurlandi í dag og hverjir eru helstu styrkleikar þeirra og framtíðarsýn?

(Dæmi um áskoranir; hækkandi aldur, skortur á ákveðnum fagstéttum, eftirköst hrunsins, að laða heim brottfluttar kynslóðir, lýðheilsa og velferð, sjálfbærar samgöngur, skortur á háskólamenntun, einsleitni atvinnuvega?)

 • Er mögulegt að nýta núverandi sjálfbærnivísa til að takast á við áskoranir sveitarfélaga/samfélagsins og meta árangur af því sem gert er?
 • Ef svigrúm væri, hvers konar samfélagsvísa (eða aðra vísa) væri mikilvægast að innleiða til að fanga breytilegar áskoranir? Og hvernig gætu sveitarfélögin haft gagn af því ?
Punktar úr umræðu

Það væri hægt að nýta vísana betur, einkum ef þeir væru ,,breiðar'' skilgreindir. Það mætti bæta við vísum og mælikvörðum. Gott væri ef vísar ,,töluðu við‘‘ opinbera stefnu svo sem sóknaráætlun og svæðisskipulag. Dæmi um mikilvæga vísa fyrir sveitarfélögin væru: Aðgengi að opinberri þjónustu svo sem menntun, heilsugæslu, löggæslu og annarri opinberri þjónustu. Einnig nefnt mikilvægi fasteignaverðs, eftirspurn eftir húsnæði, leigumarkaður, íbúðir sem nýttar eru fyrir ferðamenn, samgöngur vegabætur, flug o.fl. Greining á atvinnulífi og samfélagsleg virkni fólks.

 

Hópur 4.
Verkefni: Kostir og ókostir þess að Sjálfbærniverkefnið myndi vaxa/breytast

Það eru skiptar skoðanir um framtíðarvæntingar til verkefnisins og ljóst er að verkefnið stendur á tímamótum á 10 ára afmæli sínu.

 • Hverjir væru mögulegir ókostir eða kostir þess fyrir nærsamfélagið, eigendur verkefnisins eða aðra mögulega hagnýtingaraðila, ef verkefnið myndi vaxa og bæta við sig fleiri samfélagsvísum?
 • Hverjir væru mögulega ókostir eða kostir þess fyrir nærsamfélagið, eigendur verkefnisins eða aðra mögulega hagnýtingaraðila, ef verkefnið myndi takmarka umfang samfélagsvísana eingöngu við núverandi kjarnavísa sem snúa að fyrirtækjunum og starfsfólki þess? (Vísar: 1.1 – 1.6, 1.12, hluti 1.14). Vísar sem myndu meta afleidd áhrif myndu þá falla niður.
Punktar úr umræðu

Ókostir þess að fjölga vísum væru að það yrði aukið utanumhald og umfang í verkefninu, hugsanlega minni fókus og óskýrari markhópur.

Kostir væru fyrir verkefnið við að bæta við vísum sem tækju mið af alþjóðlegum vísum/mælikvörðum. Slíkt myndi gera kleift að vera með meiri samanburð og samhæfingu við viðurkennda mælikvarða.

Að fækka vísum myndi líklega gefa kost á meiri fókus, minnka utanumhald og umfang en ókostir væru að það myndi minnka gildi verkefnisins t.d. með því að rjúfa tímaseríur mælinga.

Verkefnið og vísarnir er skuldbinding hjá fyrirtækjum sem verður að standa við. Rétt væri a.m.k. að fara í greiningu á vísunum áður en ákveðið er hvort til greina komi að fækka eða fjölga.  

 

Hópur 5.
Verkefni: Bakland og markhópar verkefnisins

Rætt hefur verið um þarfir sveitarfélaga og samfélagsins á Austurlandi fyrir upplýsingasöfnun og greiningu á upplýsingum sem miðast við þarfir nærsamfélaganna, einkum varðandi félags- og efnahagsvísa. Nokkurs konar ,,Hagstofu Austurlands‘‘ þar sem sveitarfélög og e.t.v. aðilar vinnumarkaðar o.fl. gætu valið og stjórnað mælikvörðum (vísum) eftir þörfum samfélagsins hverju sinni.

 • Gæti Sjálfbærniverkefnið aukið hlutverk sitt í átt að því að verða slík samfélags ,,mælistika“ Austurlands og samfélagið yrði þá lykil markhópur verkefnisins?
 • Væri jákvætt að breiðari hópur væri virkur í stjórnun (og fjármögnun?) verkefnisins en nú er eða myndi það rýra gildi verkefnisins fyrir núverandi eigendur ef að slíkar breytingar yrðu gerðar?
 • Myndi það rýra gildi Sjálfbærniverkefnisins miðað við upphaflega markmið ef að slíkar breytingar yrðu gerðar?
Punktar úr umræðu

Þegar verkefnið hófst var lagt af stað með að meta ýmsa þætti. Verkefninu var ætlað að þjóna breiðum hópi.

Fyrirtækin þurfa að vera meðvituð um sína hagsmuni. Kannski vantar hvata fyrir þátttöku fleiri aðila ef þetta á að vera samfélagsverkefni. Skilgreining markhóps og endurmat er mikilvægt. Á móti kröfu um þróun verkefnisins kemur að passa þarf að breyta ekki of mikið því notagildið getur komið með tímanum ef þolinmæði er til að halda áfram að mæla. Umræðan var að verkefnið gæti þróast í átt að ,,mælistiku´´ Austurlands með breiðari hóp á bakvið sig en nú er.


Þátttakendur

Nafn Fyrirtæki, stofnun, félag
Aníta Júlíusdóttir Landsvirkjun
Anna Alexandersdóttir Austurbrú
Anna Berg Samúelsdóttir Fjarðabyggð
Árni Jóhann Óðinsson Landsvirkjun
Birna Ósk Landsvirkjun
Björg Björnsdóttir Austurbrú
Björn Ingimarsson Fljótsdalshérað
Dagbjartur Jónsson Landsvirkjun
Dagmar Ýr Stefánsdóttir Alcoa Fjarðaál
Dagný Björk Reynisdóttir Alcoa Fjarðaál
Dagný Jónsdóttir Landsvirkjun
Elfa Hlín Pétursdóttir Austurbrú
Elín Inga Knútsdóttir Landsvirkjun
Erlín Jóhannsdóttir Náttúrustofa Austurlands
Esther Kjartansdóttir  
Freyr Ævarsson Fljótsdalshérað
Geir Sigurpáll Hlöðversson Alcoa Fjarðaál
Georg Þór Pálsson Landsvirkjun
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands
Guðmundur S. Kröyer Alcoa Fjarðaál
Guðrún Á. Jónsdóttir Austurbrú
Guðrún Ólafía Brynleifsdóttir Landsvirkjun
Gunnar Jónsson Fjarðabyggð
Gunnlaugur Aðalbjarnarson Alcoa Fjarðaál
Hákon Aðalsteinsson Landsvirkjun
Helena Eydís Ingólfsdóttir Þekkingarnet Þingeyinga
Helga Guðrún Jónasdóttir Fjarðabyggð
Hilmar Sigurbjörnsson Alcoa Fjarðaál
Hjalti Jóhannesson Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri
Ívar Páll Jónsson Landsvirkjun
Jóhanna Harpa Árnadóttir Landsvirkjun
Jón Ingimarsson Landsvirkjun
Jón Steinar G. Mýrdal Austurbrú
Jóna Árný Þórðardóttir Austurbrú
Kristín Ágústsdóttir Náttúrustofa Austurlands
Kristján H. Svavarsson Landsvirkjun
Líneik Anna Sævarsdóttir Austurbrú
Magnús Þór Ásbjörnsson Alcoa Fjarðaál
Magnús Þór Gylfason Landsvirkjun
Marinó Stefánsson Fjarðabyggð
Olivera Ilic Landsvirkjun
Ólöf Vilbergsdóttir Fjarðabyggð
Rafnar Lárusson Landsvirkjun
Signý Ormarsdóttir Austurbrú
Sigrún Birna Sigurðardóttir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands
Sigþór Örn Árnason Landsvirkjun
Silja Jóhannesdóttir Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga
Sindri Óskarsson Landsvirkjun
Smári Kristinsson Alcoa Fjarðaál
Snæbjörn Sigurðarson Norðurþing