Fara í efni

Mótun verkefnisins

Alcoa Fjarðaál og Landsvirkjun þróuðu verklag grundvallað m.a. á stefnumótun fyrirtækjanna varðandi umhverfi, samfélag og efnahagsþróun. Samráð var haft við hagsmunaaðila í öllum áföngum verkefnisins. Verkferlinu var skipt upp í fjóra áfanga (mynd 1) og hver þeirra skiptist í nokkra verkþætti.


Mynd 1.  Áfangar Sjálfbærniverkefnisins

Áfangi 1:  Samhengi og áhrif

Í þessum áfanga var grunnur verkefnisins lagður með því að skilgreina stefnumið, virkja hagsmunaaðila til samstarfs og greina helstu málefni, bæði þau sem fela í sér tækifæri og áhættu.

Hagsmunaaðilar voru skilgreindir og virkjaðir með því að kalla saman fulltrúa þeirra í sérstakan samráðshóp vorið 2004. Við val á fulltrúum í samráðshóp reyndu fyrirtækin að leita eftir jafnvægi í viðhorfum (t.d. til umhverfisþátta, félagslegra þátta og efnahagslegra þátta); ná landfræðilegri dreifingu (fá fulltrúa bæði frá Austurlandi og annars staðar frá); fá fulltrúa frá aðilum sem studdu framkvæmdir og voru þeim mótfallnir; og að í hópnum væri blanda af fólki frá opinbera geiranum, frjálsum félagasamtökum, sveitarfélögum og úr atvinnulífinu. Hlutverk samráðshópsins var að taka þátt í þróun sjálfbærnivísa og mælikvarða til að mæla áhrif starfsemi fyrirtækjanna á Austurlandi.

Haldnir voru tveir fundir með samráðshópnum þar sem áhersla var lögð á að greina helstu málefni og ræða um vísa og mælikvarða. Áfanganum lauk síðla árs 2004.

Áfangi 2:  Vísar og grunnástand

Þessi áfangi fól í sér þróun tölulegra vísa og mælikvarða og mat á því hvernig virkjun og álver gætu haft áhrif á þessa vísa. Tiltækum upplýsingum um grunnástand var safnað saman og nýrra gagna aflað. Þátttakendur í samráðshópi fengu drög að skýrslu um efnið til umsagnar og haldinn var þriðji fundur hópsins þar sem efni hennar var yfirfarið. Við kynningu verkefnisins var gert ráð fyrir að hér skyldi vinnu samráðshópsins lokið. Það væri hlutverk fyrirtækjanna sjálfra að setja markmið og vinna framkvæmdaáætlun. Á síðasta fundi hópsins kom fram hjá fundarmönnum ósk um áframhaldandi þátttöku í verkefninu og ráðgjöf við setningu markmiða. Öðrum áfanga lauk vorið 2005 með útgáfu á skýrslunni Áfangaskýrsla I/II: Vísar og grunnástand.

Áfangi 3:  Framkvæmdaáætlun

Í þessum áfanga var hlutverk þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmd einstakra verkþátta skilgreint. Í sumum tilvikum þurfti að samræma áætlunina við vinnu utanaðkomandi aðila. Þá voru einnig sett töluleg markmið eða viðmið fyrir hvern vísi, ákveðið með hvaða hætti ætti að standa að vöktun og hvernig framkvæmdaáætlun yrði útbúin. Fjórði fundur samráðshópsins var haldinn en tilgangur hans var að rýna drög að markmiðum og framkvæmdaáætlun. Þessum áfanga lauk í febrúar 2006 með útgáfu skýrslu, Áfangaskýrslu III: Framkvæmdaáætlun.

Vinna við framkvæmdaáætlun fól í sér eftirfarandi þætti:

  • Að skilgreina hlutverk og ábyrgð einstakra aðila varðandi framkvæmd verkefnis.
  • Að ræða við þá aðila sem gætu gefið upplýsingar um þá vísa þar sem áhrif framkvæmda eru óbein eða afleidd.
  • Að setja markmið og skipuleggja vöktun (í samráði við samráðshópinn og þá sérfræðinga sem við á hverju sinni).
  • Að undirbúa heildstæða framkvæmdaáætlun.

Áfangi 4:  Framkvæmd

Í upphafi 4. áfanga var vöktunarkerfi komið á og byrjað að skrá upplýsingar um mælingar. Þá var unnið að frekari öflun upplýsinga um grunnástand. Vísar og mælikvarðar voru rýndir og í sumum tilfellum höfðu forsendur breyst eða mælikvarði reynst ónothæfur. Í nokkrum tilvikum var því nauðsynlegt að fella niður, breyta eða bæta við vísi eða mælikvarða. Allar upplýsingar um breytingar á mælikvörðum og vísum má sjá hér á vefnum. Vefurinn www.sjalfbaerni.is er hluti af 4. áfanga.

Vöktun hófst formlega með fundi þátttakenda í Végarði 18. október 2007.