Fara í efni

Vísar og mælingar

Þessi vefur, Sjálfbærni.is, birtir upplýsingar um alla vísa og mælikvarða Sjálfbærniverkefnisins og uppfærslur þeirra jafnóðum og þær eru gerðar. Flestir vísar eru uppfærðir árlega en sumir sjaldnar t.d. þeir vísar sem mæla hægfara breytingar. Hver vísir á sína síðu á vefnum þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum vöktunar, vöktunaráætlun, grunnástandi vísis og forsendum fyrir vali á vísi. Einnig eru tilvísanir í ítarefni á síðum margra vísa.

Það er misjafnt hvaðan gögn fyrir einstaka vísa koma. Ýmsar opinberar tölur koma frá Hagstofunni, úr Árbókum sveitarfélaga eða öðrum opinberum gagnasöfnum. Öðrum gögnum er safnað frá fyrirtækjunum sjálfum t.d. gögnum um fjármál og starfsmannahald fyrirtækjanna.

Hver vísir á sér ábyrgðarmann þannig að ákveðinn einstaklingur innan fyrirtækjanna eða utan, oftast sérfræðingur á viðkomandi sviði, ber ábyrgð á að útvega starfsmönnum Sjálfbærniverkefnisins nýjustu upplýsingar fyrir viðkomandi vísi. Gögnin eru síðan birt á vef verkefnisins og ber ábyrgðarmanni þá að ganga úr skugga um að þau séu rétt fram sett þar. Á vefsíðu hvers vísis er hægt að sjá hvaða heimildir liggja til grundvallar þeim gögnum sem þar birtast.

Hvað er vísir?

Vísir, á ensku "indicator", er einhverskonar mælikvarði eða gildi sem segir til um þróun eða breytingar. Vísir er notaður til að miðla upplýsingum um þróun á skýran og einfaldan hátt.

  • Vísir er skilgreind stærð sem notuð er til þess að vakta breytingar yfir ákveðið tímabil. Til dæmis gæti vísir sagt til um breytingar á fólksfjölda á ákveðnu svæði yfir ákveðið tímabil.
  • Vísir hjálpar til við að gera flókið ferli sem erfitt er að greina sýnilegra og skiljanlegra.
  • Vísir þarf að vera byggður á vísindalegum grunni og næmur fyrir breytingum.
  • Vísir segir ekki til um hvort þróun í ákveðna átt sé góð eða slæm, rétt eða röng, heldur segir hann til um hverjar breytingarnar eru.
  • Góður vísir getur gefið vísbendingu um að vandamál sé til staðar áður en það verður óviðráðanlegt og getur hjálpað til við greiningu og úrlausn vandamálsins.