Fara í efni

Forsagan

Þann 15. mars 2003 skrifuðu ríkisstjórn Íslands, Landsvirkjun, Alcoa og sveitarfélagið Fjarðabyggð undir samning um að Landsvirkjun reisti Kárahnjúkavirkjun og Alcoa byggði og ræki álver Fjarðaáls í Reyðarfirði. Þetta gerðist að undangengnu ferli sem endaði með lagasetningu á Alþingi þann 5. mars 2003. Lögin veittu hlutaðeigandi aðilum heimild til þess að ganga frá samningum vegna verkefnisins.

Framkvæmdir við virkjun, álver og flutningslínur voru á þeim tíma samanlagt stærstu framkvæmdir sem ráðist hafði verið í á Íslandi og hlutu því mikla athygli. Í niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum var bent á jákvæð áhrif á samfélag og efnahag. Áhrif framkvæmdanna á umhverfið voru dregin fram og bent á hvernig hægt væri að draga úr neikvæðum áhrifum með mótvægisaðgerðum. Alcoa gaf út opinbera yfirlýsingu þess efnis að Fjarðaál yrði hannað þannig að mengun frá álverinu yrði með því minnsta sem þekktist í heiminum. Landsvirkjun hafði þá stefnu að hanna virkjun sem stæðist allan alþjóðlegan samanburð og hefði sem minnst áhrif á umhverfið. Þegar fjallað er um „framkvæmdirnar“ í Sjálfbærniverkefninu er átt við framkvæmdir tengdar virkjun við Kárahnjúka og álver í Reyðarfirði.

Þótt öll formleg leyfi fengjust fyrir framkvæmdum höfðu margir áhyggjur af áhrifum þeirra á umhverfi, efnahag og ýmsa félagslega þætti. Auk skuldbindingar fyrirtækjanna um að lágmarka áhrif framkvæmdanna á umhverfið, vildu þau stuðla að því að efnahagslegur og félagslegur ávinningur fyrir Austurland yrði sem mestur. Fyrirtækin tóku höndum saman í Sjálfbærniverkefninu til að auðvelda sér að standa við þær skuldbindingar.

Hvorugt fyrirtækjanna hafði forskrift að því hvernig staðið skyldi að verkefninu og kom í ljós að verkefnið var í raun frumkvöðlastarf, ekki bara hér á landi heldur einnig á heimsvísu. Ekki var þekkt að slík verkefni hafi farið af stað við upphaf framkvæmda. Til að móta verkefnið var myndaður samráðshópur fulltrúa ýmissa hópa úr samfélaginu, bæði þeirra sem voru fylgjandi framkvæmdunum og á móti þeim.

Nokkrar vörður

 • 2004
 • Fyrsti fundur samráðshóps í júní
 • Annar fundur samráðshóps um mánaðamót ágúst/september
 • þriðji fundur samráðshóps í október
 • vefur samráðshóps opnaður
 • 2006
 • Nýr vefur verkefnisins opnaði í október
 • 2007
 • Upphafsfundur 4. áfanga í Végarði 18. október.  Fulltrúar fyrirtækjanna í verkefninu hittust ásamt Ívari Jónssyni hjá Þekkingarsetri Austurlands, sem tók við rekstri verkefnisins
 • 2008
 • Endurmat unnið í júní.
 • Þekkingarnet Þingeyinga tók að sér verkefnisstjórn um haustið
 • 2010
 • Nýr vefur opnaður í mars
 • Stýrihópur stofnaður í apríl
 • Fjórði fundur samráðshóps í júní
 • 2011
 • Fyrsti ársfundur verkefnisins haldinn í Safnahúsinu í Neskaupstað 13. maí
 • 2012
 • Rýni Dr. Harðar Haraldssonar á verkefninu
 • 2013
 • Austurbrú tók við verkefnisstjórn í ársbyrjun
 • 2017
 • Úttekt Félagsvísindastofnunar HÍ á samfélagsvísum og verklagi verkefnisins
 • 2020
 • Nýr vefur verkefnisins opnaður í apríl.