Fara í efni

Framvinda

Í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar kemur fram að mikilvægt sé að koma á vöktunarkerfi með öllum jaðri Hálslóns enda megi búast við því að talsvert rof muni eiga sér stað fyrstu árin/áratugina eftir myndun þess með tilheyrandi hættu á myndun áfoksgeira inná gróin svæði. Í samræmi við þetta hefur Landsvirkjun fylgst með framvindu rofs við Hálslón með margvíslegum hætti. Strandsvæði hafa verið gengin og rof við efsta lónborð athugað, loftmyndir hafa verið teknar með reglubundnum hætti og strandsvæðin kortlögð þar sem m.a. fram koma rofsvæði og jarðefni lónstrandar. Þá hefur ströndin verið landmæld nákvæmlega í nokkrum sniðum sem hjálpar til við að fylgjast með langtímaþróun strandarinnar. Samhliða þessu hefur verið fylgst með áfoki/myndun áfoksgeira ofan við strandsvæðin. Auk þess að fylgjast náið með framvindu strandsvæða hafa verið settar upp rof- og áfoksvarnir (sjá myndir hér að ofan) og gróður styrktur austan við Hálslón til þess að hann verði betur í stakk búinn að taka við áfoki. Þá hefur verið þróuð aðferð til þess að hreinsa sand af grónu landi. Árið 2014 var Landgræðsla ríkisins fengin til þess að gera úttekt á áfoki við Hálslón og um leið hanna sérstakt úttektarkerfi fyrir vöktun áfoks til lengri tíma. Samhliða því voru settar upp þrjár mælistöðvar í Kringilsárrana til að fylgjast með og mæla áfok. Nánari upplýsingar um mótvægisaðgerðir og athuganir við Hálslón má sjá í skýrslum í ítarefni.

Aðgerðir og niðurstöður skoðunar 2022:

Úttekt á áfoki sumarið 2022 var unnin 4.-6. júlí. Í Kringilsárrana var gengið með strandlengjunni, öll foksvæði skoðuð og útbreiðsla þeirra mæld með því að ganga með GPS tæki (nákvæmni ± 2-5 m) meðfram jaðri þeirra. Samhliða voru ljósmyndir teknar af flestum mælireitum og endurmælingar gerðar í völdum reitum.

Við austurstönd Hálslóns var útbreiðsla allra foksvæða GPS mæld á sama hátt og í Kringilsárrana og ljósmyndir teknar af flestum föstum mælireitum. Auk þess voru valdir mælireitir þar sem áfok hefur mælst nokkrum sinnum endurmældir.

Úttektin sumarið 2022 sýndi lítið sem ekkert nýtt áfok og að heildar útbreiðsla áfokssvæða hafði minnkað úr 6,8 ha 2021 í um 3,7 ha 2022.

Við austurströnd Hálslóns hafði lítið sem ekkert nýtt áfoksefni borist inn á svæðin og virku áfokssvæðin minnkað, þ.e. úr 0,7 ha 2021 í 0,5 ha 2022 á Lindabungu og á Kofaöldu úr 4,0 ha 2020 í 1,5 ha 2022. Í Kringilsárrana minnkar útbreiðsla áfokssvæða úr 2,1 ha sumarið 2021 í 1,1 ha 2022.

Allar trégirðingar í Kringilsárrana voru teknar niður sumarið 2022 þar sem endingartími þeirra er liðinn og auk þess sem þær hafa skapað hættu fyrir hreindýr. Ekki er talin þörf á að setja nýjar girðingar upp í stað þeirra sem teknar voru niður.

Mynd 1. Hálslón og nágrenni. Svarta línan sýnir svæðið sem vöktunin nær til og gula línan þau svæði á strandlengjunni sem mælingar á áfoki ná til. Bláir krossar sýna staðsetningu sjálfvirkra mælitækja sem mæla áfok.

Mynd 1. Hálslón og nágrenni. Svarta línan sýnir svæðið sem vöktunin nær til og gula línan þau svæði á strandlengjunni sem mælingar á áfoki ná til. 

Uppfært: 31. mars 2023
Heimild: Landsvirkjun (2023)

Vöktunaráætlun og markmið

Hvað er mælt?

Strandsvæði Hálslóns að vori og að hausti. Svæði þar sem sandur hefur borist upp af strandsvæðum eru skrásett, stærð þeirra metin/mæld og einnig þykkt sands (áhrif framkvæmda: bein).

Áætlun um vöktun

Sjónræn vöktun fer fram og hefst gagnasöfnun eftir að lónið hefur verið fyllt. Reglulegar heimsóknir á svæðið eftir slæm veður.

Markmið

Engir áfoksgeirar austan lónsins

Mögulegar viðbragðsaðgerðir

Landsvirkjun stendur fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir áfok.

Uppfært: 16. júní 2015

Breytingar á vísi

Á ársfundi verkefnisins 6. maí 2015 var eftirfarandi breyting samþykkt:

Tafla 1. Breytingar á vísi samþykktar á ársfundi 2015
Texti fyrir breytingu Texti eftir breytingu
Rúmmál áfoksgeira sem berast upp fyrir austurströnd lónsins. Strandsvæði Hálslóns að vori og að hausti. Svæði þar sem sandur hefur borist upp af strandsvæðum eru skrásett, stærð þeirra metin/mæld og einnig þykkt sands.

Rökstuðningur breytinga:

Í vöktunaráæltun segir að ætlunin sé að mæla rúmmál áfoksgeira sem berast upp fyrir austurströnd lónsins. það er tæknilega erfitt og ekki raunhæft að mæla rúmmál en frekar er hægt að mæla flatarmál. Einnig er í vöktunaráætlun einungis talað um austurströnd lónsins en mælingar eru einnig gerðar í Kringilsárrana og eðlilegt að það komi fram í vöktunaráætlun.


Þessi vísir var upphaflega númer 26.2 . Þá hét hann Áfok við Hálslón og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.

Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.

Tafla 2. Breytingar á númeri og nafni vísis.
Ár Nr. Nafn vísis
2020 2.2.4 Áfok við Hálslón
2007 2.29 Áfok við Hálslón

Grunnástand

Mynd 2. Staða lónsins í meðalári í byrjun júní

Á meðfylgjandi korti er sýnd staða lónsins í meðalári í byrjun júní. Vatnsstaðan er þá 580 m y.s. eða 45 metra undir hæsta vatnsborði. Þá 

eru um 16 km2 af lónbotni ofan vatnsborðs austan lónsins. Hægra megin á kortinu er sýnd staða lónsins í meðalári í byrjun ágúst. Vatnsstaðan er þá 615 m y.s. eða 10 metra undir hæsta vatnsborði. Þá eru um 4 km2 af lónbotni ofan vatnsborðs austan lónsins og stutt í að hættan sé liðin hjá. Jarðvegsþykkt hefur verið áætluð tveir til tveir og hálfur metri að meðaltali austan lónsins. Svæðið verður flokkað eftir landhalla og reynt að meta fyrirfram hvar hætta á myndun áfoksgeira er mest.

Rannsóknir standa yfir á þoli gróðurþekjunnar að austanverðu gagnvart áfoki og á því hvernig brugðist skuli við hugsanlegu áfoki jarðefna.

Forsendur fyrir vali á vísi

Hluti af strandsvæðum Hálslóns eða um 15 km2 er hulinn jarðvegi sem er að meðaltali 2,5 m þykkur. Jarðvegurinn er hulinn þunnri gróðurþekju. Þessi gjóskuríki jarðvegur getur bæði skolast ofan í lónið með ölduróti og vatnsrofi, en einnig fokið upp á nærliggjandi svæði og valdið þykknun jarðvegs og jafnvel gróðureyðingu.

Öldurof fjarlægir með tímanum jarðveg af strandsvæðum Hálslóns. Öldurof á jarðvegi gengur mishratt. Það er hraðast þar sem landi hallar mikið en mun hægar á hallalitlu landi. Á mjög hallalitlu landi þar sem öldurofs gætir lítið getur farið svo að gróðurþekja hverfi en eftir sitji moldarlag. Í brattara landi geta myndast rofstallar í jarðveginum áður en öldurrof nær að fjarlægja jarðveginn. Af þessu leiðir að fyrstu einn til tvo áratugina eftir að rekstur Hálslóns hefst verður til staðar mold á yfirborði á strandsvæðum Hálslóns.

Í sunnan og suðvestan hvassviðrum getur þurr mold á strandsvæðum fokið upp og grófkornóttasti hluti hennar fokið með jörðu upp úr strandsvæðunum og inn á gróðurlendi ofan lónborðs. Þetta efni getur myndar áfoksgeira ofan lónborðs Á votlendum svæðum er þessi hætta hins vegar takmörkuð. Hætta á myndun áfoksgeira á gróðurlendi er einkum til staðar við austurströnd lónsins. Á vesturströnd lónsins berst foksandur úr strandsvæðum einkum út á út á lónið í hvössum sunnan og suðvestanáttum og myndar því ekki áfoksgeira.

Á meðan rofgjarn jarðvegur er fyrir hendi eru margvíslegar aðgerðir fyrirhugaðar til að fyrirbyggja það að áfok geti borist út yfir gróðurlendið á Vesturöræfum og valdið þar skaða. Gerðar hafa verið sandgildrur meðfram gróðurlendi við austurströnd lónsins. Þá er stefnt að því að halda jarðvegi í skefjum með vökvun og rykbindingu og reisa sandgirðingar. Jafnframt eru í athugun aðgerðir til að styrkja gróður austan lónsins.


Upprunalegar forsendur fyrir vali á vísi

Á því landssvæði sem fer undir vatn með tilkomu Hálslóns er víðast nokkuð þykkur gjóskuríkur jarðvegur undir gróðurþekjunni. Á strandsvæðum Hálslóns eyðist gróðurþekjan smám saman með tilkomu lónsins og þá verður jarðvegurinn óvarinn fyrir öldurofi og vindrofi. Þessi gjóskuríki jarðvegur getur bæði skolast ofan í lónið með ölduróti og vatnsrofi, en einnig fokið upp á nærliggjandi svæði og valdið þykknun jarðvegs og jafnvel gróðureyðingu. Smæstu kornin þyrlast upp og geta borist langar leiðir, af því er fyrst og fremst ami en ekki tjón á gróðurlendi. Mest er hættan af stærri kornum, fínsandi og sandi, sem berast áfram með jörðinni í áfoksgeirum og geta kæft gróðurinn næst lóninu.

Algengasta vindátt í hvössum veðrum við Hálslón er suðsuðvestlæg. Áfok vestan lónsins mun þá berast ofan í lónið en áfok austan lónsins getur borist út yfir gróðurlendið á Vesturöræfum næst lóninu ef ekkert er að gert. Þessi hætta er fyrir hendi fyrri hluta sumars, eða frá því að jörð hefur þornað eftir vorleysingar og þar til lónið fyllist. Á mýrlendum svæðum, þar sem jarðvegurinn helst blautur af völdum grunnvatns er þessi hætta hins vegar takmörkuð.

Hluti þessa rofgjarna jarðvegs mun smám saman skolast niður í lónið, og það gerist fyrst þar sem land er brattara en u.þ.b. 7%. Jafnframt er fyrirhugað að fjarlægja jarðveginn af flatari svæðum með dælingu niður í dýpsta hluta lónsins. Gert er ráð fyrir að rofgjarn jarðvegur hafi horfið að austurströnd Hálslóns, annað hvort með öldurofi eða dælingu, um 10 til 15 árum eftir að virkjunin tekur til starfa. Á meðan rofgjarn jarðvegur er fyrir hendi eru margvíslegar aðgerðir fyrirhugaðar til að fyrirbyggja það að áfok geti borist út yfir gróðurlendið á Vesturöræfum og valdið þar skaða. Sem dæmi má nefna varnargarða, sandgildrur, fokgirðingar og grjótvarnir í strandrofsbökkum. Jafnframt eru í athugun aðgerðir til að styrkja gróður austan lónsins og til að gera við gróðurskemmdir ef til þeirra kemur.

Úr áfangaskýrslu um vísa og grunnástand frá apríl 2005

Ítarefni

LV-2022/043 - Vöktun á áfoki og viðhald fokgirðinga við strönd Hálslóns.

LV-2022/043 - Vöktun á áfoki og viðhald fokgirðinga við strönd Hálslóns.

2022

Landgræðslan hefur séð um vöktun og mælingar á áfoki í norðurhluta Kringilsárrana og við austurströnd Hálslóns frá árinu 2014. Landgræðslan hefur einnig haft umsjón með fokgirðingum við Hálslón allt frá því að fyrstu girðingarnar voru settar upp á árunum 2008 og 2009. Farið var í vettvangsferð á svæðið dagana 4.-6. júlí þar sem útbreiðsla áfoks var mæld og valdir mælireitir ljósmyndaðir og gerðar þykktarmælingar á áfoki. Niðurstöður sýndu lítið sem ekkert nýtt áfok og að heildar útbreiðsla áfokssvæða hafði minnkað úr 6,8 ha 2021 í um 3,7 ha 2022. Allar
fokgirðingar úr trérimlum sem eftir voru í Kringilsárrana voru fjarlægðar þar sem þær voru farnar að brotna og skapa hættu fyrir hreindýr, en aðrar fokgirðingar bæði nyrst í Kringilsárrana og við austurströnd Hálslóns voru yfirfarnar. Til stóð að fjarlægja einnig fokgirðingar norðan Kringilsár en ekki vannst tími til þess í vettvangsferð sumarsins.

Hægt er að skoða meira ítarefni sem snýr að vísinum með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan.