Fara í efni

Húsnæðismál á Austurlandi

Til baka í yfirlit
Ársfundur sjálfbærniverkefnis Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar 2022. Þema fundarins var Húsnæðismál…
Ársfundur sjálfbærniverkefnis Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar 2022. Þema fundarins var Húsnæðismál á Austurlandi

Ársfundur Sjálfbærniverkefnisins var haldinn í Valaskjálf, Egilsstöðum miðvikudaginn 27. apríl og var þema fundarins Húsnæðismál á Austurlandi. Fundarstjóri á fundinum var Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Einar Már Sigurðarson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, flutti upphafsávarp og setti fundinn.


Fyrst tók til máls Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum Iðnaðarins.

Jóhanna fór yfir stöðuna á Austurlandi og benti á að meðal fermetraverð á Austurlandi er enn undir meðal byggingarkostnaði á fermetra og er það áhyggjuefni varðandi það að geta selt nýbyggingar.

 


Á eftir Jóhönnu tók Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, til máls.

Hann vakti athygli á þeim miklu sveiflum í fasteignaverði milli byggðakjarna á Austurlandi, en verðið hefur hækkað töluvert. Gríðarleg eftirspurn er ástæða þess hvernig húsnæðismarkaðurinn er núna eins og hann er.

 


Sigurður Magnússon, löggildur fasteignasali hjá INNI fasteignasölu, flutti næsta erindi.

Siguður fór aðeins yfir stöðuna á Austurlandi og benti á að á síðustu 4 árum hefur framboð á fasteignum á Austurlandi hrunið úr því að vera um 50 eignir á hverjum tíma niður í 0-10. Góðar fasteignir fara mjög hratt, og sem dæmi tók hann um eign sem hækkaði um 20% á 5 mánuðum.

 


Hafliði Hörður Hafliðason framkvæmdastjóri hjá Héraðsverki flutti fyrsta erindi eftir hádegisverð.

Hann fjallaði um mikilvægi þess að mynda einhverja framtíðarsýn varðandi íbúðarhúsnæði. Hvernig viljum við sjá byggðina vaxa? Hann benti sérstaklega á mikilvægi þess að heyra hvaða sýn ungafólkið hefur varðandi uppbyggingu og húsnæðismál.

 

 


Smári Kristinsson, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaál, fór yfir hvernig íbúðamál á Austurlandi snúa að fyrirtækinu.

Hann benti á að tölur frá þeim sýna að nýir starfsmenn búa í vaxandi mæli utan Austurlands. Hann benti á að fólk hefur hætt við að koma og ráða sig til vinnu hjá fyrirtækinu vegna þess að ekki finnst húsnæði. Staðan mun bara versna meðal annars vegna fyrirhugaðrar atvinnuppbyggingar á svæðinu.

 


Ólafur Arnar Jónsson, forstöðumaður Nærsamfélagsins og græns reksturs hjá Landsvirkjun, talaði um vinnu Landsvirkjunar í tengslum við samfélagsmál og stefnu fyrirtækisins varðandi það.

Stefnan gengur út á að Landsvirkjun vill vera góður granni, vera í uppbyggilegum samskiptum við samfélagið og stuðla þar að nýjum tækifærum í sínu umhverfi.

 


Að loknum erindum voru pallborðsumræður. Í pallborði sátu (f.v.) Eydís Ásbjörnsdóttir frá Fjarðabyggð, Hafliði Hörður Hafliðason frá Héraðsverki, Stefán Bogi Sveinsson frá Múlaþingi, Kári S. Friðriksson frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Jóhanna Klara Stefánsdóttir frá Samtökum iðnaðarins.

Spurningar og svör úr pallborði verða gerðar aðgengilegar á heimasíðu verkefnisins á næstu dögum ásamt upptökum og glærum af erindum.

Nokkrar svipmyndir af fundinum