Fara í efni

Fréttir

Ársfundi frestað

Í ljósi aðstæðna vegna Covid-19 og hertra sóttvarnaaðgerða hefur stýrihópur Sjálfbærniverkefnisins ákveðið að fresta ársfundi, sem fyrirhugaður var 27. apríl, til hausts. Nánari tímasetning verður auglýst síðar.

Sjálfbærniverkefninu haldið áfram

Landsvirkjun, Alcoa Fjarðaál og Austurbrú hafa samið um að Austurbrú sjái um áframhaldandi ráðgjafaþjónustu, viðhald og þróun Sjálfbærniverkefnisins næstu fjögur árin eða út árið 2024.

Sjálfbærniverkefnið var stofnað af Alcoa Fjarðaáli og Landsvirkjun árið 2004 til að vakta áhrif framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álversins í Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi.

Hlutverk Austurbrúar er, samkvæmt endurnýjuðum samningi, að vinna með stýrihópi verkefnisins að hvers konar kynningu þess, gagnaöflun, úrvinnslu gagna, undirbúningi funda, skipulagningu ásamt viðhaldi og rekstri á vef verkefnisins sem og önnur tilfallandi verkefni sem stýrihópur felur ráðgjafa að vinna.

Ný heimasíða verkefnisins

Á árinu 2020 var farið í þá miklu vinnu að uppfæra vef verkefnisins. Til að byrja með var flokkun vísa stokkuð upp og uppröðun þeirra breytt með það að markmiði að gera skipulag á síðunni markvissara og auðvelda notendum að finna upplýsingar á henni. Þann 29. maí fór nýi vefurinn í loftið á slóðinni https://www.sjalfbaerni.is. Í desember fór svo enski hluti síðunnar í loftið á slóðinni https://www.sustainability.is. Með tilkomu nýrrar síðu er endurspegluð sú þróun sem hefur orðið í upplýsingatækni og framsetningu efnis á síðustu árum.

Grunnur að rannsóknum

Í upphafi skilgreindi samráðshópur, skipaður fulltrúum samfélagsins, hvaða málefni væru mikilvægust út frá áhyggjum og væntingum fólks í tengslum við framkvæmdirnar og mótaði út frá því tillögur að vísum. Vísarnir eru 63 og mælikvarðarnir 78 og eru þeir flokkaðir í samfélagsvísa, umhverfisvísa, efnahagsvísa og fyrirtækjavísa. Mælingar á þessum vísum hafa nú staðið yfir í 14 ár.

Upplýsingasafn Sjálfbærniverkefnisins fer vaxandi ár frá ári og notagildi þess eykst jafnt og þétt. Margvísleg tækifæri til greininga og túlkunar liggja í gagnasafninu. Auk þess að varpa ljósi á þróun mála á Austurlandi gætu niðurstöður nýst á ýmsan hátt, t.d. til greininga og rannsókna á samfélagsþróun, við þróun hugmynda og verklags verkefna sem lúta að samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og margt fleira.

Notagildi fyrir samtímann

Alcoa Fjarðaál og Landsvirkjun hafa fullan hug á að halda Sjálfbærniverkefninu áfram á komandi árum og er það metnaðarmál allra sem að því koma að haldið sé tryggð við þau grundvallarsjónarmið sem verkefnið var byggt á í upphafi og jafnframt að það þróist og hafi notagildi fyrir samtímann hverju sinni.

Austurbrú hefur haft umsjón með verkefninu frá 2013 og er það aðgengilegt öllum á nýjum vef þess www.sjalfbaerni.is.

Búið að virkja Sustainability.is

Í lok desember var lögð lokahönd á uppfærslu á nýrri síðu og er núna búið að loka á eldri útgáfu af síðunni. Enska hluta síðunnar má nálgast með því að fara inn á https://www.sustainability.is eða smella á EN hlekkinn efst í hægra horninu á þessari síðu.

Búið að uppfæra enska hluta síðunnar

Þann 27.11.2020 var lokið við síðasta skrefið í því að færa gögn af gömlu síðu yfir á nýja síðu Sjálfbærniverkefnisins. Á næstu vikum verður unnið að því að lagfæra og fínpússa efni.

Fundargerðir stýrihóps komnar inn í skýrslugrunn

Nýjustu fundargerðir stýrihóps hafa nú verið settar inn á vefinn. Nálgast má allar fundargerðir á hlekknum https://www.sjalfbaerni.is/is/skyrslur/fundargerdir 

Vefsíðan komin í loftið

Þann 29. maí 2020 var ný og endurbætt vefsíða Sjálfbærniverkefnisins sett í loftið. Í leiðinni voru vísar endurflokkaðir til að bæta aðgengi að upplýsingum. Önnur nýjung á vefnum er að hægt er að skoða allar skýrslur verkefnisins á slóðinni: https://www.sjalfbaerni.is/is/skyrslur 

Ársfundi 2020 aflýst

Í ljósi sérstakra aðstæðna vegna COVID-19 heimsfaraldurs hefur verið ákveðið að aflýsa ársfundi 2020. Næsti ársfundur verður því haldinn vorið 2021.

Viðhorf samfélags til starfsemi Fjarðaáls og Landsvirkjunar

Búið er að uppfæra vísi Sjálfbærniverkefnisins sem snýr að viðhorfi samfélagsins til Fjarðaáls ... og Landsvirkjunar – vísir 1.19.

Fundur á Húsavík

Systurverkefni okkar, Gaumur.is - Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi, er unnið hjá ... Þekkingarneti Þingeyinga á Húsavík.

Rof í árbakka Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts

Nú er búið að uppfæra vísi Sjálfbærniverkefnisins sem snýr að rofi í árbakka Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts.