Fara í efni

Hver er staða Austurlands í grunnskólamálum?

Til baka í yfirlit
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir - vel heppnuð starfamessa á Egilsstöðum 2024
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir - vel heppnuð starfamessa á Egilsstöðum 2024

Grunnskólamenntun á Austurlandi

Frá upphafi Sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi hefur verið fylgst með tveimur lykilvísum í grunnskólum: frammistöðu nemenda í samræmdum prófum og hlutfalli starfsfólks við kennslu án kennsluréttinda. Þessir mælikvarðar varpa ljósi á stöðu nemenda og hlutfall ófaglærðs starfsfólks í kennslu í fjórðungnum.

Sjálfbærniverkefnið á Austurlandi sem var komið á af Landsvirkjun og Alcoa Fjarðaáli, hefur staðið yfir söfnun gagna yfir tæplega 20 ára tímabil, meðal annars um samræmd próf og starfsfólk við kennslu í grunnskólum. Þar er annars vegar fylgst með niðurstöðum samræmdra prófa í grunnskólum á Austurlandi borið saman við landsvísu, og hins vegar hlutfalli starfsfólk við kennslu án kennsluréttinda á Austurlandi samanborið við á landsvísu. Gögn eru frá Hagstofu Íslands.

Markmið vöktunar var að hlutfall starfsfólks við kennslu án réttinda á Austurlandi væri lægra eða jafnt og á landsvísu og að meðaleinkunnir í samræmdum prófum á Austurlandi væru hærri eða jafnháar meðaltali á landsvísu.

Í áfangaskýrslu Sjálfbærniverkefnisins frá 2005 segir meðal annars:
„Tilkoma nýrra og stórra fyrirtækja getur leitt til breytinga í skólum í nálægum byggðum. Fólksfjölgun á svæðinu bæði á byggingar- og rekstrartíma mun auka álag á grunnskóla sveitarfélaganna þar sem börnum mun fjölga. [...] Verkefni skólanna verður því að viðhalda gæðum skólastarfs fyrir sífellt stærri nemendahóp, sem hugsanlega mun einnig hafa fjölbreyttari menningarlegan bakgrunn en núverandi nemendur.“


*Í þessari samantekt er horft til frammistöðu í samræmdum prófum fram til 2021, PISA-námskannana, kynning á nýjum samræmdum prófum, Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar ásamt hlutfalli starfsfólks við kennslu án réttinda í grunnskólum á Austurlandi*


Frammistaða í samræmdum prófum

Gögn Sjálfbærniverkefnisins spanna tímabilið 2003–2023 (en samræmd próf voru lögð niður eftir árið 2020) og sýna þau eftirfarandi:

  • Austfirskir grunnskólanemendur hafa yfirleitt staðið örlítið undir landsmeðaltali, sérstaklega í 7. og 9. bekk (áður 10. bekk).
  • Í 4. bekk var árangur oft nær meðaltalinu.

  • Bendir þetta til þess að nemendur þurfi meiri stuðning þegar þau færast yfir á mið- og unglingastig?

  • Austurland var aðeins í 14,3% tilvika jafnt eða yfir landsmeðaltali í samræmdum prófum heilt yfir allt tímabil gagnasöfnunar.

PISA og alþjóðlegur samanburður

PISA er alþjóðleg könnun sem metur hvernig 15 ára nemendur nýta þekkingu sína í lesskilningi, stærðfræði og vísindum og hæfni til að beita henni í raunverulegum aðstæðum. Könnunin er framkvæmd á þriggja ára fresti og veitir mikilvæga innsýn í stöðu menntakerfa milli landa OECD.

Í alþjóðlegu PISA-könnununum hafa austfirskir nemendur sýnt sveiflukenndar niðurstöður:

  • 2009: Góð frammistaða, sérstaklega í lesskilningi og vísindum, yfir landsmeðaltali.

  • 2015: Hnignun í öllum greinum, í takt við landsmeðaltal sem fór einnig lækkandi.

  • 2018: Einkunnir á Austurlandi lækkuðu í öllum fögum og voru undir landsmeðaltali.

  • 2022: Gögn fyrir Austurland sameinuð Norðurlandi eystra og því ekki samanburðarhæf fyrri árum.

Þróunin gefur til kynna að frammistaða austfirskra nemenda hafi að mestu fylgt landsmeðaltali, en með tímabundnum jákvæðum og neikvæðum frávikum.


Nýtt námsmat og samræmd próf frá 2026

Eftir að samræmd próf voru lögð niður árið 2020 hófst vinna við að endurmóta samræmt námsmat segir frétt á heimasíðu stjórnarráði Íslands. Sú vinna er að mestu leyti lokið og munu ný og endurbætt samræmd próf byggja á rafrænum matstækjum sem eiga að nýtast bæði kennurum og nemendum.

Helstu markmið þeirra eru:

  • að færa námsmat nær kennurum og nemendum,

  • að draga fram fjölbreyttari mynd af stöðu hvers barns,

  • að gera kennurum kleift að bregðast fyrr við þegar nemendur dragast aftur úr.

Ný samræmd próf í lesskilningi og stærðfræði verða lögð fyrir í 4., 6. og 9. bekk vorið 2026. Þetta gefur tækifæri til að fá aftur samræmdar upplýsingar um stöðu nemenda á Austurlandi og bera saman stöðuna milli landshluta.


Íslenska æskulýðsrannsóknin

Í þessum hluta er stuðst við gögn úr Íslensku æskulýðsrannsókninni frá árinu 2023, sem er viðamikil könnun meðal grunnskólanemenda. Þar er spurt spurninga tengdum þátttöku og félagslegum tengslum, menntun, öryggi og vernd, heilsu og vellíðan, og lífsgæðum og félagslegri stöðu. Rannsóknin er framkvæmd árlega og veitir mikilvægar upplýsingar um velferð barna og unglinga á landsvísu. Gögnin má sjá bæði niður á landsvísu, landshluta og stærstu sveitarfélögin.

Með því að bera saman niðurstöður fyrir Austurland við landsmeðaltal má fá betri mynd af stöðu og áskorunum nemenda í fjórðungnum.

Gögn úr Íslensku æskulýðsrannsókninni sýna meðal annars eftirfarandi:

  • Kvíði: 17% eldri nemenda á Austurlandi upplifa kvíða (landsmeðaltal 19%).

  • Depurð: 22% eldri nemenda á Austurlandi (landsmeðaltal 24%).

  • Hávaði í kennslustundum: 37% yngri nemenda á Austurlandi upplifa hávaða í kennslustundum (36% á landsvísu).

  • Traust til starfsfólks: 39% eldri nemenda á Austurlandi upplifa að það sé einhver fullorðinn í skólanum sem sé gott að tala við (41% á landsvísu).

  • Vina- og félagsleg staða: 97–98% nemenda eiga einn eða fleiri góða vini (sambærilegt á landsvísu).

  • Góð heilsa: 83% austfirskra barna telja sig njóta góðrar heilsu (85% á landsvísu).

  • Þreyta: 35% nemenda upplifa þreytu í skólanum flesta eða næstum alla daga (38% á landsvísu).

Í heild má segja að nemendur á Austurlandi búi við sterk félagsleg tengsl og almennt góða heilsu. Hins vegar vekja áskoranir eins og takmarkað traust til starfsfólks og hátt hlutfall starfsfólks án kennsluréttinda áhyggjur um langtímaáhrif á gæði námsumhverfis.


Frá námsumhverfi að áskorunum í mönnun

Fyrri vísir um samræmd próf sýnir okkur hvernig nemendum grunnskóla á Austurlandi hefur gengið í slíkum mælingum. Næsti vísir í gögnunum snýr hins vegar að hlutfalli starfsfólks við kennslu án kennsluréttinda og gefur þannig mynd af stöðu mönnunar í skólunum og samanburð við landið allt.


Starfsfólk við kennslu án kennsluréttinda í grunnskólum

Hlutfall starfsfólks við kennslu án kennsluréttinda hefur verið ein af stærstu áskorunum í grunnskólum á Austurlandi undanfarna tvo áratugi. Frá 2003 hefur hlutfallið nær undantekningarlaust verið hærra en landsmeðaltal.

 

  • 2003: rúmlega 30% starfsfólks án kennsluréttinda.
  • 2011–2015: lækkaði í 10-11%, lægsta mæling tímabilsins.
  • Frá 2020: farið aftur yfir 30%, á meðan landsmeðaltal er 14–20%.
  • 2023: 34,5% á Austurlandi gegn 19% á landsvísu.

Markmið vísisins: að hlutfallið verði jafnt eða lægra en á landsvísu – hefur ekki náðst. Eins og þessi tölfræðigögn benda okkur á er hlutfall ófaglærðs starfsfólks í grunnskólum á Austurlandi hefur verið lágt og langt undir landsmeðaltali frá því að gagnasöfnun hófst.

--> Áhugavert er þó að sjá að á árunum 2011 – 2014, þegar hlutfall starfsfólks með kennsluréttindi var hæst, stóðu nemendur einnig best í samræmdum prófum miðað við landsmeðaltal.

Ekki er hægt að fullyrða um orsakasamband, en hefur fjöldi starfsfólks með kennaramenntun svona umtalsverð áhrif á námsárangur?

 


Hugleiðingar og reynsla úr skólastarfi á Austurlandi

Verkefnastjóri spjallaði við fyrrverandi skólastjóra grunnskóla á Austurlandi til að kynnast upplifun hans af stöðunni í ljósi niðurstaðna úr samræmdum prófum/PISA. Markmiðið var ekki að leita lausna heldur að fá fram sjónarmið hans um hvaða þættir gætu haft áhrif á þá þróun sem fram kemur í mælingunum.

Fyrrum skólastjóri bendir á að fagmenntun kennara í einstökum greinum geti verið breytileg, sérstaklega á mið- og unglingastigi þar sem umsjónarkennarar bekkja hafa oft færri kennslustundir með nemendum og fagkennsla sérgreina tekur við. Þar sé mikilvægt að kennarar hafi trausta þekkingu á viðfangsefnunum sem þeir kenna. Í minni skólum þurfi kennarar að geta kennt allt en hafi ekki endilega formlega menntun í viðkomandi kennslugrein.

Hann nefnir einnig að smærri skólar eigi oft erfitt með að sinna móðurmálskennslu fyrir börn af erlendum uppruna. Þau koma oft inn í skólana einungis með sitt móðurmál og því getur reynst mjög snúið fyrir kennara að koma til móts við þeirra þarfir. Þetta geti reynst áskorun fyrir kennara sem ekki hafa sérstaka fagmenntun á því sviði, og haft áhrif á börnin sjálf.

Skóli án aðgreiningar hefur einnig verið mjög krefjandi fyrir skólasamfélagið á Íslandi, segir fyrrum skólastjóri, ekki síst á svæðum eins og Austurlandi þar sem oft er erfitt að fá þjónustu sérfræðinga til að grípa inn í þegar á þarf að halda. Kennarar hafa því oft þurft að veita fötluðum börnum þjónustu samhliða kennslu.

Einnig hafi foreldrar stundum sterkar skoðanir á innihaldi og framkvæmd kennslu án þess að hafa faglega þekkingu á bak við þær hugmyndir. Það geti haft áhrif á umræðuna um skólastarf í samfélaginu og þannig einnig á störf kennara.

Ábm: Lilja Sif Magnúsdóttir