Fara í efni

Framvinda

Tími sem starfsmenn Fjarðaáls nota í samfélagsverkefni sem Alcoa Fjarðaál styrkir.

Starfsmenn Alcoa eru hvattir til þess að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi við samfélagsverkefni af ýmsu tagi. Alcoa hefur sett á laggirnar þrjú alþjóðleg verkefni sem hafa þann tilgang að liðsinna frjálsum félagasamtökum og þjónustustofnunum. Starfsmenn Alcoa um allan heim taka þátt í þessum verkefnum. Bravó, sem var eitt af þessum verkefnum, féll niður frá og með árinu 2016 og Alcoans in Motion frá og með árinu 2018.

Action er stytting á orðasambandinu „Alcoans Coming Together in Our Neighbourhood.” Þessi hugmynd byggir á því að einn starfsmaður sem vinnur með einhverjum félagasamtökum veit að samtökin sín þurfa að vinna ákveðið verkefni en þau hafa ekki nægan mannskap eða fjármagn til þess. Starfsmaðurinn ákveður í samræmi við nefnd um sjálfboðaliðastarf hvenær verkið skuli unnið og hvetur samstarfsmenn sína til þátttöku. Þá eru félagar í samtökunum líka hvattir til að mæta, ásamt fjölskyldum sínum.

Unnið er samfleytt í fjóra tíma. Ef tíu starfsmenn eða fleiri mæta á atburðinn, greiðir Alcoa 300.000 kr. beint til félagasamtakanna til að standa straum af t.d. hráefniskostnaði, málningu, og þannig háttar. Starfsmenn réðust í samtals 5 verkefni á árinu 2018 til styrktar átta félagasamtökum og öfluðu með því 2,1 milljón króna. 208 manns tóku þátt í verkefnum og þar af voru 84 starfsmenn Fjarðaáls.

Alcoans in Motion fólst í átaki starfsmanna sem tóku sig saman og hreyfðu sig, t.d. að ganga á fjall, synda eða hjóla ákveðna vegalengd, eða hvaðeina sem þeim datt í hug að gera til að hreyfa sig saman. Starfsmennirnir ákváðu hvaða góðgerðarfélag fengi styrkinn sem fylgdi verkefninu frá Alcoa, að upphæð 3.000 USD. Á árinu 2018 var farið að telja Alcoans in Motion með Action verkefnum og því er nú hætt að birta sérstakar tölur fyrir það.

Bravó: Action byggir á hópstarfi en Bravó á einstaklingsframlagi. Vinni starfsmaður Alcoa Fjarðaáls meira en 50 stundir á ári í sjálfboðavinnu fyrir sín félagasamtök getur hann sótt um Bravó-styrk í árslok frá Alcoa. Frá því Alcoa Fjarðaál tók til starfa hefur Alcoa greitt út 1.126 Bravó-styrki til félagasamtaka á Austurlandi og upphæðin nálgast 40 milljónir. Árið 2016 var ákveðið að beina frekar stykjum að hópverkefnum þannig að Bravó-styrkir féllu niður frá og með því ári.

Sjálfbærni.is

Mynd 1.  Fjöldi starfsmanna sem tóku þátt í Action, Bravo og Alcoans in motion verkefnum á árunum 2007 - 2020.  Ath að 2018-2019 var eingöngu um Action verkefni að ræða. Árið 2020 og 2021 voru engin Action verkefni vegna Covid heimsfaraldurs.

Árið 2016 var ákveðið að beina frekar styrkjum að hópverkefnum þannig að Bravó-styrkir féllu niður frá og með því ári og árið 2018 voru Alcoans in Motion verkefni sameinuð Action verkefnum.

Sjálfbærni.is

Mynd 2.   Hlutfall starfsfólks Alcoa Fjarðaáls sem tók þátt í Action, Bravo og Alcoans in motion verkefnum á árunum 2007 - 2020.  Ath! að árin 2018 - 2019 var eingöngum um Action-verkefni að ræða. Árið 2020 og 2021 voru engin Action verkefni vegna Covid heimsfaraldurs.

Fjöldi vinnustunda sem starfsmenn Alcoa Fjarðaáls lögðu til samfélagsins undir merkjum Bravo og Action er sýndur á Mynd 3. Tekið er fram að árin 2011 og 2012 mátti hver starfsmaður sækja um Bravó-styrk fyrir allt að 3 félög og því er tala Bravó-vinnustunda mun hærri þau ár.

Sjálfbærni.is

Mynd 3.  Fjöldi vinnustunda sem starfsmenn Alcoa Fjarðaáls lögðu fram í sjálfboðavinnu í gegnum samfélagsverkefni fyrirtækisins á árunum 2007 - 2020. Árið 2020 og 2021 voru engin Action verkefni vegna Covid heimsfaraldurs.

Sjálfboðavinna starfsmanna, með stuðningi Alcoa Fjarðaáls, byrjaði ekki að neinu marki fyrr en árið 2007 þar sem ekki þótti skynsamlegt að auka álag á starfsmönnum meðan á uppbyggingartíma álversins stæði. Talning á sjálfboðavinnu hófst því ekki fyrr en árið 2007.

Uppfært: 12. apríl 2022
Heimild: Alcoa Fjarðaál, 2022.

Vöktunaráætlun og markmið

Hvað er mælt?

Tími sem starfsmenn Alcoa Fjarðaáls nota í samfélagsverkefni sem fyrirtækið styrkir.

Áætlun um vöktun

Fylgst er með fjölda sjálfboðaliðaverkefna og upplýsingum safnað í lok hvers árs.

Markmið

60 prósent starfsmanna taki þátt í samfélagsverkefnum Alcoa (Action).

Mögulegar viðbragðsaðgerðir

Á ekki við. Einungis er um vöktun að ræða.

Breytingar á vísi

Þessi vísir var upphaflega númer 9.1. Þá hét hann Samfélagsleg virkni starfsfólks og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.

Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.

Tafla 1. Breytingar á númeri og nafni vísis.
Ár Nr. Nafn vísis
2020 4.2.3 Samfélagsleg virkni starfsfólks
2007 1.5 Samfélagsleg virkni starfsfólks

Grunnástand

Sjálfboðavinna starfsmanna, með stuðningi Alcoa Fjarðaáls, byrjaði ekki að neinu marki fyrr en árið 2007 þar sem ekki þótti skynsamlegt að auka álag á starfsmönnum meðan á uppbyggingartíma álversins stæði. Talning á sjálfboðavinnu hófst því ekki fyrr en árið 2007.

Tafla 2.   Þátttaka starfsmanna í sjálfboðaliðaverkefnum á árinu 2007.
  Action Bravo Samtals
Fjöldi starfsmanna sem tóku þátt 50 59 109
Hlutfall starfsfólks sem tók þátt 14% 16% 30%
Fjöldi vinnustunda í sjálfboðastarfi: 200 5.529 5.729

Forsendur fyrir vali á vísi

Íbúum á Austurlandi mun fjölga umtalsvert í tengslum við framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar og Alcoa vegna starfa sem skapast beint eða óbeint vegna framkvæmda. Mikilvægt er að nýir íbúar samlagist samfélaginu sem best. Fjarðaál getur hjálpað til við þetta ferli með því að hvetja starfmenn sína til þátttöku í félagsstörfum.


Úr áfangaskýrslu um vísa og grunnástand frá apríl 2005