Fara í efni

1.1 Íbúar

Ýta hér fyrir niðurstöður úr vísi 1.1.2 Kynjahlutföll 

1.1.1 Íbúafjöldi

Náðist markmið: Já

Væntingar/Markmið

Aukinn íbúafjöldi á Austurlandi.

Sjálfbærni.is

Mynd 1. Á fimm ára tímabilinu áður en gagnasöfnun hófst varð fólksfækkun á Austurlandi, á sama tíma og íbúum landsins í heild fjölgaði.

Grafið sýnir þróun íbúafjölda á árunum 1998–2002, fimm árum áður en gagnaöflun í verkefninu hófst. Á þessu tímabili fækkaði íbúum á Austurlandi, þrátt fyrir að heildaríbúafjöldi á landsvísu væri vaxandi.

Framvinda og niðurstöður

Íbúafjöldi á öllu tímabilinu hefur aukist á Austurlandi en hægar en á landsvísu. Áberandi er aukningin 2006-2008 vegna byggingar Fjarðaáls en fjöldinn tekur dýfu eftir að framkvæmdum lýkur áður en hann færist hægt og rólega upp á við að nýju.

Mynd 2: Heildarmannfjöldi á Austurlandi sem hlutfall af heildarmannfjölda á Íslandi. Áberandi er að hlutfall Austurlands af heildarmannfjölda Íslands fer lækkandi með

Fjöldi íbúa á Austurlandi hefur aukist úr 9.280 árið 2004 í 11.085 árið 2024, sem jafngildir um 17,3% aukningu. Mest jókst íbúafjöldi á árunum 2004 til 2007, samhliða framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og byggingu álversins á Reyðarfirði. Frá árinu 2007 hefur vöxturinn hins vegar verið hægari. Þó fjöldi íbúa hafi aukist, hefur hlutfall Austurlands af heildarmannfjölda landsins minnkað úr 3,25% árið 2004 í 2,8% árið 2024, sem sýnir ójafnvægi í þróun á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar.

Mynd 3. Íbúaþróun á Íslandi og Austurlandi (Múlaþing, Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur) frá árinu 1998 (Vísitala 1998 = 100)

Fjölgun eftir bæjarfélögum

Undanfarin 20 ár hefur íbúafjöldinn á Austurlandi þróast mest á miðsvæðinu, þ.e. íbúum hefur fjölgað á Egilsstöðum, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Nesskaupstað en fækkað á jöðrunum, að undarskildum Djúpavogi.

Þannig hefur fjölgað um 105% á Reyðarfirði, eða úr tæplega 700 íbúum í tæplega 1500. Eins hefur íbúum á Egilstöðum fjölgað mikið og eru í dag yfir 3.000 en voru rúmlega 1700 fyrir 20 árum. Staðir í nálægð við álverið hafa einnig stækkað en íbúum Eskifjarðar og Fáskrúðsfjarðar hefur fjölgað á 20 árum. Draga má þá ályktun að atvinnuuppbygging haldist í hendur við íbúaþróun og þrátt fyrir að vera á jaðri Austurlands, hefur íbúum fjölgað á Djúpavogi, en þar hefur orðið mikil uppbygging í laxeldi. Á Vopnafirði sem er á hinum jaðrinum hefur fækkað um næstum 100 manns, en þar hefur atvinnulífið staðið að mestu í stað síðustu 20 ár.

Hlutfallslega mest fækkun hefur verið í Mjóafirði, þar hefur íbúum fækkað um helming, úr 37 í 16, eða um rúmlega helming. Þar sem hópurinn er svo fámennur hefur hver íbúabreyting þó mikil áhrif á hlutfallið. Borgarfjörður eystri og Stöðvarfjörður hafa báðir verið skilgreindir sem brothættar byggðir og tekið þátt í samnefndu verkefni Byggðastofnunar. Þrátt fyrir að íbúum hafi fækkað á báðum stöðum á þessum 20 árum sem hér eru skoðuð, hægði á fækkun og hún snerist jafnvel við þegar verkefnin hófust á stöðunum.

Breyting á íbúafjölda 2004-2024

Bæjarfélag

2004

2024

Breyting

Reyðarfjörður

671

1374

105%

Egilsstaðir

1721

3084

79%

Fáskrúðsfjörður

650

772

19%

Eskifjörður

972

1093

12%

Djúpivogur

490

537

10%

Neskaupsstaður

1467

1524

4%

Borgarfjörður eystri

140

132

-6%

Seyðisfjörður

730

664

-9%

Vopnafjörður

735

650

-12%

Breiðdalsvík

 

260

202

-22%

Stöðvarfjörður

 

262

182

-31%

Fljótsdalur & 701 EGS

 

1318

840

-36%

Mjóifjörður

37

16

-57%



1.1.2 Kynja- og aldurssamsetning

Náðist markmið: Að hluta

Væntingar
Jafnvægi í kynja- og aldurssamsetningu á Austurlandi borið saman við aldursdreifingu á landsvísu með aðhvarfsstuðulinn (r²) = 1.0

Vöktun
Upplýsingar frá Hagstofunni greindar út frá aldurs- og kynjasamsetningu íbúa á Austurlandi. Upplýsingar einnig fengnar hjá Byggðastofnun eða starfsmanni falið að vinna þær upp úr gögnum frá Hagstofunni. Upplýsingum safnað á fimm ára fresti.

Mynd 4. Kynja- og aldurssamsetning íbúa á Austurlandi (Miðað er við sveitarfélagaskipan 1. janúar 2024; Múlaþing, Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur) og Íslandi 1. janúar 2003.

Mynd 5. Kynja- og aldurssamsetning íbúa á Austurlandi (Múlaþing, Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur) og Íslandi 1. janúar 2024.

Framvinda og niðurstöður

Íbúum á aldrinum 20 til 29 ára hefur fjölgað um rúmlega 200 einstaklinga, og íbúum 30 til 39 ára um tæplega 400 einstaklinga á þessum 20 árum. Þessi þróun gæti bent til þess að fleira ungt fólk kjósi að setjast að á Austurlandi eftir nám, stundi nám á Austurlandi eða fari beint út á vinnumarkaðinn. Einnig má áætla að hluti þessa fólks sé aðfluttur, fólk sem hafi flutt til svæðisins sérstaklega til að vinna á stórum vinnustöðum eins og Alcoa Fjarðaáli. Þessi þróun er jákvæð fyrir vinnumarkaðinn og efnahagslíf svæðisins, þegar aldurshópurinn sem er rétt að hefja sinn starfsferil er virkur á vinnumarkaðnum. Hins vegar eignast aldurshópurinn 20-29 ára hlutfallslega færri börn en fyrir 20 árum. Ástæður geta verið margvíslegar; en bent hefur verið á að frelsi frá staðalmyndum hefur á margan hátt aukist og val um barnlausan lífsstíl algengara. Einnig eru ytri ástæður taldar áhrifavaldur s.s. óhagstæður fasteignamarkaður. Þetta er í samræmi við þróun á landsvísu þar sem fæðingartíðni hefur lækkað á undanförnum árum.

Á Austurlandi hefur fækkað um 100 einstaklinga í aldurshópnum 10 til 19 ára og börn undir 10 ára eru aðeins 12 fleiri árið 2024 en voru árið 2004.

Í hópi einstaklinga á aldrinum 40-49 ára eru 60 færri einstaklingar en voru árið 2004. Ekki liggur fyrir skýring á því hvers vegna fækkar í þessum hópi en íbúar 50 til 59 ára eru tæplega 200 fleiri árið 2024 og veruleg fjölgun er í hópi eldra fólks og eldri borgara. Þessi aukning endurspeglar hærri lífaldur á landsvísu og betri heilsu eldri kynslóða en hún sýnir þó einnig vaxandi þörf á aukinni heilbrigðisþjónustu.

Samantekið sýna þessar breytingar á íbúasamsetningu á Austurlandi flókna þróun þar sem bæði jákvæðar breytingar og áskoranir eru til staðar. Fjölgun í yngri aldurshópum fullorðinna er jákvæð, en fækkun barna og mikil fjölgun eldra fólks kallar á endurskoðun á þjónustu og stefnumótun til að mæta breyttum þörfum samfélagsins.