Hvaða áhrif höfðu stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi á samfélagið og íbúaþróun?
Vorfundur Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna um atvinnuþróun var haldinn í blíðskaparveðri á Breiðdalsvík dagana 7.–8. maí. Í framhaldi fór fram ársfundur Byggðastofnunar á sama stað (sjá frétt af vef Byggðarstofnunar)
Á vorfundinum, sem var lokaður fundur, komu saman starfsmenn frá öllum landshlutum utan höfuðborgarsvæðisins, þau sinna atvinnuþróun og atvinnuráðgjöf á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga. Dagskráin samanstóð af erindum og vinnustofum fyrir starfsfólkið, ásamt vettvangsferð um svæðið.
Erindin fjölluðu um byggðaþróun út frá ýmsum sjónarhornum s.s. hlutverk menningar, brothættar byggðir og tilraunum til að hanna íslenska búsetuvísitölu.
Sjálfbærniverkefninu (Sjálfbærni.is) var boðið að taka þátt í vorfundinum og verkefnateymið valdi að segja frá því sem fram kemur í gögnum verkefnisins er varðar byggðaþróun og samfélagið (Sjá fréttir hér: Austfirðingum fjölgar, Íbúum fjölgar hratt á Egilsstöðum og Reyðarfirði, Breytt aldurssamsetning Austfirðinga, Innflytjendur og samfélagið).
Lilja Sif Magnúdsóttir verkefnastjóri sem leiðir verkefni Sjálfbærniverkefnisins hjá Austurbrú, flutti erindið og velti upp spurningunni: Hvaða áhrif höfðu stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi á samfélag og íbúaþróun svæðisins?
Samantekt úr erindi
Í erindinu kom fram að gögn Sjálfbærniverkefnisins sýna skýrt að stóriðjuframkvæmdir og tilheyrandi virkjunarframkvæmdir höfðu djúpstæð áhrif á samfélagsgerð Austurlands.
Gögnin veita mikilvægt sjónarhorn á hvernig slíkar framkvæmdir móta byggðaþróun og samfélagsmynd yfir langan tíma.
* Íbúafjölgun
Í kjölfar þess að Alcoa skrifar undir að Fjarðaál verði byggt eykst íbúafjöldinn á Austurlandi í fyrsta sinn í einhver ár. Þessi tæp 20 ár frá byggingu hefur orðið veruleg fjölgun íbúa á Austurlandi, sérstaklega á miðsvæðum í nágrenni við álverið. Gögnin sýna skýra breytingu á íbúafjölda frá upphafi framkvæmda til dagsins í dag.
* Efnahagsleg uppsveifla
Framkvæmdirnar höfðu jákvæð áhrif á tekjuþróun á svæðinu, hærra útsvar skilaði sér til sveitarfélaganna og bæði fjöldi starfa og fyrirtækja jókst á framkvæmdatímanum sem og eftir hann.
* Breytt byggðamynstur
Gögnin sýna að fjölgun íbúa og aukin starfsemi átti sér stað á svæðum nálægt Fjarðaáli, á meðan mörg dreifðari byggðarlög héldu áfram að missa frá sér íbúa. Þróunin var þó misjöfn eftir staðsetningu á Austurlandi, íbúum Reyðarfjarðar fjölgar til að mynda um 105% á síðustu 20 árum.
* Áhrif á fasteignir og vinnumarkað
Gögn benda til þess að fasteignamarkaðurinn hafi tekið við sér í bæði Fjarðabyggð og Múlaþingi eftir byggingu álvers, og fjölgun hafi orðið í launuðu vinnuafli, sem endurspeglast í atvinnuþátttöku og hærri meðallaunum á Austurlandi.
Gagnasafn sem segir sögu
Sjálfbærniverkefnið býður upp á fjölbreytta möguleika til að segja sögur með gögnunm. Með ítarlegum mælikvörðum má lýsa þróun Austurlands á síðustu 20 árum út frá samfélagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum þáttum.
Verkefnastjórinn hefur að markmiði að miðla þessum upplýsingum víðar í samfélaginu – innan stjórnsýslu, í stefnumótun og miðlum. Gagnasafnið býður upp á að tengja þróun Austurlands við víðari samfélagsumræðu um sjálfbærni, byggðamál og samfélagsbreytingar.
Sjálfbærniverkefnið og gögn þess hafa ýmsa möguleika til að segja sögur, lýsa þróun og draga fram mynd af því hvernig samfélag, efnahagur og umhverfi á Austurlandi hefur þróast síðastliðin 20 ár. Verkefnastjóri stefnir að því að kynna víðar í ýmsu samhengi það sem má miðla úr verkefninu og koma á framfæri niðurstöðum þess. Enda er að finna í gagnasafni verkefnisins, gögn sem lýsa þróun Austurlands og setja má í samhengi við fjölbreytt mál og áhrifaþætti bæði félagslega og umhverfislega.