Stjórna konur Austurlandi?
Kynjahlutfall í vinnuafli á Austurlandi hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og gefur mikilvæga innsýn í þróun atvinnulífsins á svæðinu. Ný gögn sýna að konur eru í auknum mæli að hasla sér völl í ábyrgðarstörfum – sérstaklega í stjórnunarstöðum sveitarfélaga og stofnana.
Sjálfbærniverkefninið á Austurlandi sem var komið á af Landsvirkjun og Alcoa hefur staðið yfir söfnun gagna yfir tæplega 20 ára tímabil, meðal annars um kynjahlutföll í mismunandi störfum á Austurlandi. Þar eru kynjahlutföll greind skv. starfsflokkunarkerfinu ÍSTARF95 og með gögnum frá Hagstofu Íslands. Markmið vöktunar var að varpa ljósi á stöðu kynjanna í ólíkum starfsstéttum og þróun hennar yfir tíma. Þessi mælikvarði var ákveðinn af samráðshópi verkefnisins í upphafi, í ljósi þess að fábreytt atvinnulíf og hefðbundin kynjaskipting starfa geta haft áhrif á samfélagsþróun og búsetuskilyrði á svæðinu.
Konur í auknum mæli með ábyrgð og áhrif
Nýjustu tölur sýna að konur eru í auknum mæli að sækja í störf þar sem áhrif og ábyrgð eru mikil. Á tímabilinu 2007–2023 hækkaði hlutfall kvenna í stjórnunarstörfum úr 27,5% í 48%. Þá hefur hlutfall kvenna í sérfræðistörfum aukist úr 59,4% í 68%. Þessi þróun gefur til kynna að konur séu í auknum mæli að sækja sér menntun og sérhæfingu fyrir störf sem krefjast fagþekkingar og ábyrgðar.
Þessar niðurstöður fá stuðning í gögnum sem Austurbrú hefur safnað í tengslum við eigin rannsóknarverkefni. Þar kemur fram að kynjahlutfall í stjórnunarstöðum sveitarfélaga og stofnana hafi tekið miklum breytingum frá 2007 til 2025. Þá voru 34 karlar og 20 konur í slíkum stöðum, en árið 2025 eru karlar 23 og konur áfram 20. Hlutfall kvenna hefur því hækkað, þrátt fyrir fækkun stöðugilda stjórnsýslunnar í kjölfar sameiningar sveitarfélaga, sem fóru úr átta í fjögur. Svipuð þróun sést hjá bæjar- og sveitarstjórum, þar sem kynjahlutfall er nú jafnt en voru áður fimm karlar og tvær konur.
Mynd: Kynjahlutföll forstöðufólks og í stjórnmálum á Austurlandi 2007, samanborið 2025. Tölfræði frá Austurbrú.
Breytt forysta í landinu speglast í heimabyggð
Þróunin á Austurlandi endurspeglar breytingar á landsvísu, þar sem konur hafa á síðustu árum í auknum mæli tekið við leiðtogahlutverkum í samfélaginu. Í dag gegna konur meðal annars embætti forseta Íslands, forsætisráðherra og fleiri lykilráðuneyta, auk þess að leiða ríkisstofnanir og stjórnmálaflokka sem hafa víðtæk áhrif á samfélagið.
Samhliða þessu eru fleiri konur en áður að hasla sér völl í áhrifastöðum á Austurlandi. Það bendir til að jafnrétti í forystu sé ekki lengur aðeins framtíðarsýn – heldur þróun sem er þegar í gangi, bæði á landsvísu og í okkar heimabyggð.
Þó að fleiri konur gegni nú stjórnunarstöðum á Austurlandi er ljóst að áfram þarf að fylgjast með þróuninni – og skapa skilyrði þar sem jafnvægi og fjölbreytni einkennir allt stjórnunarstig atvinnulífsins.
Hér á Austurlandi höfum við lengi búið við fremur karllæga stjórnun enda hafa bæði forsvarsmenn í atvinnulífi og opinbera geiranum í meirihluta verið karlar. Nú erum við að sjá breytingu á þessu, t.d. með því að nú er í fyrsta skipti konur sem stýra tveimur stærstu sveitarfélögunum í landshlutanum og við sjáum líka fleiri konur í sveitarstjórnarmálum en oft hefur verið áður.
Það er jákvætt að sjá konur á Austurlandi taka pláss og þegar fram í sækir viljum sjá sem jöfnust kynjahlutföll í stjórnunarstöðum sem og í öðrum störfum. Þetta er mikilvægt því það skiptir máli hver stjórnar og hvernig. Konur og karlar hafa oft ólíkar hugmyndir og áherslur, best er að hafa blöndun á þessu til að ná góðu jafnvægi í hinum ýmsu málaflokkum. Þá eru fyrirmyndir afar mikilvægar og skiptir miklu máli að bæði ungar stúlkur og ungir drengir sjái í samfélaginu sínu fólk sem það getur litið upp til og speglað sig í.
- Dagmar Ýr Stefánsdóttir, Sveitarstjóri Múlaþings
Jafnrétti í stjórnun - en hvað með hin störfin?
Fækkun hefur verið á vinnumarkaði á Austurlandi síðustu fimmtán ár, og verið meiri meðal kvenna en karla:
- Árið 2007 voru um 5.600 manns á vinnumarkaði í landshlutanum:
- Um 2.660 konur
- Um 2.940 karlar
- Árið 2023 hafði heildarfjöldinn lækkað í um 5.000:
- Um 2.225 konur
- Um 2.775 karlar
- Það þýðir að:
- Konum á vinnumarkaði hefur fækkað um rúmlega 400 talsins.
- Hlutfall kvenna hefur lækkað úr 47,5% í 44,5% af heildarfjölda á vinnumarkaði.
- Körlum fækkaði um tæplega 165 á sama tíma.
- Hlutfall karla hefur hækkað úr 52,5% í 55,5%, í samræmi við fækkun kvenna.
Ein skýring á þessari þróun gæti verið sú að aldur íbúa á Austurlandi er að hækka. Sá hópur fólks sem hefur farið á eftirlaun er stærri, og nýliðun hefur verið takmarkaðri – sérstaklega meðal kvenna.
Kynjahlutföll eftir starfsgreinum – þróun og staða
Skrifstofustörf
-
Hlutfall kvenna hefur dregist saman úr 91% í 75,5%.
Þróunin gæti bent til þess að þátttaka kvenna í þessum störfum hafi minnkað, þó taka þurfi tillit til þess að konum hefur einnig fækkað á vinnumarkaði í heild.
Hefðbundnar karllægar greinar – lítil breyting
Iðnaður
- Konur voru rúm 5% af iðnaðarmönnum árið 2007.
- Þær eru rúm 6% árið 2023.
Landbúnaður og sjávarútvegur
- Konur voru 11,8% árið 2007.
- Þær eru 12,3% árið 2023.
Véla- og vélgæslustörf
- Á Austurlandi eru konur 2% vinnumarkaðarins í þessum störfum árið 2023.
- Hlutfallið er aðeins 0,4% á landsvísu.
- Árið 2007 var hlutfallið á Austurlandi 2,5%.
Þetta eru litlar breytingar, og hlutfall kvenna í þessum greinum er áfram mjög lágt – þó hærra á Austurlandi en að meðaltali á landsvísu.
Bændur og sjómenn – áberandi samdráttur meðal kvenna
- Árið 2007 voru konur rúm 5% af þeim hópi á Austurlandi.
- Árið 2023 eru þær aðeins 1,5%.
- Þrátt fyrir lágt hlutfall í dag hefur Austurland lengi verið yfir landsmeðaltali.
- Hugsanlegar skýringar á þróuninni
- Fleiri konur í þessum störfum eru komnar á eftirlaunaaldur
- Sumar hafa færst yfir í önnur störf
- Einnig gætu atvinnugreinarnar sjálfar verið að breytast
- Hugsanlegar skýringar á þróuninni
Áfram þarf að huga að aðgengi og áhrifum
Þróunin sýnir að konur eru í auknum mæli að sækja í áhrifastöður á Austurlandi og víðar. En þátttaka kvenna í atvinnulífinu er ekki sjálfgefin í öllum starfsgreinum.
Til að jafnrétti nái að skila sér í allt atvinnulífið þarf áfram að huga að aðgengi, viðhorfum og tækifærum – svo öll geti tekið þátt í að móta samfélagið.
Ábm: Lilja Sif Magnúsdóttir liljasif@austurbru.is