Fara í efni

Framvinda

Grunnvatnsmælingar sem hér eru til umfjöllunar tengjast m.a. vöktun á grunnvatnshæð í Fljótsdal og vöktun gróðurfars á Úthéraði. Með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar var gert ráð fyrir breytingum á grunnvatnsborði í nágrenni Jökulsár í Fljótsdal neðan frárennslisskurðar Fljótsdalsstöðvar sem og í nágrenni Jökulsár á Dal og Lagarfljóts á Úthéraði. Grunnvatnsborð fylgir breyttri vatnsstöðu í næsta nágrenni við vatnsföllin, lækkar við Jökulsá á Dal og hækkar við Lagarfljót. Fjær bökkum ánna fylgir grunnvatnsborð leysingum og úrkomu. Samanburðarmælingar á grunnvatnsborði í fjórum mælisniðum í Fljótsdal og á Úthéraði fyrir og eftir virkjun hafa sýnt fram á þessar breytingar. Niðurstöður mælinga eftir virkjun voru staðfestar með viðbótarmælingum árin 2015 og 2016. Ekki er talin frekari þörf á mælingum í nefndum fjórum mælisniðum og hefur þeim mælingum verið hætt.

Frá árinu 2013 hefur verið fylgst með grunnvatnsstöðu í fjórum grunnvatnsholum við Torfulón í landi Húseyjar. Ljóst þótti að land þar hefði blotnað eftir veitu Jökulsár á Dal til Lagarfljóts. Árið 2014 var ós Lagarfljóts færður til austurs en við þá aðgerð hefur grunnvatnsborð við Torfulón lækkað um allt að 30-40 cm (sjá minnisblað frá 28. maí 2020). Mælingum á grunnvatnsstöðu við Torfulón verður haldið áfram á meðan fylgst er með gróðurbreytingum á þessum slóðum.


Fjögur mælisnið hafa verið staðsett til þess að mæla grunnvatnshæð í holum nálægt ám. Samanburður á grunnvatnsborði (-hæð) fyrir virkjun byggist á mælingum 2000-2007 og eftir virkjun á mælingum frá og með 2008, þ.e. árin 2010 - 2011 og 2015-2016.

Fyrir Valþjófsstaðanes eru sýndar tvær myndir; einstakar vikulegar mælingar yfir þrjú tímabil; tvö fyrir og tvö eftir virkjun (mynd 1) samanborið við sískráningu vatnsborðs í viðkomandi vatnsfalli. Hins vegar er hin klassíska framsetning á meðaltali mælinga í hverri holu (mynd 2) og fyrir Bessastaðanes og Hól (myndir 3 og 4). Þær myndir hafa ekki verið uppfærðar, né myndir af mælingum við Hólmatungu (myndir 5 og 6).

Valþjófsstaðanes

Mynd 1.  Grunnvatnsstaða í hólum í Valþjófsstaðanesi FLJ1 (bláir punktar), FLJ2 (rauðir punktar) og FLJ3 (grænir punktar).

Mynd 1. Grunnvatnsstaða í holum í Valþjófsstaðanesi FLJ1 (bláir punktar), FLJ2 (rauðir punktar) og FLJ3 (grænir punktar).

Mynd 2.  Grunnvatnsborð við Valþjófsstaðanes fyrir virkjun (2001 - 2007) og eftir virkjun (2010 - 2011)

Mynd 2.  Grunnvatnsborð við Valþjófsstaðanes fyrir virkjun (2001 - 2007) og eftir virkjun (2010 - 2011)

Bessastaðanes

Mynd 3.  Breytingar á grunnvatnsborði í Bessastaðanesi fyrir virkjun (2001 - 2007) og eftir virkjun (2010 - 2011)

Mynd 3.  Breytingar á grunnvatnsborði í Bessastaðanesi fyrir virkjun (2001 - 2007) og eftir virkjun (2010 - 2011)

Við hól á Úthéraði

Mynd 4.  Breytingar á grunnvatnsborði við Lagarfljót hjá Hóli á Úthéraði samanborið við vatnsborð í fljótinu fyrir virkjun (2001 - 2007) og eftir virkjun (2010 - 2011).

Mynd 4. Breytingar á grunnvatnsborði við Lagarfljót hjá Hóli á Úthéraði samanborið við vatnsborð í fljótinu fyrir virkjun (2001 - 2007) og eftir virkjun (2010 - 2011)

Hólmatunga

Niðurstöður grunnvatnsmælinga á sniði við Hólmatungu eru sýndar á tveimur myndum; einstakar vikulegar mælingar yfir tvö tímabil fyrir og eitt eftir virkjun samanborið við sískráningu vatnsborðs í viðkomandi vatnsfalli (Mynd 5). Á efri myndina er safnað mælingum yfir sumarið, þ.e. á þeim tíma sem vatnsborð í Jöklu er sem lægst eftir virkjun. Á þeim tíma lækkar grunnvatnsborð um 40-60 cm í 600-1300 m fjarlægð frá ánni, samanborið við 30-35 cm að meðaltali yfir allt tímabilið, eins og sést á neðri myndinni.

Mynd 5.  Vatnshæð við Hólmatungu

Mynd 5.  Vatnshæði við Hólmatungu

Mynd 6.  Grunnvatnsborð við Hólmatungu fyrir virkjun (2001 - 2007) og eftir virkjun (2010 - 2011)

Mynd 6.  Grunnvatnsborð við Hólmatungu fyrir virkjun (2001 - 2007) og eftir virkjun (2010 - 2011)

Helstu niðurstöður

Mælingarnar eru í heildina blanda síritandi mælinga í einstaka holum á hverju sniði og vikulegra mælinga um afmarkaðan tíma í öðrum holum á sömu sniðum. Með þessu fást upplýsingar um tengsl grunnvatnsborðs á flatlendi við rennsli í næsta vatnsfalli og við úrkomu.

  1. Á flötum grónum aurum ræður vatnsborð í næsta stóra vatnsfalli mestu um grunnvatnsborð. Þetta getur átt við í a.m.k. 700-800 m frá ánni.
  2. Eftir að komið er að brekkurótum er grunnvatnsborð undir meiri áhrifum af úrkomu en vatnsfallinu. Þar hafa engar breytingar orðið eftir virkjun.
  3. Eins og spáð var hefur grunnvatnsborð hækkað við Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljót, en lækkað við Jökulsá á Dal.
  4. Gert var ráð fyrir að virkjunin gæti valdið allt að 25 cm hækkun grunnvatns við Valþjófsstaðanes, og miðað við landslag og dýpt á grunnvatn á aurum Jökulsár í Fljótsdal var fyrirséð að land myndi blotna ef ekkert yrði að gert. Gripið var til mótvægisaðgerða sem fólust í því að hreinsa og dýpka framræsluskurði og dæla vatni frá þeim yfir í Jökulsá í Fljótsdal. Hefði það ekki komið til væri grunnvatnsborð líklega um 1 m hærra í Valþjófsstaðanesi en það er nú og lægstu svæðin líklega undir vatni.

Uppfært: 5. september 2017 - endurskoðað 20. apríl 2020
Heimild: Landsvirkjun 

Vöktunaráætlun og markmið

Hvað er mælt?

Grunnvatnshæð í holum. (Áhrif framkvæmda: óbein)

Tilgangur mælinga er m.a. að greina áhrif af rekstri virkjunar frá náttúrulegum sveiflum.

Áætlun um vöktun

Fjögur mælisnið hafa verið staðsett til að mæla grunnvatnsborð í holum nálægt ám. Tvö eru í Fljótsdal og tvö á Úthéraði. Í hverju mælisniði hefur verið grunnvatnsstöð og vatnshæðarmælistöð í nærliggjandi vatnsfalli með stafrænu skrásetningarkerfi sem skráir vatnshæðina á klukkustundar fresti. Árleg skýrsla er síðan gefin út fyrir hverja mælistöð. Grunnvatnsstaða auk þess mæld handvirkt í öðrum á sniðunum með reglulegu millibili. Mest hefur verið byggt á síðastnefndu mælingunum. Eftir samantekt mælinga 2012 voru gerðar nokkrar breytingar á mælingunum eins og greinir í skýringum við myndir hér að neðan. Haft var samráð við leyfisveitands (Orkustofnun)

Myndirnar hér að neðan sýna mælistaði.

Mynd 2. Vatnsborðsmælar á Úthéraði

Myndin hér til hliðar sýnir vatnsborðsmæla í Jökulsá í Fljótsdal sem tengjast mælingum á grunnvatni á flatlendi við ána. Bláu hringirnir tákna síritandi vatnsborðsmæla í grunnvatnsholum og þeir svörtu grunnvatnsholur þar sem handmælt er (sbr. skýringar í efra hægra horni myndar). Rekstri mælis V396 var hætt 2013 og sömuleiðis grunnvatnsmælum BES-2 og FLJ3.

Breytt vöktun: Í kjölfar skýrslu Veðurstofu Íslands um samanburð á vatnsborði og grunnvatni á láglendi á Héraði og úttekt sem gerð var á gróðurbreytingum var ákveðið að bæta við einu grunnvatnssniði á láglendustu svæðunum út við Héraðssand í landi Húseyjar. Enn fremur var hætt að mæla efst á grunnvatnssniðunum. Sem stendur er eingöngu mælt í nýja sniðinu við Húsey.

Uppfært: 17. apríl 2020

Breytingar á vísi

Þessi vísir var upphaflega númer 25.1 . Þá hét hann Breytingar á vatnabúskap og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.

Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.

Tafla 1. Breytingar á nafni og númeri vísis.
Ár Nr. Nafn vísis
2020 2.1.3 Grunnvatnshæð í holum
2007 2.2b Breytingar á vatnabúskap

Grunnástand

Mælingar eru til á grunnvatnsborði í tveimur sniðum út frá Jökulsá í Fljótsdal og tveimur sniðum niður undir Héraðssandi, öðru við Jökulsá á Dal og hinu við Lagarfljót. Mælingar hófust haustið 2000 og voru gerðar vikulega út árið 2001 af heimamönnum. Síritandi mælar voru settir í nokkrar grunnvatnsholur 2003 og 2004. Vikulegar mælingar heimamanna voru endurteknar haustið 2005 og 2006 í þeim holum þar sem ekki er síritun.

Á eftirfarandi myndum er dæmi um grunnástand á einni mælistöð (borholu) á hverju sniði árin 2004-2007. Í þremur tilvikum er um að ræða efstu stöðina, þ.e. þá sem liggur fjærst viðkomandi vatnsfalli. Grunnvatnsborð í þessum holum hefur reynst vera óháð vatnsborði í vatnsföllunum, en gefur góða mynd af náttúrulegum breytingum í grunnvatni vegna veðurfars (leysinga og úrkomu). Aðeins í Bessastaðanesi reyndist síritandi mælir hafa hafnað í holu undir áhrifum af vatnsborði nærliggjandi vatnsfalls.

Að öðru leyti verður að vísa til mynda sem birtar eru í árangurskafla, þar sem grunnvatnshæð eftir virkjun er borin saman við grunnvatnshæð fyrir virkjun og hvoru tveggja við viðeigandi vatnsborðsmælingar í næsta vatnsfalli.

Grunnvatnshæð við Valþjófsstaðanes 2004-2007 (FLJ3)

Mynd 8. Grunnvatnshæð við Valþjófsstaðanes 2004-2007 (FLJ3)

Grunnvatnshæð við Bessastaðagerði 2004-2007 (BES2)

Mynd 9. Grunnvatnshæð við Bessastaðagerði 2004-2007 (BES2)

Grunnvatnshæð við Lagarfljót á Úthéraði, Hóll 2004-2007 (LAG4)

Mynd 10. Grunnvatnshæð við Lagarfljót á Úthéraði, Hóll 2004-2007 (LAG4)

Grunnvatnshæð við Jökulsá á Dal á Úthéraði, Hólmatunga 2004-2007 (DAL5)
Mynd 11. Grunnvatnshæð við Jökulsá á Dal á Úthéraði, Hólmatunga 2004-2007 (DAL5)

Forsendur fyrir vali á vísi

Með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar verður Jökulsá á Dal veitt úr Hálslóni yfir í Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljót. Einnig verður veitt vatni til virkjunarinnar úr Jökulsá í Fljótsdal og frá ám á Hraunum. Þessu fylgja talsverðar breytingar á vatnabúskap, rennsli eykst sums staðar en minnkar annars staðar, það dreifist öðru vísi innan ársins, vatnsborðshæð breytist, sem aftur getur haft áhrif á grunnvatnshæð, aurburð og rof getur breyst o.s.frv.

Vegna Kárahnjúkavirkjunar mun rennsli Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts aukast verulega, eða að meðaltali um tæplega 90 m³/s. Þannig eykst meðalrennsli við Egilsstaði um tæplega helming með tilkomu virkjunarinnar. Aukning í rennsli er talsvert misskipt innan ársins. Hún er mest við lágrennsli að vetrarlagi (um eða yfir 100 m³/s aukning), en mun minni yfir hárennslistíma sumarsins þegar virkjunin nýtir að stórum hluta vatn úr Jökulsá í Fljótsdal og af Hraunum. Aukning rennslis í flóðum er hins vegar hlutfallslega mun minni. Við óhagstæðustu aðstæður í flóðum (öll lón virkjunarinnar full) mun rennsli Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts aukast um nálægt 60 m³/s. Í stærstu mældu flóðum í Lagarfljóti (október og nóvember 2002) hefur hámarks innrennsli í Fljótið verið metið á bilinu 1650-1700m³/s. Mesta rennsli við Lagarfoss í sömu flóðum mældist hins vegar um 950m³/s. [Mismunur á innrennsli í Fljótið og rennsli við Lagarfoss stafar af miðlunaráhrifum stöðuvatnsins innan við Egilsstaði. Kárahnjúkavirkjun eykur því rennslið til Lagarfljóts í flóðum um 3-4%, og eftir útjöfnun sem verður í Lagarfljóti verður aukning við Lagarfoss um 30 m3/s (fer úr um 950 í um 980 m3/s).] a

Að sama skapi og rennsli eykst neðst í Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljóti þá minnkar rennsli verulega í Jökulsá á Dal. Meðalrennsli hennar minnkar verulega mestan hluta ársins, minnst þó síðsumars og fram á haust þegar mestar líkur eru á rennsli um yfirfall Kárahnjúkastíflu. [Flóða vegna jökulleysinga að sumarlagi mun ekki gæta fyrr en lónið er fullt, en það mun jafna út flóðtoppa.]a Dæmigerð haust-, vetrar- og vorflóð í neðri hluta árinnar minnka hins vegar tiltölulega lítið þar sem slík flóð eiga upptök sín að verulegu leyti af vatnasviðinu neðan Kárahnjúkastíflu. Það sama á við um Jökulsá í Fljótsdal ofan frárennslisskurðar Kárahnjúkavirkjunar.

a: Uppfært frá upprunalegum forsendum

Úr áfangaskýrslu um vísa og grunnástand frá apríl 2005

Ítarefni

Minnisblað - Grunnvatnsmælingar í Húsey

Minnisblað - Grunnvatnsmælingar í Húsey

2020

Frá árinu 2013 hefur Landsvirkjun fylgst með grunnvatnsstöðu við norðanverða bakka Lagarfljóts í landi Húseyjar. Tilgangur mælinganna er að fylgjast með áhrifum aukins rennslis Lagarfljóts á vatnsborð fljótsins og ágang þess á land Húseyjar. Mælingarnar nýtast einnig til gróðurvöktunar í
mælireitum á sama svæði. Grunnvatnsstaða hefur verið handmæld reglubundið í fjórum grunnvatnsholum einu sinni í viku frá vori og fram á haust (mynd 1). Holurnar fjórar (HUS1-4) eru í mælisniði sem liggur í um 800 m upp frá bakka Lagarfljóts. Í holunni næst ánni (holu 1=HUS1) hafa ásamt handmælingum farið fram síritandi mælingar á vatnsborði með síritanema.

 

 

Hægt er að skoða meira ítarefni sem snýr að vísinum með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan.