Fara í efni

Framvinda

Frá upphaflegri vöktunaráætlun hafa verið gerðar nokkrar breytingar sem helgast af niðurstöðum rannsókna og endurskoðaðri skilgreiningu á grunnástandi. Hér er gerð grein fyrir framvindu vísanna þriggja, en auk þess niðurstöðum rannsókna á vatna- og sundfuglum á Jökulsá á Dal og talningum á kjóa á Úthéraði og meðfram Jökulsá á Dal.

Hávella, skúfönd og stökkönd – dreifing og fjöldi á Lagarfljóti að sumarlagi

 
Sjálfbærni.is

Mynd 1. Hávellur á Lagarfljóti 2005 – 2023. Fyrstu árin var talið 6 sinnum á sumri, frá 2017 var talið 3 sinnum og tvisvar sinnum frá árinu 2021. 

Mikill breytileiki hefur verið í fjölda hávella á Lagarfljóti frá því talningar hófust í tengslum við Kárahnjúkavirkjun árið 2005. Hávellu fækkaði umtalsvert á Lagarfljóti á fyrstu starfsárum virkjunarinnar, á tímabilinu 2008 til 2012 (mynd 1). Möguleg skýring á þessari fækkun var talin geta verið aukið grugg í fljótinu samfara flutningum Jökulsár á Dal í Lagafljót með tilkomu Háslóns, en aukið grugg getur rýrt fæðuskilyrði kafanda. Það þarf þó ekki að vera, enda mátti merkja fækkun strax árið 2007, samanborið við sumarið 2006, en vatnaflutningur hófst ekki fyrr en eftir sumarið 2007. Önnur möguleg skýring á færri hávellum á Lagarfljótinu á þessu tímabili var talin geta tengst stofnsveiflum, en lítið er vitað um ástand stofnsins hér á landi eða hvort dreifing hafi breyst með einhverjum hætti.

Árið 2021 kom út skýrsla þar sem gerð var grein fyrir niðurstöðum rannsókna á fuglum á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar tímabilið 2004-2020. Þar kom fram að stærstu hópar hávella á rannsóknatímabilinu 2005-2020 á Lagarfljóti voru taldir árin 2006 (363 fuglar) og 2007 (215 fuglar). Eftir það minnkaði verulega í stærstu hópnum og fjöldinn var nokkuð sveiflukenndur. Að meðaltali sáust 56 fuglar í hóp á ári frá 2008 til 2020, fæstir 21 fugl í hóp árið 2015 og flestir 72 fuglar í hóp árið 2013.

Samanburður við eldri gögn frá árabilinu 1990 til 2000 sýndu að stærstu hópar sem taldir voru 2006 og áður en vatnaflutningar hófust árið 2007 voru óvenjustórir og ekki reyndust marktækt færri hávellur í stærstu hópunum eftir vatnaflutninga, frá 2008-2020, samanborið við talningar frá 1990 til 2007.

Frá árinu 2021 var talningum á Fljótinu fækkað um eina og aðeins talið tvisvar sinnum yfir sumarið. Mestur heildarfjöldi hávella á Lagafljóti í tveimur fyrstu talningum sumarsins frá árinu 2007 var árið 2020. Síðan þá hefur heildarfjölda hávella í tveimur talningum minnkað ár frá ári fram til 2023.

 Mynd 2. Hávellupar (varpeining). Ljósmynd SGÞ

Mynd 2. Hávellupar (varpeining). Ljósmynd SGÞ

Við frekari úrvinnslu gagna frá tímabilinu 2005 til 2023 kom í ljós að svokölluðum varpeiningum (stakir varpfuglar af báðum kynjum á varptíma í varpkjörlendi, pör með unga, hreiður og foreldralausir ungar) fjölgaði á Lagarfljóti (mynd 3) á meðan heildarfjöldi einstaklinga minnkaði á sama tíma, með undantekningu einstök ár (mynd 1). Því má ætla að Lagarfljót sé þýðingarmikill viðkomu-/áfangastaður fyrir varpfugla tegundarinnar þrátt fyrir vatnaflutningana árið 2007. Frá árinu 2018 hefur varpeiningum annars staðar á Héraðssvæðinu en á Lagarfljóti fækkað og árið 2023 var fjöldi þeirra með því minnsta sem mælst hefur frá 2005 (mynd 3). Tilfærslur innan svæðisins gætu skýrt þessar breytingar.

 
Sjálfbærni.is

Mynd 3. Fjöldi varpeininga (par, stakir varpfuglar á varptíma í varpkjörlendi, hreiður, egg, ungar) annars vegar á Lagarfljóti og hins vegar utan þess á Héraðssvæði frá 2005 – 2023.  

Andategundunum þremur (hávellu, skúfönd og stokkönd) sem til rannsóknar voru fækkaði á Lagafljóti á árunum 2009 - 2012 miðað við fyrri ár, en hafa verið að sækja aftur í sig veðrið undanfarin ár þó hefur breytileiki milli ára verið umtalsverður. Þannig reyndist árið 2019 t.d. sérstaklega dapurt hjá þessum tegundum. Tíðarfar það ár gæti hafa haft þar einhver áhrif en sumarið austanlands var frekar svalt og rakt. Þá sást næst mesti fjöldi stokkanda frá upphafi í talningu á Lagarfljóti árið 2022 og hafði áður verið mest árið 2005. Árið 2023 hafði svo aftur fækkað í stærstu hópum stokkanda og hávella en skúföndum fjölgaði frá fyrra ári (mynd 4). 

 
Sjálfbærni.is

Mynd 4. Stærstu hópar hávellu og skúfanda að vori og stokkanda að vetri á Lagarfljóti frá 2005-2023.

Uppfært: 26. mars 2024
Heimild: Landsvirkjun 2022, Náttúrustofa Austurl ands, 2022


Fjöldi grágæsa með unga og í fjaðrafelli á aurum Jökulsár á Dal og geldgæsir með Lagarfljóti

Sérstök úttekt var gerð á grágæs árið 2005 sem var endurtekin 2013. Samantekt gagna sem fyrir lágu leiddu til þeirrar niðurstöðu að þróun hjá grágæsum á Héraði benti til að vatnaflutningar hefði haft takmörkuð áhrif á þær og að ekki væri tilefni til að fylgjast með þeim lið í vöktun vegna virkjunarinnar.


Fjöldi skúma í varplandi á aurum Jökulsár á Dal og ysta hluta Úthéraðs næst Héraðsflóa.

Árið 2021 kom út skýrsla þar sem gerð var grein fyrir niðurstöðum rannsókna á fuglum á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar tímabilið 2004-2020 og m.a. skúmum. Fjöldi skúma hefur sveiflaðist töluvert á árunum 2005-2021, jafnvel frá árinu 2000, án þess að hægt væri að sjá augljósar tengingar við starfsemi Kárahnjúkavirkjunar. Líklegt var talið að sveiflurnar tengdust utanaðkomandi þáttum og sveiflum í stofninum en frá 2015 hafði verið stígandi fjölgun og varð fjöldinn nú svipaður og var á svæðinu fyrir virkjun (mynd 5). Varppörum fækkaði á tímabilinu 2008-2011 og hefur fjöldi þeirra haldist nær óbreyttur síðan.

 
Sjálfbærni.is

Mynd 5. Fjöldi skúma í farvegi Jökulsár á Dal árið 2000 (Guðmundur A. Guðmundsson o.fl. 2001), og vöktunarárin 2005 - 2021, 2011, 2013-2016 (Halldór W. Stefánsson 2016) og 2017 til 2023. Öll talningaárin voru sömu svæði skoðuð með sama hætti. Engar talningar voru á svæðinu frá 2001-2004 og árin 2010 og 2012 í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

Mynd 4. Skúmur. Ljósmynd HWS

Mynd 6. Skúmur. Ljósmynd HWS

Uppfært: 27. mars 2024
Heimild: Landsvirkjun, 2024 og Náttúrustofa Austurlands, 2022

Vöktunaráætlun og markmið

Hvað er mælt?
  1. Hávella, skúfönd og stokkönd – dreifing og fjöldi á Lagarfljóti að sumarlagi. (Áhrif: óbein)
  2. Fjöldi grágæsa með unga og í fjaðrafelli á aurum Jökulsár á Dal og geldgæsir með Lagarfljóti. (Áhrif: óbein)
  3. Fjöldi skúma í varplandi á aurum Jökulsár á Dal og ysta hluta Úthéraðs næst Héraðsflóa. (Áhrif: óbein)
Áætlun um vöktun
  1. Hávella: Grunnupplýsingum var safnað 2005-2007. Vöktuð árlega.
  2. Grágæs: Grunnupplýsingum safnað 2005. Rannsóknir endurteknar á 5- 10 ára fresti.
  3. Skúmur: Grunnupplýsingum safnað 2005-2007. Endurtekið 2008, 2009, 2011 og 2013. Vöktun árlega á hluta svæðisins fyrst um sinn og á 5-10 ára fresti á öllu Úthéraði.
Markmið

Markmið í þessum vísi eru í raun frekar væntingar.

  1. Dreifing hávellu haldist óbreytt.
  2. Fjöldi grágæsa í sárum á aurum Jökulsár á Dal haldist óbreyttur.
  3. Fjöldi skúmshreiðra á aurum Jökulsár á Dal haldist óbreyttur.
Mögulegar viðbragðsaðgerðir

Einungis er um vöktun að ræða.

Uppfært: 7. desember 2015

Breytingar á vísi

Á ársfundi verkefnisins 6. maí 2015 voru eftirtaldar breytingar samþykktar:

Tafla 1. Breytingar á vísi samþykktar á ársfundi 2018
Texti fyrir breytingu: Texti eftir breytingu:

Hvað er mælt?

  1. Atferli lóms - fjöldi skipta sem fuglar sækja fæði í Lagarfljót og fjöldi skipta sem þeir sækja fæði úr á haf ( eða fjöldi fugla á klukkustund við ána og út á hafi)
  2. Hávella - dreifing stofns á Úthéraði
  3. Fjöldi grágæsa í fellistöðvum á aurum Jökulsár á Dal
  4. Fjöldi skúmshreiðra í varplandi á aurum Jökulsár á Dal

Hvað er mælt?

Athuganir á Lómi felldar út.

  1. Hávella, skúfönd og stokkönd - dreifing og fjöldi á Lagarfljóti að sumarlagi.
  2. Fjöldi grágæsa með unga og í fjaðrafelli á aurum Jökulsár á Dal og geldgæsir með Lagarfljóti
  3. Fjöldi skúma í varplandi á aurum Jökulsár á Dal og ysta hluta Úthéraðs næst Héraðsflóa.

Rökstuðningur breytinga:

Vöktunaráætlun hefur tekið nokkrum breytingum frá því verkefnið hófst, breytingar eru gerðar í samráði við fuglafræðinga. Grunnrannsóknir a lóm frá 2004 - 2005 leiddu í ljós að lómur sækir enga fæðu inn á land eða í Lagarfljót og því ekki tilefni til að fylgjast með honum.

Það þykir ekki rétt að tala um stofn hávellu og því var mæling endurskilgreind þannig að skoðuð er dreifing hávellu á Lagarfljóti að sumarlagi. Að auki hefur verið bætt við mælingum á andfuglum.

Upphaflega var flygst með fjölda grágæsa "í sárum" á aurum Jökulsár á Dal en nú er talinn fjöldi grágæsa með unga og í fjaðrafelli á aurum Jökulsár á Dal og geldgæsir með Lagarfljóti þar sem það er talið gefa betri mynd.

Í upphafi var talinn fjöldi skúmshreiðra en núna er fylgst með fjölda skúma þar sem það er talið raunhæfari mælikvarði.
Markmið allra þessara breytinga eru að fanga breytileika náttúrunnar og nauðsynlegt að verkefnið hafi sveigjanleika til að aðlagast sveiflum í náttúrunni.


Breytingar - upphafleg vöktunaráætlun var orðuð eins og hér fer eftir:

  1. Sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands safna upplýsingum. Flugstefna lómanna verður kortlögð og fylgst með atferli þeirra á lykilstöðum, til að finna út að hve miklu leyti þeir leita í fljótin eftir fæðu og að hve miklu leyti til sjávar. Grunnrannsókn fer fram sumurin 2004 og 2005.
  2. Sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands safna gögnum. Fuglatalningar og dreifing kortlögð. Grunnupplýsingum safnað árið 2005 og nýjum upplýsingum safnað árið 2015.
  3. Sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands safna gögnum. Fuglatalningar þar sem stuðst veður við bæði loftmyndir og vettvangsskoðanir. Grunnupplýsingum safnað árið 2005 og nýjum upplýsingum safnað árið 2015.
  4. Sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands safna gögnum. Fuglar verða taldir árlega á tímabilinu 2005-2008

Þessi vísir var upphaflega númer 24.3 . Þá hét hann Varpfuglar á Úthéraði og má finna umfjöllun um hann undir því númeri í áfangaskýrslum verkefnisins frá 2005 og 2006.

Tvisvar hefur númeri vísis verið breytt.

Tafla 2. Breytingar á númeri og nafni vísis.
Ár Nr. Nafn vísis
2020 2.5.3 Varpfuglar á Úthéraði
2007 2.22 Varpfuglar á Úthéraði

Grunnástand

Talið var að tilkoma Kárahnjúkavirkjunar myndi mögulega hafa áhrif á fæðuöflun lóms á áhrifasvæði virkjunarinnar. Árin 2004 og 2005 var hegðun lóms m.t.t. fæðuöflunar skoðuð og bentu athuganir til þess að lómurinn leitaði einkum fæðu í hafinu, og var því ekki talin ástæða til að fylgjast frekar með honum.

Í aðdraganda virkjunar var fylgst með hávellu á Lagarfljóti frá 2005, og ályktanir um áhrif virkjunar hafa verið dregnar af samanburði við þær athuganir. Náttúrustofa Austurlands hefur tekið saman gögn frá 1989 yfir athuganir á algengum andategundum á Lagarfljóti (mynd 12). Þar kemur m.a. fram að breytileiki er umtalsverður á milli ára hjá öllum tegundunum. Í eldri heimildum er sagt frá því að hámarks fjöldi hávellu á Lagarfljóti var 9. júní 1983 eða 440 fuglar sem var talið tengjast harðindum á heiðarvötnum austanlands (Skarphéðinn Þórisson 1990), þannig að dæmi eru um toppa hávellu önnur ár en 2005-2007. Í sömu heimild er tekið fram að hávella sé algengasta umferðaröndin á Lagarfljóti og að meðalfjöldi hávella í hóp (maí-júní) sé 107 fuglar (í 16 mælingum).

 
Sjálfbærni.is

Mynd 12. Breytingar á stærstu hópum hávellu og skúfanda að vori og stokkanda að vetri á Lagarfljóti frá 1989 til 2007. 

Skúmar voru taldir á Úthéraði frá árinu 2006 til 2013, að undanskildum árunum 2010 og 2012. Upphaflega var gert ráð fyrir að hafa stuðning af sambærilegum rannsóknum annarsstaðar, svo sem frá Öxarfirði og Breiðamerkursandi. Engar sambærilegar talningar eru þekktar frá Breiðamerkursandi þessi ár, en nokkrar athuganir frá Öxarfirði. Samanburður við talningar í Öxarfirði sýndi að þar er líka að finna breytileika í fjölda milli ára, líkt og á Úthéraði (mynd 2).

 
Sjálfbærni.is

Forsendur fyrir vali á vísi

Erfitt getur reynst að greina áhrif framkvæmda á fuglalíf á Úthéraði þar sem margir aðrir þættir geta haft jafnmikil eða meiri áhrif. Athuganir hafa sýnt að áhrif vatnsborðsbreytinga á gróður verða líklega óveruleg. Því beinir þessir vísir einkum sjónum að þeim fuglategundum sem ætla má að séu háðar æti úr Lagafljóti eða gætu orðið fyrir áhrifum vegna breytinga á farvegum Jökulsár á Dal. T.d. var talið hugsanlegt að bætt aðgengi að aurum Jökulsár á Dal gæti leitt til fækkunar á grágæsum sem nota fellistöðvar á aurunum og eins að bætt aðgengi afræningja gæti haft neikvæð áhrif á varp skúms á svæðinu.

Úr áfangaskýrslu um vísa og grunnástand frá apríl 2005

Ítarefni

LV-2017/049 - Vatna- og sundfuglar á Jökulsá á Dal og endur á Lagarfljóti og á vötnum á Fljótsdalsheiði árið 2016.

LV-2017/049 - Vatna- og sundfuglar á Jökulsá á Dal og endur á Lagarfljóti og á vötnum á Fljótsdalsheiði árið 2016.

2017
Náttúrustofa Austurlands annaðist úttekt á völdum fuglategundum á vatnasviði Kárahnjúkavirkjunar fyrir Landsvirkjun sumarið 2016. Endur voru taldar á Lagarfljóti og vötnum á Fljótsdalsheiði auk þess sem vatna- og sundfuglar voru taldir á Jökulsá á Dal (Jöklu) þriðja árið í röð. Í heildina fjölgaði hávellum á Fljóti en fækkaði á heiðarvötnum. Skúföndum fækkaði einnig á Fljótinu en stokkendur stóðu í stað milli ára og líka hávellum á Jöklu. Fuglum fjölgaði hjá nokkrum tegundum á Jöklu m.a. hjá máfum, kjóa, kríu og lóm en einstaklingum hjá nokkrum tegundum andfugla fækkaði og einnig skúmum. Álftum og straumöndum fjölgaði milli ára.

Halldór W. Stefánsson, Skarphéðinn G. Þórisson og Kristín Ágústsdóttir (2021). Fuglarannsóknir á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar 2004-2020. LV -2022-007 (NA-210214).
Sjá skýrslu

Halldór Walter Stefánsson 2017. Vatna og sundfuglar á Jökulsá á Dal og endur á Lagarfljóti og á vötnum á Fljótsdalsheiði árið 2016. LV-2017-049 (NA-170169) Sjá skýrslu

Halldór Walter Stefánsson 2016. Vatna- og sundfuglar á Jökulsá á Dal og endur á Lagarfljóti og vötnum á Fljótsdalsheiði árið 2015. LV-2016-074 (NA-160161). Sjá skýrslu

Halldór Walter Stefánsson 2015. Vatna- og sundfuglar á Jökulsá á Dal og endur á Lagarfljóti og á vötnum á Fljótsdalsheiði árið 2014. LV-2015-071 (NA-150150). Sjá skýrslu

Halldór Walter Stefánsson 2014. Vöktun skúms á Úthéraði 2005-2013. LV-2014-037 (NA-140136)Sjá skýrslu

Halldór Walter Stefánsson 2014. Andatalningar á Lagarfljóti og á Fljótsdalsheiði 2013. LV-2014-034 (NA-140133).

Halldór Walter Stefánsson 2013. Hávellur á Lagarfljóti og vötnum á Fljótsdalsheiði 2012. LV-2013-040 (NA-130126). Sjá skýrslu

Halldór Walter Stefánsson 2012. Hávellutalningar á Lagarfljóti og á vötnum í Fljótsdalsheiði 2011. LV-2012-036 (NA-120120). Sjá skýrslu

Halldór Walter Stefánsson 2011. Hávellutalningar á Lagarfljóti. LV-2011-038 (NA-110110). Sjá skýrslu

Halldór Walter Stefánsson 2010. Hávellutalningar á Lagarfljóti og varpdreifing skúms á Úthéraði 2009. LV-2010/045 (NA-100100). Sjá skýrslu